Föstudagspósturinn 5. febrúar 2021
Heil og sæl.
Það hefur verið nóg um að vera í utanríkisþjónustunni frá því að við tókum þráðinn upp á þessum vettvangi síðast um miðjan janúarmánuð. Óhætt er að segja að skýrsla Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarmsamvinnuráðherra sé hápunkturinn á annars viðburðaríkum dögum.
Áður en við víkjum nánar að Grænlandsskýrslunni er rétt að óska Sigríði Snævarr til hamingju með 30 ára sendiherraafmæli sitt þann 1. febrúar síðastliðinn. Þann sama dag árið 1991 varð Sigríður sendiherra Íslands í Stokkhólmi og þar með fyrst íslenskra kvenna til þess að taka við sendiherraembætti.
En að Grænlandsskýrslunni! Skýrslan ber heitið Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum. Ítarlega var fjallað um Grænland og skýrsluna í fjölmiðlum hér á landi, m.a. í Morgunblaðinu á forsíðu blaðsins tvo daga í röð, á Vísi og RÚV og þá var formaður nefndarinnar, Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og þingmaður, til viðtals í Kastljósi á útgáfudegi skýrslunnar.
Að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra markar skýrslan tímamót enda hefur utanríkisráðuneytið aldrei fyrr ráðist í jafn umfangsmikla greiningu á samskiptum landanna tveggja.
Skýrslunni hefur verið afar vel tekið en í frétt á vef grænlenska stjórnarráðsins fagnar Steen Lynge, utanríkisráðherra landsins, útgáfu skýrslunnar og segir það spennandi og áhugavert að Ísland hafi lagt jafn mikið púður í vinnu við að finna leiðir til að auka samskipti Íslands og Grænlands.
Skýrslan hefur vakið mikla athygli ásamt viðskiptaskýrslunni Áfram gakk - utanríkisviðskiptastefna Íslands, en í tengslum við útgáfu beggja skýrslna stóð Guðlaugur Þór fyrir fjölsóttum fundi með erlendum sendiherrum þar sem farið var yfir efni þeirra.
„Ég hef aldrei áður fengið tækifæri til að ávarpa svo marga fulltrúa erlendra ríkja sem hafa fyrirsvar gagnvart Íslandi. Umræðurnar í kjölfar kynningarinnar þóttu mér svo bæði gefandi og gagnlegar enda fékk ég margar áhugaverðar spurningar um áherslur Íslands á ýmsum sviðum. Þessi fundur er enn ein staðfesting á því hvaða möguleika fjarfundir bjóða upp á,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra að fundi loknum í vikunni.
Talandi um utanríkisviðskiptaskýrsluna þá kynnti ráðherra hana í umræðum á Alþingi í vikunni. Gerðu þingmenn góðan róm að efni skýrslunnar. Áður hafði farið fram sérstök umræða um samkipti Íslands og Bandaríkjanna eftir valdaskiptin þar í landi og var ráðherra þar til andsvara.
En enn og aftur að Grænlandsskýrslunni. Þar er „hlaðborð“ 99 tillagna fyrir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra að taka afstöðu til. Þar á meðal var lagt til að svokallað Norðurslóðasetur verði framtíðarheimili Hringborðs norðurslóða - Arctic Circle, en í frétt á vef Stjórnarráðsins í dag kemur fram að ríkisstjórnin hafi ákveðið að skipa nefnd um undirbúning um stofnun og byggingu Norðurslóðaseturs sem yrði kennt við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands.
Guðlaugur Þór hélt sig á norðurslóðum í vikunni er hann ávarpaði Arctic Frontiers ráðstefnuna. Um árvissan viðburð er að ræða sem jafnan fer fram í Tromsö í Noregi en fór fram með rafrænum hætti í ár vegna heimsfaraldursins.
Þá ræddi hann við Dan Tehan, viðskiptaráðherra Ástralíu á símafundi á þriðjudag, en þar voru viðræður um tvísköttunarsamning við Ástrala og gerð fýsileikakannanar vegna fríverslunarsamnings EFTA og Ástralíu efst á baugi.
Utanríkisráðuneytið hefur vitanlega fylgst grannt með gangi mála í Rússlandi vegna handtöku og dóms rússneska stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní. Guðlaugur Þór lýsti yfir áhyggjum sínum vegna handtöku hans í janúarmánuði og enn frekar yfir miklum vonbrigðum vegna dóms Navalnís. Skoraði ráðherra á rússnesk yfirvöld að láta hann lausan.
Deeply disappointed over the verdict against Alexei Navalny @navalny. Silencing political opponents by putting them behind bars is never acceptable & is reminiscent of a grim past. Calling on #Russia to release him immediately as well as those wrongfully detained for protesting.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) February 2, 2021
Sé litið til annarra viðburða ráðherra á undanförnum vikum þá tók Guðlaugur Þór þátt í tveggja daga rafrænu útboðsþingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku þar sem hann áréttaði mikilvægi alþjóðasamvinnu á tímum heimsfaraldurs. Í vikunni þar á undan flutti ráðherra svo opnunarávarp á stafrænni vinnustofu um tækifæri og áskoranir fyrir sveitarfélög og atvinnulíf hjá Uppbyggingarsjóði EES, og tók þátt í sameiginlegum ráðherrafundi Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðastofnunarinnar um endurnýjanlega orku (IRENA) um samspil matvæla, orku og loftlagsbreytinga.
Þá er rétt að vekja athygli á tveimur nýlegum myndskeiðum ráðherra sem hafa verið birt í tilefni af því að um þessir mundir eru fjögur ár liðin frá því að hann tók við embætti. Hér fer ráðherra yfir viðbrögð utanríkisþjónustunnar þegar fyrsta bylgja heimsfaraldursins reið yfir hér á landi og að neðan fer Guðlaugur Þór yfir utanríkisviðskiptamál.
Þessu næst víkjum við að starfi sendiskrifstofa okkar en þar hefur auðvitað verið nóg um að vera.
Við tökum boltann á lofti en á leið sinni til Japan fékk Stefán Haukur Jóhannesson, sem færði sig á dögunum um set frá London til Tókýó, skemmtileg skilaboð frá áhöfn flugfélagsins Japan Airlines.
Delighted to arrive in Japan to start my tenure as the Ambassador of #Iceland 🇮🇸!Experienced the renowned #Japanese 🇯🇵 hospitality and service on the way here by #JapanAirlines staff – who gave me and my wife this wonderful message 🙏. Looking forward to my time here. pic.twitter.com/DV3IXOd4I2
— Stefan H Johannesson (@stefanhaukurj) January 19, 2021
Á vettvangi ÖSE gerðist Ísland í þriðja sinn síðan um áramót aðili að ESB-yfirlýsingu um Navalní-málið og mótmæli stjórnarandstæðinga í Rússlandi. Í yfirlýsingunni í gær var lýst miklum áhyggjum vegna ofbeldisins, sem beitt hefur verið til að berja niður friðsamleg mótmæli og þess, að yfirvöld hafa handtekið meira en 5000 þúsund manns, m. a. fjölmiðlafólk.
Á vettvangi fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York var fyrir sléttum tveimur vikum skorað á stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi að láta af ofsóknum gegn fjölmiðlum og leysa umsvifalaust úr haldi blaðamenn sem hafa verið hnepptir í varðhald í kjölfar forsetakosninganna á síðasta ári.
Í Washington var mikið um hátíðahöld er Joe Biden sór eið sem 46. forseti Bandaríkjanna. Sendiráð okkar í Washington sendi að sjálfsögðu hamingjuóskir. Á leið sinni heim fór sendiherra okkar í þar í borg, Bergdís Ellertsdóttir, í viðtal við RÚV sem var á staðnum.
Beautiful day in #WashingtonDC and a historic one. 🌟 We congratulate president Joe Biden @POTUS and vice president Kamala Harris @VP and look forward to continuing our work on strengthening the bond between Iceland and the United States even further. 🇺🇸🇮🇸 #Innauguration2021 pic.twitter.com/LK2OlNW3RO
— Iceland in US 🇮🇸 (@IcelandInUS) January 20, 2021
Skömmu síðar var Anthony Blinken skipaður utanríkisráðherra Bandaríkjanna og sendi Guðlaugur Þór, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, honum kveðju og kvaðst spenntur fyrir komandi samvinnuverkefnum ríkjanna. Bergdís tók í sama streng og endurtísti kveðju ráðherra.
Bæði buðu þau svo Harry Kamian velkominn til starfa í sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi.
Þessu til viðbótar fundaði Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, ásamt starfsmönnum sendiráðsins og fulltrúum utanríkisráðuneytisins fyrir viku síðan með utanríkismálanefnd Alþingis. Tilgangur fundarins var að upplýsa nefndina um stöðu mála í Bandaríkjunum, áherslur nýrrar ríkistjórnar Biden-Harris og þá vinnu sem nú á sér stað við að kortleggja hagsmuni Íslands og framtíðina í samskiptum ríkjanna.
Þá hófst í vikunni kvikmyndahátíðin Nordic Women in Film sem sendiráðið stendur að ásamt sendiráðum Norðurlanda í Washington og samtökunum Women in Film. Framlag Íslands er kvikmyndin Andið eðlilega og þátttakendur frá Íslandi Ísold Uggadóttir, Elísabet Rolandsdóttir og Silja Hauksdóttir. Silja tók þátt í pallborðsumræðum sem verða sendar út á föstudagskvöld Facebook síðu sendiráðs okkar. Hátíðin stendur frá þriðja febrúar til þriðja mars með sýningu einnar kvikmyndar á viku og umræðum sem tengjast efni myndarinnar og mismunandi þemum sem snerta á einn eða annan hátt stöðu kvenna í kvikmyndaiðnaðinum.
Í Kaupmannahöfn afhenti Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Danmörku, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Rúmeníu með aðsetur í Kaupmannahöfn. Vegna heimsfaraldursins fór afhendingin fram í sendiráði Rúmeníu í Kaupmannahöfn, sem jafnframt er sendiráð gagnvart Íslandi.
Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Danmörku, afhenti í dag trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Rúmeníu með...
Posted by Islands Ambassade i København / Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn on Thursday, 4 February 2021
Þá tók Helga þátt í fjarfundi sameiginlegrar tvíhliða nefndar uppbyggingarsjóðsins fyrir Rúmeníu á dögunum þar sem rætt var um tvíhliða verkefni sjóðsins með rúmenskum aðilum. Jafnframt tók hún þátt í umræðum á milli sendiherra Norðurlandanna í Danmörku og fulltrúa Norrænu ráðherranefnarinnar, meðal annars um stöðu norræns samstarf í málstofu á vegum sendiráðs Svíþjóðar í Danmörku, Norðurlandaráðs og Norræna menningarsjóðsins. Málstofan fór fram með rafrænum hætti.
Aðalræðisskrifstofa Íslands á Grænlandi fékk góða heimsókn á dögunum, hjónin Benedikte Abelsdóttir og Guðmundur Þorsteinsson. Þau komu færandi hendi og afhentu Þorbirni Jónssyni, aðalræðismanni, Egilssögu, Grettissögu og Heimskringlu úr ritröðinni Íslensk fornrit.
Í tilefni þorrans vakti sendiráð okkar í Osló athygli á glæsilegum og þjóðlegum veigum.
Í gær var María Erla Marelsdóttir, sendiherra Íslands í Berlín, til viðtals um viðskiptamál og menningartengd verkefni í Þýskalandi og önnur hagsmunamál þar sem sem sendiráðið getur orðið að liði.
Í Brussel stýrði Kristján Andri Stefánsson sendiherra í dag fyrsta fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar á þessu ári en Ísland hefur nú tekið við formennsku í EES EFTA samstarfinu. Nánar um formennskuna hér.
Fyrir um viku síðan afhenti Kristján Andri svo trúnaðarbréf sitt sem sendiherra gagnvart Lúxemborg með aðsetur í Belgíu. Í för með sendiherranum var Davíð Samúelsson eiginmaður hans.
Kristján Andri Stefánsson afhenti í gær Henri stórhertoga trúnaðarbréf sitt sem sendiherra gagnvart Lúxemborg með...
Posted by Embassy of Iceland in Brussels - Icelandic Mission to the EU on Friday, 29 January 2021
Sem fyrr heldur sendiskrifstofa okkar í Brussel úti samnefndri vakt. Hún kom síðast út fyrir viku síðan og hafi lesendur ekki þegar rennt yfir síðustu færslu má lesa hana hér.
Að lokum er rétt er að vekja athygli á því að í kvöld hefja göngu sína þættir á RÚV um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. KrakkaRÚV framleiðir þættina í samstarfi við forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið.
Í kvöld hefja göngu sína þættir á RÚV um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmiðin eru 17...
Posted by Utanríkisráðuneytið - utanríkisþjónusta Íslands on Friday, 5 February 2021
Við segjum þetta gott í bili og tökum þráðum upp í næstu viku!
Kveðja frá upplýsingadeild.