Hoppa yfir valmynd
27. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 111/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 111/2021

Fimmtudaginn 27. maí 2021

A

gegn

Reykjanesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. febrúar 2021, kærði B réttindagæslumaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjanesbæjar, dags. 8. desember 2020, á umsókn hennar um akstursþjónustu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 3. nóvember 2020, sótti kærandi um akstursþjónustu hjá Reykjanesbæ. Umsókn kæranda var synjað með bréfi velferðarsviðs Reykjanesbæjar, dags. 10. nóvember 2020, á þeirri forsendu að umsóknin samræmdist ekki grein 8.3.2. í reglum sveitarfélagsins um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 4. desember 2020 og staðfesti synjunina. Sú ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi velferðarsviðs, dags. 8. desember 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 3. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjanesbæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjanesbæjar barst úrskurðarnefndinni 25. mars 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. mars 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún sé búsett í C en starfi í D og þurfi að komast á milli vinnu og heimilis. Kærandi sé […]. Það sé til læknisvottorð sem staðfesti að kærandi megi ekki ferðast með strætisvagni vegna […], bæði hjá HSS og félagsþjónustunni. Eins og fram komi á síðu Félagsþjónustu Reykjanesbæjar sé það skilyrði fyrir ferðaþjónustu að einstaklingur geti ekki nýtt sér almenningssamgöngur vegna fötlunar. Að vera með […] sé fötlun sem komi bæði í veg fyrir að kærandi geti notað almenningssamgöngur og ekið bifreið.

Kærandi vísar til 1. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir þar sem segi að markmið laganna sé að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt sé að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess og að þjónustan skuli miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Þar segi einnig að þjónusta samkvæmt lögunum skuli miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi. Í ákvæðinu sé einnig vísað til þess að við framkvæmd laganna skuli samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks framfylgt. Í 3. gr. sömu laga segi að fatlað fólk eigi rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga og ef þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu eða stuðning reynist meiri eða sérhæfðari en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skuli veita viðbótarþjónustu sem komi til viðbótar þeirri þjónustu sem veitt sé á grundvelli annarra laga en ekki í stað hennar. Loks sé í 8. gr. fjallað um stuðningsþjónustu. Þar segi að fötluðu fólki skuli standa til boða stoðþjónusta sem sé nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar þannig að það standi til jafns við aðra og komið verði í veg fyrir félagslega einangrun þess. Stuðningsþjónustan skuli meðal annars miðast við þarfir fatlaðra einstaklinga til atvinnu, meðal annars á grundvelli viðeigandi aðlögunar, svo að þeir geti séð sér farborða og tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra.

Af framangreindu sé ljóst að með synjun á akstursþjónustu fyrir kæranda sé ekki verið að koma til móts við þarfir hennar sem fatlaðs einstaklings. Það leiði til þess að hvorki séu uppfyllt skilyrði laga nr. 38/2018 né samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Synjunin hafi í för með sér að kærandi geti ekki notið mannréttinda til jafns við aðra þar sem henni verði þá ekki fært að stunda vinnu, auk þess sem gengið sé á möguleika hennar til félagslegrar þátttöku. Kærandi fer því fram á að ákvörðun Félagsþjónustu Reykjanesbæjar verði felld úr gildi og að henni verði veitt akstursþjónusta til samræmis við framlagðar óskir.

III.  Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í greinargerð Reykjanesbæjar kemur fram að kærandi hafi óskað eftir ferðaþjónustu utan Reykjanesbæjar, til og frá vinnu. Um ferðaþjónustu utan Reykjanesbæjar gildi grein 8.3.4. í reglum sveitarfélagsins um félagslega þjónustu en þar komi fram að sú þjónusta sé veitt í undantekningartilvikum. Sækja þurfi sérstaklega um þær ferðir og gjald sé tekið fyrir þær í samræmi við gjaldskrá áætlunarferða almenningsvagna. Kærandi hafi greint frá því í samtali við félagsráðgjafa að hún gæti notast við almenningssamgöngur en tímatafla Strætó væri óhentug vinnutíma hennar og því væri hún að óska eftir ferðaþjónustu fatlaðra. Í grein 8.3.2. í reglum Reykjanesbæjar komi orðrétt fram um rétt til ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk:

„Skilyrði fyrir ferðaþjónustu er að einstaklingur geti ekki nýtt sér almenningssamgöngur sökum fötlunar, ráði hvorki yfir né geti notað bifreið og hafi ekki annan aðgang að farartæki.“

Kærandi hafi verið upplýst um rétt sinn til þess að óska eftir að mál hennar færi fyrir áfrýjunarnefnd velferðarráðs og hún hafi samþykkt það. Mál kæranda hafi farið fyrir áfrýjunarnefnd þann 4. desember 2020 þar sem óskað hafi verið eftir undanþágu frá greinum 8.3.2. og 8.3.4. sem snúi að ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Á fundi áfrýjunarnefndar hafi verið tekin sú ákvörðun að synja beiðni kæranda um undanþágu frá því skilyrði að einstaklingur geti ekki nýtt sér almenningssamgöngur sökum fötlunar. Í læknisvottorði, dags. 3. nóvember 2020, sem hafi verið sent inn með umsókn, komi fram að kærandi sé með […], en hvergi komi fram að henni sé óheimilt að aka bifreið eða að hún sé ófær um að nýta sér almenningssamgöngur. Einnig komi fram í læknisvottorðinu að kærandi hafi þurft að nota ferðaþjónustu Reykjanesbæjar til að komast til og frá vinnu og að óskað væri eftir áframhaldandi þjónustu. Í gögnum velferðarsviðs um kæranda sé engin umsókn um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Einnig hafi verið kannað hjá Ferðaþjónustu Reykjaness sem sjái um ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Reykjanesbæ hvort kærandi hafi verið með þjónustu hjá fyrirtækinu en fyrirtækið hafi ekki kannast við að hún hafi nýtt sér þjónustu þess.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjanesbæjar á umsókn kæranda um akstursþjónustu.

Í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er fjallað um rétt fatlaðs fólks til akstursþjónustu en þar segir í 1. mgr. að fatlað fólk skuli eiga kost á akstursþjónustu sem miði að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kjósi og á þeim tíma sem það velji gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Þá kemur fram í 2. mgr. 29. gr. að fatlað fólk skuli eiga rétt á akstursþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar þjónustu sem það njóti samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Í 3. mgr. 29. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að ráðherra setji nánari leiðbeiningar um akstursþjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks þar sem meðal annars skuli kveðið á um tilhögun á akstri utan sveitarfélags og kostnaðarskiptingu vegna akstursþjónustu í dreifbýli. Sveitarstjórnum sé jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Þá sé sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir akstursþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skuli setja og gjaldið skuli vera sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.

Reykjanesbær hefur útfært nánar framkvæmd akstursþjónustu við fatlað fólk með reglum um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk, settum á grundvelli brottfallinna laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Í grein 8.3.2. er kveðið á um rétt til þjónustunnar en þar segir í 2. mgr. að skilyrði fyrir ferðaþjónustu sé að einstaklingur geti ekki nýtt sér almenningssamgöngur sökum fötlunar, ráði hvorki yfir né geti notað bifreið og hafi ekki annan aðgang að farartæki. Samkvæmt 3. mgr. er ferðaþjónustan fyrst og fremst ætluð þeim sem sækja vinnu, þjálfun eða nám í Reykjanesbæ.  Samkvæmt 4. mgr. grein 8.3.4. er ferðaþjónusta utan Reykjanesbæjar veitt í undantekningartilvikum og sækja þarf sérstaklega um þær ferðir.

Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði greinar 8.3.2. um að geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur sökum fötlunar. Með umsókn kæranda fylgdi læknisvottorð, dags. 2. nóvember 2020, þar sem fram kemur að kærandi sé með […]. Kærandi hafi því þurft að nota ferðaþjónustu Reykjanesbæjar, meðal annars til að komast til og frá vinnu, og óskað sé eftir þeirri þjónustu áfram. Reykjanesbær hefur vísað til þess að í læknisvottorðinu komi hvorki fram að kæranda sé óheimilt að aka bifreið né að hún sé ófær um að nýta sér almenningssamgöngur. Í erindi félagsráðgjafa hjá velferðarsviði Reykjanesbæjar kemur fram að kæranda sé ekki heimilt að keyra.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er Reykjanesbæ skylt að upplýsa mál með fullnægjandi hætti áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Með því að synja kæranda um akstursþjónustu án þess að fyrir lægi fullnægjandi læknisvottorð var þeirri skyldu ekki fullnægt. Reykjanesbæ bar í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga að gera kæranda grein fyrir því að í læknisvottorði þyrftu að koma fram upplýsingar um hvort hún gæti nýtt sér almenningsfarartæki til þess að leggja mat á hvort skilyrði 1. mgr. 29. gr. laga nr. 40/1991 væri uppfyllt og gefa henni kost á að leggja fram nýtt vottorð þar sem tekin væri afstaða til framangreinds.  Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjanesbæ að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 8. desember 2020, um synjun á umsókn A, um akstursþjónustu, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta