Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2010 Forsætisráðuneytið

A-345/2010. Úrskurður frá 18. nóvember 2010

 ÚRSKURÐUR

 

Hinn 18. nóvember 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-345/2010.

 

Kæruefni og málsatvik

Með tölvubréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 11. ágúst 2010, kærði [...] blaðamaður þá ákvörðun Biskupsstofu að synja um aðgang að bréfi [X] til Kirkjuráðs, dags. 27. maí 2010, sem tekið var fyrir á 154. fundi ráðsins dagana 24. og 25. júní sama ár.

 

Í synjun Biskupsstofu, dags. 10. ágúst 2010, kemur fram að beiðninni sem barst Biskupsstofu daginn áður sé hafnað með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. 

 

 

Málsmeðferð

Eins og fram hefur komið barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra vegna þessa máls með tölvubréfi, dags. 11. ágúst 2010.  Kæran var send Biskupsstofu með bréfi, dags. 12. ágúst. Var Biskupsstofu veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna til 20. þess mánaðar og bárust þær þann dag.

 

Í athugasemdunum kemur m.a. fram að bréf [X] til Kirkjuráðs innihaldi málefni sem varði látinn föður hennar sem eðlilegt sé að leynt fari með vísan til 5. gr. upplýsingalaga um einkamálefni einstaklings.  

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. september, var [X] kynnt kæran og þess óskað að hún upplýsti hvort hún teldi eitthvað því til fyrirstöðu að [...] blaðamanni yrði veittur aðgangur að bréfi hennar til Kirkjuráðs. Með bréfi nefndarinnar var í bréfinu var einnig tekið fram að samþykkti hún slíka afhendingu yrði aðgangur annarra sem síðar kynnu að óska aðgangs að bréfinu óheftur.  

 

[X] hafði þann 21. september símleiðis samband við ritara úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í því samtali upplýsti hún að hún legðist gegn afhendingu bréfsins vegna einkahagsmuna sinna. 

 

 

Niðurstöður

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 4. til 6. gr. laganna.

 

Af hálfu Biskupsstofu hefur til rökstuðnings þess að rétt sé að synja kæranda um aðgang að umbeðnu gagni verið vísað til 5. gr. upplýsingalaga. Þar segir orðrétt: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða  viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni bréfs [X], dags. 27. maí 2010, til Kirkjuráðs. Í bréfinu fjallar hún um látinn föður sinn og verður að telja að þær upplýsingar sem þar koma fram teljist til einkamálefna sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt. Þá hefur hún ekki heimilað afhendingu bréfsins. Þykir því rétt að staðfesta synjun Biskupsstofu.

 

  

Úrskurðarorð

Staðfest er synjun Biskupsstofu frá 10. ágúst 2010, um aðgang [...] að bréfi [X], dags. 27. maí, til Kirkjuráðs.

 

 

 Trausti Fannar Valsson

formaður

 

      Sigurveig Jónsdóttir                                                                                        Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta