Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 62/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 12. nóvember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 62/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 14. apríl 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 1. apríl 2009 ákveðið að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur með vísan til c-liðar 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann er í námi. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 8. júní 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í erindi kæranda kemur fram að honum hafi verið synjað um atvinnuleysisbætur vegna náms hans í við B-deld Háskóla Íslands á vorönn 2009. Þar hafi hann tekið þrjú fög samhliða vinnu eða samtals 18 ECTS einingar sem jafngildi 60% námi. Kærandi kveðst hafa misst vinnuna 28. febrúar 2009 en hann hafi átt inni ógreitt orlof til 20. mars 2009. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænni umsókn sem var staðfest skriflega þann 16. mars 2009. Kærandi vísar til upptalningar á heimasíðu Vinnumálastofnunar um þá sem ekki eiga rétt á bótum og tekur fram að hann uppfylli ekkert af þeim skilyrðum. Hann hafi verið lengur en 12 mánuði í 100% starfi og hann sé í 60% námi sem sé minna en 75% nám. Hann sjái því ekki annað en að hann uppfylli öll lagaleg skilyrði fyrir því að fá atvinnuleysisbætur. Þá nefnir kærandi það að hann viti um dæmi þess að aðrir í sömu sporum og hann hafi fengið að gera námssamninga við Vinnumálastofnun.

Samkvæmt vottorði vinnuveitanda, X, dags. 2. mars 2009, starfaði kærandi hjá fyrirtækinu til 28. febrúar 2009 í fullu starfi.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 1. september 2009, er vísað til þess að í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem var að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum og ekki skipti máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Samkvæmt undanþágureglu 2. mgr. 52. gr. laganna skuli Vinnumálastofnun meta sérstaklega hvort umsækjandi um atvinnuleysisbætur geti talist tryggður samkvæmt lögunum þegar hann hefur stundað nám með starfi sínu sem hann missti og námið er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Samkvæmt 3. mgr. 52. gr. skuli Vinnumálastofnun meta sérstaklega hvort sá er stundar nám uppfylli skilyrði laganna þrátt fyrir námið enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið teljist ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Við rannsókn málsins hafi Vinnumálastofnun aflað sér upplýsinga um umfang náms kæranda. Af stundaskrá kæranda megi sjá að kennt er frá mánudögum til föstudags. Kærandi sæki þrjú námskeið: Við matið hafi einnig verið litið til þess að flestum námskeiðum í meistaranámi við háskóla fylgi umtalsverður undirbúningur og heimavinna sem eigi sér stað utan skólatíma. Námið sem kærandi leggi stund á sé því metið svo umfangsmikið að hann geti ekki talist vera í virkri atvinnuleit samhliða náminu þó námshlutfall hans sé undir 75%. Virk atvinnuleit sé eitt af skilyrðunum fyrir atvinnuleysistryggingum, sbr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. september 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. september 2009. Kærandi sendi ítarlega greinargerð dags. 17. september 2009 ásamt frekari gögnum. Í greinargerð kæranda kemur meðal annars fram að honum sé kunnugt um að námsmenn í sambærilegum sporum og hann hafi gert námssamning við Vinnumálastofnun. Hann nafngreinir í þessu sambandi mann, sem stundaði nám með kæranda á C-sviði Háskóla Íslands á vorönn 2009.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 52. gr. þeirra laga um atvinnuleysistryggingar segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Hugtakið nám er skilgreint í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fram til 3. apríl 2009 gilti sú skilgreining á námi að sá sem var í lægra námshlutfalli en 75% taldist ekki stunda nám í skilningi laganna. Þann 3. apríl 2009 tóku gildi lög nr. 37/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og í þeim var gerð sú breyting á skilgreiningunni á námi að námshlutfall hafi ekki áhrif að þessu leyti. Samkvæmt núgildandi c-lið 3. gr. laganna er nám skilgreint sem samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 37/2009 segir um breytinguna að þegar metið er hvað skuli teljast nám í skilningi laganna verði framvegis eingöngu litið til hvers konar nám sé um að ræða óháð námshlutfalli.

Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. á við um kæranda, þ.e. hann stundar nám í skilningi laganna. Á hinn bóginn kunna undantekningarheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna að eiga við um hann, en þær koma til skoðunar þegar nám er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nám kæranda er aðeins 18 ECTS einingar og samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna er námið ekki lánshæft. Við slíkar aðstæður skal Vinnumálastofnun meta hvort umsækjandi geti talist tryggður samkvæmt lögunum þrátt fyrir námið.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum sem aflað var við rannsókn málsins hjá Vinnumálastofnun er nám kæranda svo umfangsmikið að hann getur ekki talist vera í virkri atvinnuleit samhliða náminu, en virk atvinnuleit er skilyrði fyrir atvinnuleysisbótum, sbr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt þessu á kærandi ekki rétt á atvinnuleysisbótum og ákvörðun Vinnumálastofnunar um höfnun á umsókn hans um atvinnuleysisbætur er staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 1. apríl 2009 í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta