Hoppa yfir valmynd
18. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Fyrrverandi nemendur GRÓ skólanna á Íslandi hittast í Malaví

Frá viðburðinum í Lilongwe.  - mynd

Alls hafa 54 nemendur frá Malaví stundað nám við GRÓ skólana fjóra á Íslandi: Jarðhitaskólann, Jafnréttisskólann, Landgræðsluskólann og Sjávarútvegsskólann sem starfa undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

Nýverið hittust þessir fyrrverandi nemendur skólana í boði sendiráðs Íslands í Lilongwe til að tengjast hvert öðru og samstarfsaðilum sendiráðsins í landinu. „Það var einstaklega gaman að standa fyrir þessum viðburði, að fá að hitta einstaklinga frá Malaví sem hafa búið og stundað nám á Íslandi og komið aftur heim til að nýta þekkingu úr náminu við störf sín í Malaví,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðukona sendiráðs Íslands í Lilongwe.

Að hennar sögn er mikilvægt fyrir sendiráðið í Lilongwe að mynda tengslanet við þessa einstaklinga, ásamt því að tengja þá við þær stofnanir sem Ísland vinnur með í Malaví. Einn fyrrverandi nemandi Sjávarútvegasskólann hefur til dæmis komið að verkefnum tengdum fiskvinnslu og efnahagslegri valdeflingu kvenna í Mangochi héraði, sem hefur verið studd af Íslandi í gegnum héraðsverkefnið um bætta grunnþjónustu í Mangochi. „Það samstarf er gott dæmi um það hvernig nokkrir þræðir íslenskrar þróunarsamvinna tvinnast saman og skila mjög góðum árangri,“ segir Inga Dóra.

Viðburðinn heppnaðist vel og rætt var um að hópurinn komi aftur saman á næstu misserum til að eiga í formlegri umræðum um samstarf á sviðum skólana í Malaví. „Við höfum mikinn áhuga á að reyna að stuðla að frekari samvinnu á milli fyrrum GRÓ nemenda og tengja þá við störf íslenskrar þróunarsamvinnu í Malaví,“ segir Kristjana Sigurbjörnsdóttir verkefnastjóri sendiráðs Íslands í Lilongwe.

GRÓ-skólarnir starfa á sviðum þar sem Íslendingar búa yfir sérþekkingu og meginmarkmið þeirra er að stuðla að nýrri þekkingu, hæfni og lausnum í fátækari ríkjum og í ríkjum þar sem átök hafa geisað sem nýtist til framfara, með áherslu á stjórnkerfi ríkjanna og stofnanir.

Skólarnir hafa starfað mislengi en Jarðhita- og Sjávarútvegsskólinn hafa verið starfræktir í meira en fjóra áratugi en Landgræðslu- og Jafnréttisskólinn í yfir áratug. Allir eru þeir mikilvæg stoð í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands en GRÓ er þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu um uppbyggingu færni og þekkingar í þróunarríkjum.

  • Inga Dóra Pétursdóttir með tveimur fyrrverandi nemendum GRÓ skólanna. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta