Hækkun styrkja og uppbóta til hreyfihamlaðs fólks vegna bifreiðakaupa
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur sett reglugerð sem kveður á um 20% hækkun uppbóta og styrkja til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Gildistími reglugerðarinnar er afturvirkur frá 1. nóvember síðastliðnum.
Fjárhæðir uppbóta og styrkja vegna bifreiðakaupa samkvæmt reglugerð nr. 170/2009 voru síðast hækkaðar í byrjun árs 2009 en höfðu þá verið óbreyttar til langs tíma. Þar sem kaupverð bifreiða hefur hækkað mjög á síðustu árum er frekari hækkun þessara fjárhæða orðin tímabær og til þess fallin að auðvelda þeim bifreiðakaup sem mest þurfa á að halda.
Hækkun uppbóta vegna bifreiðakaupa
Uppbætur vegna kaupa á bifreiðum er heimilt að greiða elli- og örorkulífeyrisþegum og örorkustyrkþegum vegna kaupa á bifreið sem nauðsynleg er vegna hreyfihömlunar. Eins er heimilt að veita uppbót vegna hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna. Samkvæmt reglugerðarbreytingunni hækka uppbætur til þeirra sem uppfylla skilyrði reglugerðarinnar úr 300.000 kr. í 360.000 kr. og uppbætur til þeirrra sem eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn hækka úr 600.000 kr. í 720.000 kr.
Hækkun styrkja vegna bifreiðakaupa
Heimilt er að veita hreyfihömluðum einstaklingum styrk til kaupa á bifreið til eigin nota að uppfylltum tilteknum skilyrðum og einnig er heimilt að veita styrk þeim sem bera ábyrð á framfærslu hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna, svo sem vegna aksturs í reglubundna þjálfun, meðferð eða skóla. Þessir styrkir hækka úr 1.200.000 kr. í 1.440.000 kr.
Samkvæmt reglugerðinni er í sérstökum tilfellum heimilt að veita styrk vegna mikið fatlaðra barna yngri en tíu ára ef barnið sem í hlut á þarf sannarlega sambærilega bifreið og fullorðinn einstaklingur í sambærilegri aðstöðu. Með þessu ákvæði, sem er nýmæli í reglugerðinni, er verið að staðfesta framkvæmd Tryggingastofnunar á veitingu styrkja í kjölfar úrskurða frá úrskurðarnefnd almannatrygginga.