Sýslumannsembættið á Blönduósi tekur að sér innheimtu fyrir Vinnumálastofnun og Tryggingastofnun ríkisins
Sýslumaðurinn á Blönduósi, f.h. innheimtumiðstöðvar embættisins (IMST), hefur gert samstarfssamninga við Vinnumálastofnun (VMST) og Tryggingastofnun ríkisins (TR) um innheimtumál.
Í samningunum felst m.a. að Innheimtumiðstöðin tekur að sér innheimtu á ofgreiddum bótum fæðingarorlofssjóðs og atvinnuleysistryggingasjóðs sem heyra undir VMST og greiðslur TR til skjólstæðinga umfram réttindi þeirra. Með samningunum er stefnt að því að samræma, einfalda og efla innheimtuna og einnig að ná fram hagræði og sparnaði, m.a. með samlegðaráhrifum með öðrum innheimtuverkefnum IMST.
Samningarnir voru undirritaðir föstudaginn 9. apríl sl. af Bjarna Stefánssyni, sýslumanni á Blönduósi, Sigríði Lillý Baldursdóttur, forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, og Gissuri Péturssyni, forstjóra Vinnumálastofnunar, og lýstu samningsaðilar yfir ánægju með þá og vænta mikils af samstarfinu.
Gissur Pétursson og Bjarni Stefánsson undirrita samning IMST og Vinnumálastofnunar.