Hoppa yfir valmynd
23. desember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 15/2019

Hinn 26. nóvember 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 15/2019:

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmálsins nr. S-976/2014

Ákæruvaldið

gegn

Boga Erni Emilssyni,

X og

Iðu Marsibil Jónsdóttur

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

  1. Beiðni um endurupptöku
    1. Með erindi, dagsettu 16. desember 2019, fór Iða Marsibil Jónsdóttir þess á leit að héraðsdómsmálið nr. S-976/2014, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. júlí 2015, verði endurupptekið hvað hana varðar.
    2. Þá var þess óskað að réttaráhrifum dómsins yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar fyrir endurupptökunefnd, sbr. 2. mgr. 230. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
    3. Loks var þess óskað að Einar Hugi Bjarnason hrl. yrði skipaður talsmaður hennar, sbr. 1. mgr. 230. gr. laga um meðferð sakamála.
    4. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Gizur Bergsteinsson og Guðmundur Sigurðsson.
  2. Málsatvik
    1. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-976/2014, sem kveðinn var upp 8. júlí 2015, var endurupptökubeiðandi fundin sek um að hafa sem framkvæmdastjóri Skjals ehf. eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins á lögmæltum tíma vegna tveggja uppgjörs­tímabila á árinu 2010 og eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins á sömu uppgjörstímabilum. Þá var hún fundin sek um að hafa sem framkvæmdastjóri félagsins eigi staðið skil á skilagreinum félagsins vegna staðgreiðslu opin­berra gjalda á lögmæltum tíma vegna fjögurra uppgjörstímabila á árinu 2010 og eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opin­berra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna, á sömu uppgjörstímabilum. Brotin voru talin varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Með dóminum var endurupptökubeiðanda gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu refsingar hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var endurupptökubeiðanda gert að greiða 8.300.000 króna sekt til ríkissjóðs og skyldi fimm mánaða fangelsi koma í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Þá var endurupptökubeiðandi dæmd til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns. Endurupptökubeiðandi áfrýjaði ekki dóminum.
    2. Endurupptökubeiðandi kveður það ekki rétt sem fram komi í dóminum að hún hafi játað sök að hluta. Endurupptökubeiðandi kveðst hafa viðurkennt að á þeim tíma sem hún var skráð framkvæmdastjóri hafi virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda ekki verið skilað á réttum tíma. Með þessu hafi hún hins vegar ekki játað að hafa sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi í skilningi 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þvert á móti hafi málsvörn hennar byggst á því að skattskil og skil á skilagreinum hafi verið í höndum dómfellda Boga Arnar Emilssonar.
  3. Grundvöllur beiðni
    1. Endurupptökubeiðandi byggir á því að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hafi hún verið ranglega sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.
    2. Af hálfu endurupptökubeiðanda er á því byggt að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin og það hafi valdið rangri niðurstöðu málsins, sbr. c-liður 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Af þeim sökum beri að fallast á beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku málsins.
    3. Í skýrslu dómfellda Boga Arnar hafi komið fram að ástæða þess að ekki hafi verið staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda hafi verið sú að fjármunir hafi ekki verið til staðar. Hafi launagreiðslur og greiðslur til undirverktaka verið látnar ganga fyrir. Ákveðið hafi verið að endurupptökubeiðandi tæki við sem framkvæmdastjóri félagsins en á þessum tíma hafi hún og dómfelldi Bogi Örn verið í sambúð. Fyrir dómi hafi Bogi Örn sagt það hafa verið sína ákvörðun að greiða laun frekar en opinber gjöld. Fyrir dómi hafi endurupptökubeiðandi borið á sama veg um að Bogi Örn hafa gefið fyrirmæli um hvað ætti að greiða og hún ekki talið sig hafa völd til að standa frekar skil á opinberum gjöldum.
    4. Í málsvörn sinni hafi endurupptökubeiðandi einkum byggt á því að hún hafi ekki borið ábyrgð á vanskilum opinberra gjalda, þar sem dómfelldi Bogi Örn hafi tekið ákvarðanir um hvernig greiðslum skyldi ráðstafað í rekstri félagsins, þ.m.t. skilum á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Héraðsdómur hafi ekki fallist á þessar varnir endurupptökubeiðanda og vísað til stöðu hennar sem framkvæmdastjóra félagsins á umræddu tímabili og þeirra lagaskyldna sem hvíla á framkvæmdastjóra. Samkvæmt þeirri stöðu hafi endurupptökubeiðandi borið ábyrgð á því að staðið væri skil á lögboðnum gjöldum, virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum til skattyfirvalda svo sem lög gera ráð fyrir, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.
    5. Endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína á því að héraðsdómur hafi ranglega litið fram hjá samhljóða framburðum sakborninga í málinu þess efnis að hún hafi ekki átt neinn þátt í því að ákveða hverjar af skuldum skattaðila yrðu greiddar umfram aðrar. Staðreyndin hafi einfaldlega verið sú að endurupptökubeiðandi hafi hvorki haft með höndum að annast um skil á skýrslum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda né annast um greiðslur á grundvelli þeirra. Endurupptökubeiðandi telur því að hún geti ekki borið ábyrgð á vanskilum á opinberum gjöldum á þeim tímabilum sem greind voru í ákæru.
    6. Endurupptökubeiðandi vísar í þessu sambandi til þess að upplýsingar um eiginlega verkaskiptingu stjórnenda skipti sköpum við sakarmat, þegar litið er til dómaframkvæmdar á þessu sviði á umliðnum árum. Í stað þess að einblína á skráða stöðu viðkomandi og skyldur samkvæmt lögum, líkt og gert var í héraðsdómsmáli nr. S-976/2014, skipti sköpum við mat á því hvort saknæmisskilyrðum er fullnægt hver raunveruleg aðkoma viðkomandi var að fjármálum félags og skattskilum. Í þessu sambandi vísar endurupptökubeiðandi til dóma Hæstaréttar í málum nr. 354/2013, 388/2013 og 295/2014.
    7. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að samskonar sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar í dómaframkvæmd þegar refsiábyrgð framkvæmdastjóra er metin. Úrslit mála hafi ráðist af því hvað telst upplýst um raunverulega aðkomu framkvæmdastjóra að skattskilum viðkomandi félags. Endurupptökubeiðandi vísar í því samhengi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 321/2015 og telur að samkvæmt dóminum sé ljóst að formleg skráning framkvæmdastjóra sé ekki ein og sér nægjanleg til að fella refsiábyrgð á framkvæmdastjóra vegna vanskila á vörslusköttum. Endurupptökubeiðandi vísar enn fremur til dóms Hæstaréttar í máli nr. 777/2015 og telur dóminn styrkja fordæmi réttarins í máli nr. 321/2015. Að lokum vísar endurupptökubeiðandi til dóms Landsréttar frá 20. apríl 2018 í máli nr. 2/2018, sem reistur sé á sömu sjónarmiðum og framangreindir dómar Hæstaréttar.
    8. Endurupptökubeiðandi telur að tilvitnaðir dómar sýni, svo ekki verið um villst, að sönnunargögnin sem færð voru fram í máli hennar hafi verið rangt metin og það hafi valdið rangri niðurstöðu málsins, sbr. c-liður 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Ekki sé unnt að bera því við að um síðari tíma dómaframkvæmd hafi verið að ræða sem breytt hafi eldri dómaframkvæmd. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 392/2006 þar sem sjónarmiðum um eiginlega verkaskiptingu hafi fyrst verið gefin aukið vægi hafi verið kveðinn upp 31. maí 2007. Dómur í máli endurupptökubeiðanda hafi verið kveðinn upp 8. júlí 2015. Vísar endurupptökubeiðandi til þess að á árunum 2013 og 2014 hafi þrír dómar fallið í Hæstarétti, sem hafi byggt á sömu sjónarmiðum, þ.e. í málum nr. 354/2013, 388/2013 og 295/2014. Byggir endurupptökubeiðandi á því að héraðsdómurinn í máli hennar sé beinlínis í andstöðu við þessa dómaframkvæmd Hæstaréttar og af þeim sökum beri að fallast á beiðni um endurupptöku málsins.

       

  4. Viðhorf gagnaðila
    1. Í umsögn ríkissaksóknara, dags. 19. október 2020, er tekin afstaða til þeirra atriða sem endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína á.
    2. Ríkissaksóknari vísar í fyrsta lagi til þess að dómur í máli endurupptökubeiðanda hafi gengið fyrir fimm árum síðan og þá hafi runnið út áfrýjunarfrestur í málinu. Vísar ríkissaksóknari til þess að röksemdir í endurupptökubeiðni hefðu að öllu jöfnu komið til skoðunar við áfrýjun málsins ef endurupptökubeiðandi hefði kosið að áfrýja dóminum. Telur ríkissaksóknari að þar sem endurupptökubeiðandi hafi kosið að áfrýja ekki dóminum, hafi hún ákveðið að una dómi. Sú ákvörðun standi, enda séu röksemdir fyrir endurupptöku ekki byggðar á öðrum málsástæðum en þeim sem hún hefði mátt hafa uppi við áfrýjun. Þegar eingöngu er ætlunin að fá endurskoðun á dómi héraðsdóms sé áfrýjun hin rétta leið til þess, en ekki beiðni um endurupptöku málsins fimm árum síðar. Ríkissaksóknari telur að meira þurfi til þess að koma ef heimila eigi endurupptöku á grundvelli c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála en það að halda megi uppi mótbárum sem gætu réttlætt áfrýjun, enda segi í c-lið að heimila skuli endurupptöku ef verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn hafi verið ranglega metin. Heimildin sé bundin við það síðast nefnda og ekki sé heimilt að endurupptaka dóm á grundvelli túlkunar lagareglna.
    3. Ríkissaksóknari vísar í öðru lagi til þess að endurupptökubeiðandi hafi ekki rökstutt að verulegar líkur hafi verið á því að sönnunargögn hafi verið rangt metin í málinu, heldur að lagaákvæði um ábyrgð framkvæmdastjóra á skattskilum einkahlutafélags hafi verið rangt túlkuð í héraðsdóminum. Þeir dómar Hæstaréttar, sem endurupptökubeiðandi vísar til í beiðni sinni, hafi ekki þýðingu í málinu þar sem þeir snúi allir að túlkun á lagalegri ábyrgð stjórnenda einkahlutafélaga. Dómarnir fjalli þannig ekki um mat á sönnunargögnum heldur innihaldi lagalegrar ábyrgðar framkvæmdastjóra. Verði endurupptaka málsins því ekki reist á c-lið 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
    4. Loks vísar ríkissaksóknari til þess að héraðsdómur hafi tekið afstöðu til framburðar endurupptökubeiðanda þar sem hún hafi játað að hafa borið ábyrgð á að skýrslum og skilagreinum hafi ekki verið skilað þann tíma sem hún var skráður framkvæmdastjóri. Í þeim hæstaréttardómum sem raktir eru í endurupptökubeiðni, þar sem framkvæmdastjórar hafi verið sýknaðir, hafi verið lögð áhersla á að öðrum hafi verið til að dreifa sem hafi annast fjármál félags og skráning framkvæmdastjóra hafi verið gerð til málamynda. Þessi sjónarmið eigi ekki við í tilviki endurupptökubeiðanda. Vísar ríkissaksóknari til þess að niðurstaða héraðsdóms hafi alfarið oltið á túlkun á 44. gr. laga um einkahlutafélög.
    5. Endurupptökunefnd sendi framangreindar athugasemdir ríkissaksóknara á lögmann endurupptökubeiðanda með bréfi 26. október 2020. Ekki bárust frekari athugasemdir og var málið því tekið til úrskurðar.
  5. Niðurstaða
  1. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIV. kafla laga um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 228. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti í þeim tilvikum þar sem héraðsdómur hafi gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur er liðinn orðið við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, um að málið verði endurupptekið í héraði ef einhverju þeirra skilyrða sem koma fram í stafliðum a til d í ákvæðinu er fullnægt.

    Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

    a.     fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,

    b.    ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

    c.     verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

    d.    verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

  2. Til að fallist verði á endurupptöku nægir að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.
  3. Við meðferð málsins í héraði krafðist endurupptökubeiðandi sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Fyrir dómi kvaðst hún hafa tekið að sér stöðu framkvæmdastjóra Skjals ehf. en tilkynning til fyrirtækjaskrár þar um er dagsett 26. júlí 2010. Hlutverk hennar hafi verið að „reyna að rétta af reksturinn“ en það hafi tekið hana nokkurn tíma að gera sér grein fyrir slæmri fjárhags­stöðu félagsins. Kvaðst hún hafa séð um daglegan rekstur félagsins, en Bogi Örn stjórnað því í hvaða röð kröfur væru greiddar og gefið fyrirmæli um að greiðslur til verktaka ættu að hafa forgang svo að hægt væri að halda rekstrinum gangandi. Kvaðst endurupptökubeiðandi ekki hafa talið sér heimilt að ganga gegn fyrirmælum hans.
  4. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-976/2014 var endurupptökubeiðandi sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Var henni gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði og til þess að greiða 8.300.000 króna sekt til ríkissjóðs auk þess að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.
  5. Endurupptökubeiðandi byggir á því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-liður 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
  6. Beiðni endurupptökubeiðanda er byggð á því að hún hafi ekki borið ábyrgð á skattgreiðslum félagsins. Dómfelldi Bogi Örn hafi tekið ákvarðanir um hvaða kröfur skyldu greiddar, þar með talið skattkröfur, svo sem hann hafi staðfest í framburði sínum fyrir dómi. Með vísan til þessa telur endurupptökubeiðandi að sönnunargögn í málinu hafi verið rangt metin svo áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Í þessu sambandi vísar hún til dóma Hæstaréttar í málum þar sem framkvæmdastjórar einkahlutafélaga hafi verið sýknaðir af kröfu ákæruvaldsins þegar þeir hafi í raun ekki borið ábyrgð á skattskilum.
  7. Endurupptökubeiðandi gaf skýrslu fyrir héraðsdómi við aðalmeðferð málsins en í dómi héraðsdóms segir svo um þátt endurupptökubeiðanda:

    Ákærða Iða Marsibil Jónsdóttir var skráður framkvæmdastjóri Skjals ehf. frá 29. júlí til 14. desember 2010. Hún hefur viðurkennt að hafa á þeim tíma ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma, eins og í ákæru greinir. Hún hefur einnig kannast við að ekki hafi verið staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu, eins og þar kemur fram, en krefst sýknu af þeim hluta ákærunnar. Er vörn ákærðu einkum byggð á því að hún hafi ekki borið ábyrgð á vanskilum opinberra gjalda, þar sem meðákærði Bogi Örn hafi tekið ákvarðanir um hvernig greiðslum skyldi ráðstafað í rekstri félagsins, þ.m.t. skattskil.

    Ákærða, sem er viðskiptafræðingur að mennt, hefur borið að hún hafi verið fengin til að taka að sér stöðu framkvæmdastjóra félagsins til að „taka reksturinn og laga hann“. Hún var framkvæmdastjóri félagsins á þeim tíma sem um ræðir og annaðist daglegan rekstur þess. Samkvæmt framangreindu bar hún ábyrgð á því að staðið væri skil á lögboðnum gjöldum, virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum til skattyfirvalda svo sem lög gera ráð fyrir, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994.

  8. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir þeim atriðum sem endurupptökubeiðandi byggði kröfu sína um sýknu á en þau eru hin sömu og liggja til grundvallar beiðni hennar um endurupptöku málsins. Af héraðsdómi verður ekki annað séð en að dómurinn hafi tekið afstöðu til þessara atriða og lagt mat á störf og aðkomu endurupptökubeiðanda að rekstri einkahlutafélagsins Skjals ehf. á þeim tíma þegar hún var skráð framkvæmdastjóri félagsins. Var það niðurstaða dómsins, meðal annars með tilliti til framburðar hennar sjálfrar, að aðkoma hennar að rekstri félagsins hafi verið með þeim hætti að hún hafi borið ábyrgð á skilum á lögboðnum gjöldum, virðisaukaskattskýrslum og skilagreinum til skattyfirvalda svo sem lög gera ráð fyrir, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög.
  9. Í endurupptökubeiðni vísar endurupptökubeiðandi til þess að áðurnefndir dómar Hæstaréttar og Landsréttar sýni svo ekki verið um villst að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hennar hafi verið rangt metin í skilningi c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Á þetta er ekki unnt að fallast. Af forsendum dómsins er ljóst að þar er lagt sjálfstætt mat á hlut hennar í rekstri Skjals ehf. Þeir dómar sem endurupptökubeiðandi vísar til geta því ekki leitt til þess að talið verði að sönnunargögn hafi verið rangt metin í máli hennar. Hvað sem því líður skal tekið fram að atvik í þeim málum sem endurupptökubeiðandi vísar til eru með allt öðrum hætti en atvik í máli hennar. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 321/2015 var skráður framkvæmdastjóri einkahlutafélags sýknaður með vísan til þess að hann hafi eingöngu sinnt starfsmannamálum og að upplýst væri að stjórnarformaður félagsins hafi borið ábyrgð á rekstri þess, þar á meðal skattskilum, skilum á skilagreinum og afdreginni staðgreiðslu. Sama var uppi á teningnum í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 777/2015 þar sem skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélags var sýknaður með vísan til þess að hann hafi í reynd ekki komið að rekstri þess og að annar maður hafi í raun borið fulla ábyrgð á skattskilum félagsins og starfsemi þess að öðru leyti. Endurupptökubeiðandi telur dómfellda Boga Örn í reynd hafa borið ábyrgð á að félagið stæði skil á skattgreiðslum. Fyrir dómi bar dómfelldi Bogi Örn aftur á móti að skattskil hafi verið í höndum framkvæmdastjóra hverju sinni og að hann hafi ekki fylgst með skilum á virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda í kjölfar þess að endurupptökubeiðandi tók við sem framkvæmdastjóri félagsins. Þótt dómfelldi Bogi Örn hafi borið um að það hafi verið hans ákvörðun að nýta ekki fjármuni félagsins til þess að inna af hendi skattgreiðslur breytir það ekki því að endurupptökubeiðandi gegndi sannarlega stöðu framkvæmdastjóra og kvaðst hafa sinnt daglegum rekstri félagsins. Samkvæmt því hvíldi á henni skylda til að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum opinberra gjalda og standa skil á skattgreiðslum í samræmi við þær skyldur sem hvíldu á henni samkvæmt 44. gr. laga um einkahlutafélög. Breytir engu í því sambandi þótt sá einstaklingur sem hún var í sambúð með og var á þeim tíma stjórnarformaður hafi ákveðið að ekki bæri að greiða skattkröfur.
  10. Með vísan til þessa eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála ekki uppfyllt í tilviki endurupptökubeiðanda.
  11. Samkvæmt framansögðu verður beiðni endurupptökubeiðanda hafnað.
  12. Við meðferð málsins fyrir nefndinni var Einar Hugi Bjarnason lögmaður, skipaður til að gæta réttar endurupptökubeiðanda, sbr. 1. mgr. 230. gr. laga um meðferð sakamála. Þóknun hans ákveðst 200.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti og greiðist úr ríkissjóði, sbr. 4. mgr. 231. gr. sömu laga.

Úrskurðarorð:

Beiðni Iðu Marsibilar Jónsdóttur um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. S-976/2014, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. júlí 2015, er hafnað.

Þóknun lögmanns endurupptökubeiðanda, Einars Huga Bjarnasonar, 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Haukur Örn Birgisson formaður

Gizur Bergsteinsson

Guðmundur Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta