Nýtt verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands
Þriðjudaginn 14. mars var Hamar, nýtt verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands, formlega vígt. Við það tækifæri flutti Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra ávarp, þar sem hann lýsti ánægju sinni með tilkomu hússins en það skapar aukin tækifæri til að bæta enn frekar skólastarfið og ný sóknarfæri verða til í starfsnámi.
Tækifærum nemenda á Suðurlandi til starfsnáms fjölgar verulega þar sem skólinn getur nú boðið heildstætt nám í greinum þar sem áður var eingöngu aðstaða til að bjóða grunnnám, svo sem í vélvirkjun og rafvirkjun.
Í Hamri fer fram kennsla í tré-, málm-, raf- og háriðnum. Einnig kennsla í tækniteiknun og bóklegum fögum auk námskeiða í tölvuhönnun og sértækum iðnum.
Að byggingu hússins komu, auk ríkisins, Sveitarfélagið Árborg, Héraðsnefnd Árnesinga (án Árborgar), Héraðsnefnd Rangæinga og Héraðsnefnd Vestur-Skaftfelinga.
Hönnunarútboð var haldið í júní 2013 og komu fram 24 tillögur. Fyrir valinu varð hönnun frá Tark teiknistofu sem hannaði húsið auk aðkomu undirverktaka, verkfræðistofa og fleiri aðila.
Fyrsta skóflustunga að byggingunni var tekin 8. júlí 2015. Nýja viðbyggingin er um 1700 m² en alls er húsnæði í Hamri 2.876 m². Kostnaður við byggingu hússins nam 1.272 milljónum króna. Ríkið greiðir 60% en hinir eignaraðilarnir 40%.
Á efri ljósmynd má sjá Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Olgu Lísu Garðarsdóttur, skólameistara FSU. Magnús Hlynur Hreiðarsson tók myndina.
Á neðri ljósmynd má sjá nýja verknámshúsið. Örn Óskarsson tók myndina.