Hoppa yfir valmynd
11. október 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 413/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 413/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18070016

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. júlí 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. júní 2018, um að synja henni um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli sambúðar við íslenskan ríkisborgara, sbr. 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.Kærandi krefst þess að henni verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga.Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfið þann 26. febrúar 2018. Sú umsókn var ranglega útfyllt og sendi Útlendingastofnun kæranda bréf, dags. 18. apríl 2018, þar sem óskað var eftir að bætt yrði úr ágalla fyrri umsóknar. Einnig vakti stofnunin athygli á því við kæranda að þegar sótt væri um dvalarleyfi á grundvelli sambúðar væri gerð krafa um framlagningu staðfestingar á skráðri sambúð í a.m.k. eitt ár. Þau gögn sem Útlendingastofnun óskaði eftir frá kæranda bárust 26. apríl 2018 og var þá umsókn kæranda frá 26. febrúar 2018 tekin til efnislegrar meðferðar. Með fyrrnefndri ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 3. júlí 2018.

Kærandi kærði ákvörðunina þann 9. júlí 2018 til kærunefndar útlendingamála. Kærunefnd hefur borist greinargerð frá kæranda, dags. 17. júlí 2018. Með bréfi, dags. 2. september 2018, óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar. Þann 18. september 2018 féllst kærunefndin á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til ákvæðis 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga um að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess sé að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða í sambúð. Skuli sambúðin hafa varað lengur en í eitt ár, sbr. 1. mgr. 70. gr.

Fram kom að kærandi og sambúðarmaki hennar séu samkvæmt gögnum málsins ekki búin að vera í sambúð sem varið hafi lengur en eitt ár og þá sé ljóst að undantekningarheimild 2. mgr. 70. gr. eigi ekki við þar sem kærandi eigi ekki barn með sambúðarmaka sínum né sé hún barnshafandi. Var umsókn hennar um dvalarleyfi því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að samband hennar og sambúðarmaka hennar hafi hafist [...] en þar sem langt sé á milli heimalanda þeirra hafi verið erfitt að koma á sambúð strax. Hún og sambúðarmaki hennar hafi þó búið saman í fjóra mánuði í heimaríki hennar og þá hafi þau verið í sambúð á Íslandi frá komu hennar til landsins í febrúar 2018. Með vísan til framangreinds byggir kærandi á því að líta beri til heildartíma sambandsins en ekki einungis þess tíma sem formleg sambúð hafi staðið yfir. Þá byggir kærandi á því að líta verði til persónulegra aðstæðna sinna og þeirra erfiðleika sem séu við áframhaldandi búsetu hennar í heimaríki.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandanda samkvæmt ákvæðinu teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn eigi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð. Skal sambúðin hafa varið lengur en eitt ár. Hvor aðili um sig verður að hafa verið eldri en 18 ára þegar stofnað var til hjúskaparins eða sambúðarinnar. Þá þarf hjúskapur eða sambúð viðkomandi að uppfylla skilyrði til skráningar samkvæmt lögheimilislögum. Loks er heimilt að krefja aðila um að leggja fram gögn til sönnunar á hjúskap eða sambúð erlendis.

Í greinargerð kveður kærandi að hún og sambúðarmaki hennar hafi verið í sambúð í fjóra mánuði í heimaríki hennar. Í umsókn kæranda um dvalarleyfi, sem liggur fyrir í gögnum málsins, kemur hins vegar fram að kærandi og sambúðarmaki hennar hafi búið saman í heimaríki hennar á tímabilinu frá[...], eða tæpa tvo mánuði. Kveðst kærandi enn fremur hafa búið með sambúðarmaka sínum hér á landi síðan hún kom hingað til lands í febrúar sl. Í gögnum málsins liggur fyrir leigusamningur í nafni kæranda og sambúðarmaka hennar en ekki liggur fyrir staðfesting frá Þjóðskrá Íslands um að kærandi og sambúðarmaki hennar séu skráð í sambúð hér á landi. Telur kærunefnd því ljóst að sambúðin uppfylli ekki tímaskilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

Kemur þá til skoðunar 2. mgr. 70. gr. laga um útlendinga en þar segir að heimilt sé að beita ákvæðum 1. mgr. þótt sambúð hafi varað í skemur en eitt ár ef sérstakar ástæður mæla með því. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að í 3. mgr. sé lýst undanþágum frá þeim skilyrðum er fram koma í 1. mgr. Í fyrsta lagi um tímalengd skráðrar sambúðar sem geti átt við í þeim tilvikum þegar aðilar eiga barn saman eða eiga von á barni saman og ætla sér að búa saman hér á landi. Með þessu sé styrktur réttur til sameiningar fyrir pör sem eiga börn saman eða eiga von á barni saman með skírskotun til ákvæða barnasáttmálans sem veitir börnum rétt til umönnunar foreldra sinna þar sem þess er kostur. Þá sé heimilt að víkja frá skilyrðum um tímalengd skráðrar sambúðar og skráningar erlendis ef heildstætt mat á aðstæðum aðila leiðir í ljós að ósanngjarnt eða ómögulegt er að krefjast þess að sambúð hafi verið skráð í þann tíma sem ákvæðið mælir fyrir um, t.d. vegna löggjafar eða aðstæðna í heimaríki eða sérstakra aðstæðna ábyrgðaraðila og maka hans og hægt er að sýna fram á sambúð með öðrum hætti.

Af lestri framangreindra athugasemda við 70. gr. laga um útlendinga þykir kærunefndinni ljóst að löggjafinn hafi ætlað sér að vísa til 2. mgr. 70. gr. laganna í upphafi athugasemdanna enda eru í frumvarpinu aðrar athugasemdir er lúta sérstaklega að 3. mgr. 70. gr. laganna. Telur kærunefndin því að við skýringu á texta ákvæðis 2. mgr. 70. gr. beri að líta til framangreindra lögskýringargagna þótt þar sé vísað til ákvæðis 3. mgr. 70. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins eiga kærandi og sambúðarmaki hennar hvorki börn né von á barni. Þá hófu kærandi og sambúðarmaki hennar ástarsamband þann [...] og eins og framan er rakið hefur sambúð þeirra varað skemur en í eitt ár. Að mati kærunefndar eru atvik málsins að öðru leyti ekki þess eðlis að tilefni sé til að beita undanþáguákvæði 2. mgr. 70. gr.

Með vísan til framangreinds uppfyllir kærandi ekki tímaskilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga og þá er það mat kærunefndarinnar að undantekningarheimild 2. mgr. 70. gr. laganna eigi ekki við í máli kæranda. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                 Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta