Opnað að nýju fyrir umsóknir um hlutdeildarlán
Opnað hefur verið að nýju fyrir umsóknir um hlutdeildarlán hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa til boða fyrir fyrstu kaupendur og þau sem ekki hafa átt íbúð sl. fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Lánunum er því ætlað að auðvelda fólki að brúa bilið við fasteignakaup og komast inn á húsnæðismarkaðinn.
Níu milljörðum úthlutað til 900 íbúða
Frá því að fyrst var byrjað að veita hlutdeildarlán árið 2020 hafa slík lán verið veitt til kaupa rúmlega 900 íbúða og nemur heildarfjárhæð hlutdeildarlána um 9 milljörðum króna. Það sem af er þessu ári hefur 2,7 milljörðum kr. verið úthlutað til alls 219 íbúða. Alþingi samþykkti í sumar að hækka lánsfjárheimild til hlutdeildarlána úr 3 milljörðum í 4 milljarða króna.
Hluti af aðgerðum stjórnvalda vegna kjarasamninga
Hlutdeildarlánin eru hluti af aðgerðum ríkisins til stuðnings fjögurra ára kjarasamningum á vinnumarkaði. Aðgerðirnar styðja við sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaðila um heilbrigðari húsnæðismarkað og fjölskylduvænna samfélag.
Þess má geta að stofnframlög til almennra íbúða eru einnig hluti af þessum stuðningi og auglýsir HMS eftir umsóknum einu sinni eða oftar á ári. Á þessu ári eru 7,3 milljarðar króna til úthlutunar, en það sem af er ári hefur HMS úthlutað 3,3 milljörðum króna til 265 íbúða. Á næstu vikum verður opnað fyrir þriðju úthlutun stofnframlaga 2024.
Nánar um hlutdeildarlán og stofnframlög
Hlutdeildarlán eru veitt fyrir allt að 20% kaupverðs og þarf lántaki að reiða fram a.m.k. 5% í formi eigin fjár. Lánin eru ólík öðrum lánum að því leyti að ekki eru um að ræða mánaðarlegar greiðslur eða vexti heldur er lán greitt til baka eftir 10-25 ár eða við sölu íbúðar. Sótt er um lánin á Ísland.is.
Stofnframlög eru veitt til uppbyggingar á hagkvæmum leiguíbúðum innan almenna íbúðakerfisins til að auka húsnæðisöryggi leigjenda og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna.