Hoppa yfir valmynd
24. mars 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 57/2003

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

í málinu nr. 57/2003

 

Endurupptaka. Sönnunarfærsla. Frávísun.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 5. nóvember 2003, mótteknu 6. nóvember 2003, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við C og óskaði endurupptöku á máli 51/2002, A gegn Húsfélaginu X 40-44. Kærunefnd lítur svo á að gagnaðili sé Húsfélagið X 40-44 og er það hér eftir nefnt svo.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar og samþykkt að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð H f.h. gagnaðila, dags. 18. janúar 2004, auk frekari athugasemda álitsbeiðanda, dags. 12. febrúar 2004, mótteknar 12. febrúar 2004 og frekari athugasemda gagnaðila, ódagsettar, mótteknar 2. mars 2004, var lögð fram á fundi nefndarinnar 24. mars 2004 og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Helstu málsatvik og ágreiningsefni eru rakin í áliti kærunefndar fjöleignarhúsamála í málinu 51/2003. Niðurstaða nefndarinnar í málinu var að framkvæmdir við skólplagnir að X 40-44 teldust sameiginlegar framkvæmdir en jafnframt að ekki hafi verið tekin lögmæt ákvörðun um endurnýjun umræddra skólplagna þannig að bindandi væri fyrir alla eigendur hússins. Í endurupptökubeiðni er sagt að ekki sé að sjá að kærunefnd hafi gefið álitsbeiðendum í málinu 51/2003 kost á að bera fram skýringar eða mótmæli við þeim staðhæfingum gagnaðila að ráðist hafi verið í endurnýjun umræddra lagna án samráðs við eigendur hússins. Vegna þess að ekki hafi verið veittur andmælaréttur er þess óskað að málið sé tekið upp að nýju.

 

Kærunefnd fjöleignarhúsamála lítur á að krafa álitsbeiðanda sé:

Að málið verði endurupptekið og að ákvarðanataka um viðgerðir hafi verið lögmæt og því séu allir eigendur fjöleignarhússins X 40-44 skyldir til þátttöku í viðgerðunum.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að sú staðhæfing gagnaðila að ráðist hafi verið í framkvæmdirnar án samráðs við aðra eigendur hússins sé röng. Margoft hafi verið farið fram á það við formann heildarhúsfélagsins, sem jafnframt hafi verið formaður húsfélagsdeildarinnar X 40, að hann boðaði til fundar vegna málsins en hann hafi neitað því þar sem umræddar lagnirnar væru að hans áliti sameign eigenda í þessu tiltekna stigahúsi. Þá kemur einnig fram í álitsbeiðni að umrædd bilun lagna hafi verið alvarleg og brýnt að viðgerðir færu fram sem fyrst. Hins vegar hafi ekki komið í ljós fyrr en á leið verkið hversu umfangsmikil hún varð og að tryggingafélag myndi ekki greiða fyrir hana. Því hafi í raun ekki verið hægt að kynna fyrirfram á húsfundi umfang viðgerðanna og kostnað af þeim.

Í greinargerð gagnaðila er þess krafist að málinu sé vísað frá kærunefnd þar sem endurupptökubeiðni sé beint persónulega gegn C, fyrrverandi gjaldkera (svo). Þá séu heldur ekki settar fram skýrar kröfur um niðurstöðu fyrir nefndinni. Sé málinu ekki vísað frá beri að komast að sömu niðurstöðu og áður þ.e. að ákvarðanataka um viðgerðir hafi verið ólögmæt. Ekkert nýtt liggi fyrir í málinu. Bent er á bréf núverandi formanns húsfélagsins X 40-44 og húsfélagdeildarinnar X 40 en þar segir að hið umdeilda verk hafi verið langt komið þegar stjórn heildarhúsfélagsins og aðrar húsfélagsdeildir hafi fengið vitneskju um það og er óskað eftir því að fyrri úrskurður nefndarinnar standi.

Í frekari athugasemdum álitsbeiðanda er ítrekað að tilkynnt hafi verið um viðgerðirnar strax og ljóst var hvers eðlis þær væru en formaður heildarhúsfélagsins hafi neitað að halda fund. Lögð er fram yfirlýsing formanns húsfélagsdeildarinnar X 44 þar sem því er lýst yfir að formaður X 42 hafi óskað eftir fundi í heildarhúsfélaginu en formaður þess hafi neitað þar sem hann taldi þetta ekki heyra þar undir.

 

III. Forsendur

Álitsbeiðandi heldur því fram að hann hafi ekki getað komið að mótmælum við þeim fullyrðingum gagnaðila að í viðgerðir hafi verið ráðist án samráðs við aðra eigendur og ákvarðanatakan því ólögmæt. Í gögnum málsins nr. 51/2002 er að finna afrit af bréfi dags. 2. desember 2002 þar sem álitsbeiðanda eru sendar athugasemdir gagnaðila í málinu. Álitsgerðin er dagsett 26. febrúar 2003 þannig að ljóst er að nægur tími gafst til andmæla.

Hlutverk kærunefndar fjöleignarhúsamála takmarkast við að veita lögfræðilegt álit um ágreining er rís varðandi réttindi og skyldur eigenda fjöleignarhúss. Metur kærunefnd hverju sinni hvort málsatvik teljist nægjanlega upplýst til að unnt sé að gefa álit um ágreiningsefnið. Í ágreiningi þeim um lögmæti ákvörðunartöku sem hér um ræðir stendur orð gegn orði en hefðbundin sönnunarfærsla svo sem matsgerðir, aðila- og vitnaleiðslur fer ekki fram fyrir nefndinni. Sé ágreiningur um staðreyndir verða aðilar máls að leita úrlausnar dómstóla. Beiðni um endurupptöku er því hafnað.

 

IV. Niðurstaða

Ósk um endurupptöku er synjað.

 

 

Reykjavík, 24. mars 2004

 

Valtýr Sigurðsson

Gestur Valgarðsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta