Hoppa yfir valmynd
20. desember 2010 Forsætisráðuneytið

A-349/2010. Úrskurður frá 20. desember 2010

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 20. desember 2010 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-349/2010.

 

 

Kæruefni, málsatvik og málsmeðferð

Með tölvubréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 11. október 2010, kærði [...] þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að synja honum um aðgang að ábendingum og athugasemdum sem bárust skipulags- og byggingarsviði sveitarfélagsins eftir forstigskynningu á deiliskipulagstillögu fyrir svæðið Miðbær - Hraun og samantekt athugasemda vegna forstigskynningar sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar 14. júlí 2010. 

 

Forsaga málsins er sú að með tölvubréfi til Hafnarfjarðarbæjar, dags. 8. september 2010, óskaði kærandi eftir að fá í hendur þær ábendingar og athugasemdir sem borist hefðu við deiliskipulagstillögu fyrir Miðbæ - Hraun, eftir forstigskynningu 18. mars 2010 sem hægt var að skila inn til 31. sama mánaðar, samantekt athugsemda vegna forstigskynningar sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar 14. júlí 2010 og afrit af því sem bæjarfulltrúinn Sigríður Björk Jónsdóttir sagði á þeim fundi.

 

Með bréfi, dags. 10. september 2010, var kærandi upplýstur um að gerð hefði verið grein fyrir athugasemdunum munnlega á fundi bæjarstjórnar 14. júlí og því liggi ekki fyrir skrifleg samantekt. Þá var kærandi upplýstur um að umræður á fundum bæjarstjórnar væru ekki ritaðar en vísað var á vefveitu Hafnarfjarðarbæjar http.//veitan.hafnarfjordur.is/ þar sem unnt væri að hlusta á þann fund og þær umræður sem kærandi óskaði aðgangs að. Í bréfinu var ekki efnisleg afstaða tekin til beiðni kæranda um afhendingu ábendinga og athugasemda við deiliskipulagstillögu fyrir Miðbæ - Hraun.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 11. október 2010, kemur m.a. fram að kærandi hafi í kjölfar bréfs Hafnarfjarðarbæjar, dags. 10. september, haft samband við skipulags- og byggingarsvið sveitarfélagsins og hafi honum verið tjáð af starfsmanni að samráð hafi verið haft við lögfræðisvið sveitarfélagsins. Þar sem umbeðin gögn væru vinnugögn væri ekki skylt að afhenda þau.

 

Í kærunni kemur einnig fram að í deiliskipulagstillögunni séu lagðar fram tillögur um raðhús á næstu lóð við kæranda. Séu þær tillögur í ósamræmi við þær byggingar sem þar eru fyrir. Nú liggi fyrir deiliskipulagstillaga þar sem búið sé að breyta skilmálum fyrir umrædda lóð en þar sem kærandi sé ekki ánægður með þá breytingu hyggist hann leggja fram athugasemd við hana. Vegna þessa þurfi hann að kynna sér hvaða augum aðrir íbúar líti breytingarnar.        

 

Með bréfi, dags. 14. október 2010, var kærandi upplýstur um að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefði móttekið kæru hans. Ekki þótti ástæða til að veita Hafnarfjarðarbæ færi á að gera athugasemdir við kæruna.

 

 

Niðurstöður

Eins og fram hefur komið lýtur kæra máls þessa að aðgangi kæranda að ábendingum og athugasemdum sem bárust skipulags- og byggingarsviði Hafnarfjarðarbæjar eftir forstigskynningu á deiliskipulagstillögu fyrir svæðið Miðbæ - Hraun og samantekt athugasemda vegna forstigskynningar sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar 14. júlí 2010. 

 

Fyrir liggur að samkvæmt upplýsingum Hafnarfjarðarbæjar hefur ekki verið gerð samantekt á athugasemdum sem bænum bárust vegna forstigskynningar og er því ekki slíkum gögnum til að dreifa. 

 

Kærandi er íbúi á því svæði sem deiliskipulagstillagan nær til. Í III. kafla skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er fjallað um gerð og framkvæmd skipulags. Í 25. gr. laganna eru ítarleg ákvæði um kynningu, samþykkt og gildistöku deiliskipulags. Í lögunum er ekki kveðið á um svokallaðar forstigskynningar deiliskipulags en sveitarfélagi er í sjálfsvald sett hvort það kynnir íbúum sveitarfélagsins umfram lagaskyldu hugmyndir og tillögur að deiliskipulagi og/eða hefur samráð við þá umfram lagaskyldu til að stuðla að því að almenn sátt náist um þær tillögur sem síðar verðar lagðar í það lögbundna ferli sem kveðið er á um í 25. gr. laganna.

 

Samþykkt skipulags eða breyting á skipulagi er ákvörðun sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er þeirri ákvörðun beint út á við að borgurunum. Deiliskipulag nær yfir afmarkað svæði og í því eru settar með bindandi hætti skorður við rétt til framkvæmda á svæðinu og jafnframt kveðið á um rétt til ákveðinna framkvæmda. Þegar um er að ræða deiliskipulagstillögur á þegar byggðu svæði verður að ætla að samþykkt skipulagsins feli í sér töku stjórnvaldsákvörðunar í skilningi 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga gagnvart tilteknum aðilum, þ.e. henni er beint að tilteknum aðila eða aðilum í ákveðnu fyrirliggjandi máli. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér sérstaklega þá deiliskipulagstillögu sem mál þetta lýtur að og álítur að í þessu tilviki sé um að ræða stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Kærandi sem íbúi á svæðinu er aðili að þeirri stjórnvaldsákvörðun.    

 

Í 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 kemur fram að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá taki lögin einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um réttindi eða skyldur manna.

 

Í 2. gr. upplýsingalaga er kveðið á um gildissvið þeirra gagnvart öðrum lögum og þjóðréttarsamningum. Í 1. málslið 2. mgr. 2. gr. laganna segir að þau gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, en þau lög taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna.

 

Í 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga segir að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þegar um er að ræða gögn sem varða ákvarðanir stjórnvalds, s.s. samþykkt deiliskipulags, fer um aðgang að þeim samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaganna, en þar segir í upphafi 1. mgr. að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varði.

 

Þrátt fyrir að Hafnarfjarðarbæ hafi ekki verið skylt að kynna íbúum tillögur að deiliskipulagi fyrir Miðbæ - Hraun umfram hið lögbundna ferli sem kveðið er á um í 25. gr. laganna þá hafa gögn sveitarfélagsins vegna forstigskynningarinnar orðið gögn er varða þá stjórnvaldsákvörðun að samþykkja deiliskipulag fyrir Miðbæ - Hraun í Hafnarfirði.

 

Með vísan til framangreinds telst málið ekki kæranlegt til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

 

 

Úrskurðarorð

Vísað er frá kæru [...] á hendur Hafnarfjarðarbæ.

 

 

 

 Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                           Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta