Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 14/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 14/2024

Fimmtudaginn 11. apríl 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. janúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. janúar 2024, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árunum 2022 og 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. janúar 2024, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið desember 2022 til ágúst 2023 vegna reksturs á eigin kennitölu. Fjárhæð endurkröfunnar næmi 1.247.372 kr., að meðtöldu 15% álagi, sem yrði innheimt samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. janúar 2024. Með bréfi, dags. 16. janúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 20. febrúar 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. febrúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa fengið endurkröfu vegna atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið desember 2022 til ágúst 2023. Kærandi hafi tekið að sér alla verktakavinnu sem honum hafi boðist þar til hann hafi fengið launþegastarf í ágúst 2023. Kærandi hafi talið að hann mætti sinna því þar sem hann hefði verið virkur í atvinnuleit og hafi verið í þeirri trú að hann væri að skrá allt rétt. Kærandi hafi alltaf gefið upp allar tekjur sem hann hafi verið með úr verktökunni nema þennan mánuð sem hann hafi greinilega gleymt. Kærandi hafi einnig haldið að það væri það sem væri til ætlast af honum, að hann tæki alla vinnu sem biðist. Þegar kærandi hafi farið yfir tvær milljónir króna í veltu í verktöku hafi hann þurft að skrá sig á virðisaukaskrá og hafi einnig borið skylda til að skrá sig á launagreiðendaskrá. Þar sem verktakavinnan sjálf hafi ekki breyst við þetta hafi kærandi ekki áttað sig á því að hann þyrfti að skrá þetta eitthvað öðruvísi og að það myndi breyta bótaréttinum þar sem hann hafi áfram gefið allt upp jafn óðum.

Kærandi tekur fram að upphæðin sem hafi verið gefin upp á launagreiðendaskrá hafi einnig verið allt of há þar sem hann sé hátt í milljón í tapi en það verði leiðrétt í skattframtali fyrir árið. Kærandi spyrji hvort það geti í alvöru verið að það hefði borgað sig fyrir hann að hætta alfarið að taka að sér verktakavinnu við tveggja milljón króna markið. Miðað við endurgreiðsluna hefði komið betur út fjárhagslega að vera einungis á atvinnuleysisbótum heldur að þiggja alla vinnu sem kæranda hafi boðist. Það sé eitthvað rangt við það miðað við að vera í virkri atvinnuleit. Það hljóti að vera rangt að vinna sömu hlutavinnu í verktöku en missa bótarétt þegar nauðsynlegt sé að skrá á virðisaukaskrá/launagreiðendaskrá vegna þessara viðmiða en vinnan sem um ræði breytist ekki og raunverulegar tekjur ekki heldur. Að mati kæranda sé það mismunun. Kærandi spyrji hvort honum hafi yfirsést eitthvað eða hvort skráningin hefði átt að vera eitthvað öðruvísi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 22. ágúst 2022. Með tilkynningu, dags. 7. september 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að bótaréttur væri 100% en með vísan til starfsloka hans væri bótaréttur felldur niður í tvo mánuði.

Þann 1. september 2023 hafi kærandi afskráð sig af atvinnuleysisbótum. Í nóvember 2023 hafi Vinnumálastofnun borist upplýsingar um tekjur kæranda fyrir reiknað endurgjald á árinu 2023. Þar sem ósamræmi hafi verið á milli upplýsinga frá Ríkisskattstjóra og skráninga kæranda hjá Vinnumálastofnun hafi með bréfi, dags. 27. nóvember 2023, verið óskað eftir upplýsingum um tekjur hans á árinu. Svar hafi borist frá kæranda 5. desember 2023.

Við nánari skoðun á máli kæranda hjá Vinnumálastofnun hafi komið í ljós að hann hafi verið með opna launagreiðendaskrá hjá Ríkisskattstjóra á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Samkvæmt upplýsingum sem stofnunin hafi aflað frá Ríkisskattstjóra hafi kærandi verið með opna launagreiðendaskrá frá 1. desember 2022.

Með erindi, dags. 9. janúar 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga þann tíma sem hann hafi verið með opna launagreiðendaskrá og bæri að endurgreiða þær bætur sem honum hafi verið greiddar. Samtals næmi ofgreiðsla kæranda 1.394.876 kr., að meðtöldu álagi, fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 1. september 2023.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Mál þetta varði ofgreiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda á tímabilinu 1. desember 2022 til 1. september 2023 sökum þess að hann hafi verið með opna launagreiðendaskrá.

Fjallað sé um sjálfstætt starfandi einstaklinga í 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sem hljóði svo:

„Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.“

Samkvæmt f. og g. lið 18. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum atvinnuleitanda að hann hafi stöðvað rekstur og leggi fram staðfestingu um stöðvun reksturs, sbr. 20. og 21. gr. laga nr. 54/2006. Ákvæði 20. gr. laga nr. 54/2006 sé svohljóðandi: 

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Þegar metið er hvort starfsemi hafi verið stöðvuð skal líta til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá ríkisskattstjóra. Heimilt er að taka tillit til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá vegna eignasölu enda hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur lagt fram yfirlýsingu þess efnis að hann hyggist hætta rekstri.

Enn fremur telst sjálfstætt starfandi einstaklingur hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt skráningarnúmer sitt af skrá, sýnt fram á að atvinnutæki hafi verið seld eða afskráð, reksturinn framseldur öðrum eða hann hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta.“

Þá hljóði 21. gr. laganna svo:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., skal leggja fram staðfestingu á því að hann hafi stöðvað rekstur skv. 20. gr. Staðfestingin skal fela í sér:

a. yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess, og

b. afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður, vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá eða önnur viðeigandi gögn frá opinberum aðilum er staðfesta kunna stöðvun rekstrar.“

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli þessu hafi kærandi verið með opinn rekstur þegar hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta í desember 2022. Á þeim tíma sem kærandi hafi þegið greiðslur úr Atvinnuleysistryggingarsjóði hafi hann skráð tilfallandi störf einn og einn dag, samtals 29 daga frá 15. desember 2022 til 17. júní 2023, í verktakavinnu á Mínum síðum stofnunarinnar.

Í ljósi skýrra fyrirmæla í lögum telji Vinnumálastofnun sér ekki heimilt að greiða einstaklingum atvinnuleysisbætur á meðan þeir séu með opinn rekstur, enda uppfylli þeir ekki skilyrði laganna, sbr. 18., 20., og 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ljóst sé að kærandi hafi verið með opna launagreiðendaskrá frá 1. desember 2022 á meðan hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur allt þar til hann hafi verið afskráður 1. september 2023. Honum beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann tíma, samtals að fjárhæð 1.394.876 kr., að meðtöldu álagi. Sú niðurstaða byggi einnig á 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 sem hljóði svo:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar skýri kærandi frá því að skylda hans til opnunar á launagreiðendaskrá hafi virkjast við ákveðin mörk á umfangi verktakavinnu. Líkt og fyrr segi hafi kærandi verið með opna launagreiðendaskrá á sama tímabili og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi gefið upp tímabil sem hann hafi tekið að sér tilfallandi verktakavinnu en aldrei meira en dag í senn. Verktakavinna hans hafi verið á bilinu fjórir til fimm dagar í hverjum mánuði og hann hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur þá daga.

Kærandi hafi aldrei skilað reikningum til stofnunarinnar né hafi gert tilraunir til að nálgast frekari skýringar eða aðstoð við skráningar, aðrar en þær almennu sem honum hafi verið veittar í upphafi umsóknarferils. Í málsgögnum sé ekki að finna útlistanir á þeim leiðbeiningum sem kæranda hafi verið veittar aðrar en þær almennu sem hafi verið sendar til hans 22. ágúst 2022 við upphaf umsóknarferlis.

Vinnumálastofnun upplýsi almenna atvinnuleitendur um að óheimilt sé að starfa við rekstur á eigin kennitölu og að viðkomandi þurfi að skrá sig af atvinnuleysisbótum þá daga sem verkefni standi yfir. Þá séu atvinnuleitendur upplýstir um það að óheimilt sé að vera skráður á launagreiðendaskrá Ríkisskattstjóra samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga. Þegar umsókn um atvinnuleysistryggingar beri með sér að viðkomandi hafi áður starfað við eigin rekstur eða umsækjandi haki við að hann hafi verið með atvinnurekstur síðastliðna mánuði fyrir umsóknardag sé viðkomandi gert að undirrita yfirlýsingu um rekstrarstöðvun og skila inn viðeigandi skjölum frá Ríkisskattstjóra áður en umsókn hans sé samþykkt. Umsókn kæranda hafi ekki borið með sér að hann hefði verið með opinn rekstur á eigin kennitölu. Líkt og fram hafi komið í kæru til nefndarinnar geri Ríkisskattstjóri ekki kröfu um að einstaklingar tilkynni um rekstur sinn ef umfang starfseminnar sé svo óverulegt að reiknað endurgjald sé lægra en ákveðið viðmið á ári. Í slíkum tilfellum séu laun aðeins talin fram á skattframtali einstaklings. Atvinnuleitendur hafi því getað stundað tilfallandi verktakavinnu án þess að skrá sig á launagreiðendaskrá svo lengi sem þeir afskrái sig hjá stofnunni þegar vinna fari fram. Þeir sem taki að sér stærri verkefni eða séu með viðvarandi starfsemi þurfi að standa regluleg skil á reiknuðu endurgjaldi og þurfi ávallt að opna og loka rekstri á meðan vinna standi yfir. Vinnumálastofnun fallist hvorki á að leiðbeiningar til kæranda hafi verið ófullnægjandi né að skortur á upplýsingum til atvinnuleitenda skuli leiði til þess að þeir eigi rétt á atvinnuleysisbótum þvert á skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, samtals að fjárhæð 1.394.876 kr., að meðtöldu álagi.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. janúar 2024, um að innheimta hjá kæranda ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið desember 2022 til og með september 2023 með vísan til þess að hann hefði verið með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. Sama skilyrði á við um sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga er að hafa stöðvað rekstur og leggja fram staðfestingu um slíka stöðvun, sbr. f. og g. liði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 54/2006. Í 20. gr. laganna kemur fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Enn fremur telst sjálfstætt starfandi einstaklingur hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt skráningarnúmer sitt af skrá, sýnt fram á að atvinnutæki hafi verið seld eða afskráð, reksturinn framseldur öðrum eða hann hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sjálfstætt starfandi einstaklingur leggja fram staðfestingu á því að hann hafi stöðvað rekstur og skal staðfestingin fela í sér yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess og afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður, vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá eða önnur viðeigandi gögn frá opinberum aðilum er staðfesta kunna stöðvun rekstrar.

Fyrir liggur að kærandi var með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. desember 2022 til 1. september 2023 en þann dag afskráði hann sig af atvinnuleysisskrá.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þar sem kærandi var með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. desember 2022 til 1. september 2023 uppfyllti hann þegar af þeirri ástæðu ekki skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006 á því tímabili.

Að framangreindu virtu átti kærandi ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun á því tímabili sem endurgreiðslukrafan lýtur að en ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Að mati úrskurðarnefndarinnar benda fyrirliggjandi gögn málsins ekki til þess að tilefni sé til að fella niður álagið sem stofnunin lagði á endurgreiðslukröfuna.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. janúar 2024, í máli A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta