Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 41/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 3. febrúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 41/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20010002

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 527/2017, dags. 24. október 2017, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júlí 2017, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 30. október 2017. Þann 6. nóvember 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Kærunefnd synjaði þeirri beiðni með úrskurði nr. 718/2017, dags. 29. desember 2017. Þann 15. maí 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Kærunefnd hafnaði beiðni kæranda um endurupptöku máls hans þann 7. júní 2018 með úrskurði nr. 266/2018. Þann 2. janúar 2020 barst kærunefnd að nýju beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar nr. 266/2018 ásamt fylgigögnum.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hann telji að ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp. Þegar 12 mánaða frestur íslenskra stjórnvalda til að afgreiða umsókn kæranda, skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, hafi verið liðinn hafi atvik málsins breyst verulega í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá byggir kærandi á því að höfnun kærunefndar á beiðni hans um endurupptöku, sbr. úrskurður nefndarinnar nr. 266/2018, hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. sömu laga. Í því sambandi vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9722/2018 frá 9. desember 2019, en kærandi hafi leitað til umboðsmanns með mál sitt þann 31. maí 2018.

III.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í umræddu áliti umboðsmanns Alþingis komu fram tilmæli til kærunefndar um að taka mál kæranda til meðferðar að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá honum. Í ljósi þess að endurupptökubeiðni hefur borist kærunefnd er því fallist á að endurupptaka mál kæranda.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að taka umsókn um alþjóðlega vernd ekki til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin), sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Þann 24. maí 2017 samþykktu sænsk stjórnvöld að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd. Byggði samþykki Svíþjóðar á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar skal flutningur aðila til viðtökuríkis fara fram í síðasta lagi innan sex mánaða frá því að annað aðildarríki samþykkir beiðni um að taka viðkomandi í umsjá eða taka við honum aftur, eða frá því að lokaákvörðun er tekin um kæru eða endurskoðun ef um er að ræða áhrif til frestunar í samræmi við 3. mgr. 27. gr. Í 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar segir að fari flutningur ekki fram innan sex mánaða frestsins falli niður skylda aðildarríkisins, sem ber ábyrgð, að taka við einstaklingnum aftur og færist ábyrgðin til þess aðildarríkis sem lagði fram beiðnina. Þennan frest má framlengja í eitt ár að hámarki ef ekki getur orðið af flutningnum vegna þess að hlutaðeigandi einstaklingur er í fangelsi eða í átján mánuði að hámarki ef hann hleypst á brott. Í úrskurði kærunefndar nr. 237/2019 frá 9. maí 2019 ákvað kærunefnd að þegar mál hefur verið kært til kærunefndar og réttaráhrifum frestað yrði upphafstími þessa frests miðaður við dagsetningu birtingar úrskurðar kærunefndar. Eins og að framan greinir samþykktu sænsk stjórnvöld endurviðtökubeiðni íslenskra stjórnvalda þann 24. maí 2017. Þá var endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi birt fyrir kæranda þann 30. október 2017. Af því leiðir að ábyrgð sænskra stjórnvalda á því að taka við umsækjanda samkvæmt ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar féll niður þann 30. apríl 2018, sbr. 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar.

Ekkert bendir til þess að kærandi hafi hlaupist á brott í skilningi lokamálsliðar 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar eða að aðrar aðstæður séu fyrir hendi sem gæti framlengt frestinn samkvæmt ákvæðinu.

Samkvæmt framansögðu var ekki fyrir hendi heimild til að krefja sænsk stjórnvöld um viðtöku á kæranda þann 23. maí 2018 þegar hann var fluttur til Svíþjóðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. laga um útlendinga. Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd skal því tekin til efnismeðferðar, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Gögn málsins benda ekki til þess að ákvæði a- eða b-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna eigi við í máli hans. Er því niðurstaða kærunefndar útlendingamála að fella ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnismeðferðar úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi.

Samantekt

Það er niðurstaða kærunefndar að endurupptaka mál kæranda. Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi.

 

Úrskurðarorð

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The appellants´ request for re-examination of his case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicants application for international protection in Iceland.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Áslaug Magnúsdóttir                                                                                      Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta