Hoppa yfir valmynd
22. mars 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sérstök móttaka viðkvæmra hópa flóttafólks frá Úkraínu

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um að fela flóttamannanefnd að útfæra tillögur um sérstaka móttöku viðkvæmra hópa flóttafólks frá Úkraínu, og eftir atvikum tillögur sem eru til þess fallnar að létta á álagi í nágrannaríkjum Úkraínu vegna fjölda flóttafólks.

Telur ríkisstjórnin mikilvægt að huga að hópum sem eru í sérlega viðkvæmri stöðu og einnig hvort hægt sé að létta á byrðum þeirra ríkja þar sem flest flóttafólk er staðsett. Flóttamannanefnd mun útfæra tillögur til ríkisstjórnarinnar um hvernig framlag íslenskra stjórnvalda geti gagnast sem best við þær erfiðu aðstæður sem blasa við flóttafólki í viðkvæmri stöðu. Við gerð tillagna mun flóttamannanefnd leita bæði til sveitarfélaga og stofnana um hvar sé svigrúm til þess að veita slíka aðstoð, ásamt því að leita til félagasamtaka sem hafa sérþekkingu á þeim hópum sem um ræðir, t.d. til Landssamtakanna Þroskahjálpar, Öryrkjabandalags Íslands, Samtakanna ´78 og Ljóssins.

Í flóttamannanefnd eru fulltrúar félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis auk áheyrnafulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Rauða krossinum á Íslandi og Útlendingastofnun. Flóttamannanefnd hefur í ljósi aðstæðna einnig boðað fulltrúa frá heilbrigðisráðuneyti á fundi og mun eiga samráð við mennta- og barnamálaráðuneyti sömuleiðis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta