Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2010 Forsætisráðuneytið

A-347/2010. Úrskurður frá 18. nóvember 2010

 

ÚRSKURÐUR

 Hinn 18. nóvember 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-347/2010.

 

 

Kæruefni, málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 24. september 2010, kærði [X] hrl. f.h. [...] ehf., eiganda jarðanna [A], [B] og [C], sem allar eiga aðild að Veiðifélagi Víðidalsár, þá ákvörðun matsnefndar skv. lögum um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 að synja um afhendingu sundurliðaðra útreikningsforsendna hverrar jarðar í Veiðifélagi Víðidalsár sem matsnefndin notaði við arðskrármat sitt frá 7. júlí 2010.

 

Forsaga máls þessa er sú að með bréfi matsnefndarinnar, dags. 16. ágúst 2010, var kæranda synjað um afhendingu umbeðinna gagna. Í bréfinu kemur fram að um sé að ræða vinnugögn matsnefndar sem hún telji sér hvorki rétt né skylt að afhenda einstökum veiðiréttarhöfum. Er í bréfinu vísað til þess að rökstuðningur í matsgerð sé ítarlegur og þar sé allra gagna getið sem notuð hafi verið við matið. Gögnin hafi að stærstum hluta verið fengin frá stjórn veiðifélagsins og muni mörg þeirra hafa legið frammi á fundum í félaginu félagsmönnum til skoðunar eða verið send félagsmönnum. Með vísan til þessa var beiðninni hafnað.

 

Með bréfi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, dags. 30. ágúst 2010, var synjun matsnefndarinnar kærð á grundvelli 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með vísan til 15. gr. laganna um upplýsingarétt aðila máls og 2. málsl. 3. tölul. 1. mgr. 16. gr. sömu laga þar sem fram kemur að aðili máls eigi rétt á aðgangi að vinnuskjölum ef þau hafi að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verði aflað annars staðar frá.

 

Með bréfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, dags. 16. september 2010, var kærunni vísað frá án úrskurðar með vísan til 48. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði þar sem fram kemur að matsnefnd skv. 1. mgr. 44. gr. laganna sé sjálfstæð í störfum sínum og að úrskurðum hennar verði ekki skotið til annarra stjórnvalda. Þá var kæranda jafnfram bent á að honum kynni að vera unnt að bera málið undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 9. og 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

 

Með bréfi, dags. 14. október 2010, var kærandi upplýstur um að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefði móttekið kæru hans. Ekki þótti ástæða til að veita matsnefnd skv. lögum um lax- og silungaveiði nr. 61/2006 færi á að gera athugasemdir við kæruna.

 

 

 

Niðurstöður

Eins og fram hefur komið lýtur kæra máls þessa að synjun matsnefndar skv. lögum um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 um að afhenda kæranda sundurliðaðar útreikningsforsendur hverrar jarðar í Veiðifélagi Víðidalsár sem matsnefndin notaði við arðskrármat sitt frá 7. júlí 2010.

 

Í VII. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði er m.a. fjallað um matsnefnd og meðferð mála fyrir matsnefndinni. Í 1. mgr. 45. gr. laganna kemur fram að greini félagsmenn í veiðifélagi á um arðskrá verði ágreiningi þar að lútandi skotið til matsnefndar. Í 46. gr. laganna er fjallað um málsmeðferð fyrir matsnefndinni og kemur fram í 3. mgr. þeirrar greinar að um meðferð mála fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nema á annan veg sé mælt fyrir í lögunum. Matsnefnd skal í formlegum skriflegum úrskurði gera grein fyrir niðurstöðu sinni og skal form og efni úrskurða matsnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 46. gr., vera í samræmi við 31. gr. stjórnsýslulaga.

 

Umbjóðendur kæranda voru aðilar að arðskrármati Veiðifélags Víðidalsár frá 7. júlí 2010. Með gagnályktun frá VII. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði verður ráðið að ákvörðun um arðskrá veiðifélags sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.    

 

Í 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 kemur fram að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá taki lögin einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um réttindi eða skyldur manna.

 

Í 2. gr. upplýsingalaga er kveðið á um gildissvið þeirra gagnvart öðrum lögum og þjóðréttarsamningum. Í 1. málslið 2. mgr. 2. gr. laganna segir að þau gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, en þau lög taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna.

 

Í 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga segir að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þegar um er að ræða gögn sem varða ákvarðanir stjórnvalds, s.s. vegna arðskrármats, fer um aðgang að þeim samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaganna, en þar segir í upphafi 1. mgr. að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varði.

 

Með vísan til framangreinds telst málið því ekki kæranlegt til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

 

 Úrskurðarorð

Vísað er frá kæru [X] hrl. f.h. [...] ehf. á hendur matsnefnd skv. lögum um lax- og silungsveiði nr. 61/2006.

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                           Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta