Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 389/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 13. nóvember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 389/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20100027

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.               Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumáli nr. KNU20020007, dags. 20. maí 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar frá 20. janúar 2020 um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 25. maí 2020. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa þann 1. júní 2020 en þeirri beiðni var synjað með úrskurði kærunefndar nr. KNU20060002, dags. 11. júní 2020. Þann 20. október 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt greinargerð og fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd frekari gögn þann 4. nóvember sl. Kærandi var fluttur úr landi þann 22. október sl.

Af endurupptökubeiðni kæranda má ráða að krafan byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.                  Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli þess að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin auk þess sem að ákvörðunin hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi tekur fram að með beiðni um endurupptöku málsins hafi kærandi lagt fram læknabréf þar sem fram kemur að einkenni kæranda samrýmist áfallastreituröskun. Um sé að ræða gagn sem bendi til þess að rétt hefði verið að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna um heilsufar kæranda sem nú hafa borist. Þá sé því haldið fram að stjórnvöldum hafi verið í lófa lagt að afla þessara gagna að eigin frumkvæði.

Kærandi telji að með því að leggja ekki fullnægjandi mat á andlega heilsu sína hafi stjórnvöld brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-6459/2019 en kærandi telji að þau sjónarmið sem hafi átt við í því máli eigi jafnframt við í máli kæranda. Í greinargerð kæranda er því þá haldið fram að dómsátt þess efnis að dómur héraðsdóms hafi ekki réttaráhrif hafi ekki áhrif á leiðbeiningargildi dómsins og aðferðarfræði til úrlausnar. Því sé þannig haldið fram að fyrir hendi hafi verið vísbendingar, áður en ákvörðun stjórnvalda var tekin, þess efnis að kærandi hafi glímt við alvarlega fylgikvilla þeirra áfalla sem hann hafi orðið fyrir. Ótækt sé að kærunefnd hafi kveðið upp úrskurð sinn áður en fullnægjandi gögn hafi legið fyrir og kærandi haldi því fram að um sé að ræða skýrt brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins.

Kærandi telur að samkvæmt læknabréfi sé heilsa hans talsvert verri en þau gögn sem lágu fyrir hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála gefa til kynna. Umrætt gagn bendi til þess að kærandi þjáist af alvarlegri áfallastreituröskun vegna þeirra áfalla sem hann hafi orðið fyrir. Áfallastreituröskun sé alvarleg geðröskun sem hafi verulega þýðingu við mat á því hvort rétt sé að taka mál umsækjenda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá hafi kærandi leitað á bráðamóttöku geðsviðs þann 1. september sl. og því sé ljóst að heilsa hans sé talsvert verri en gert hafi verið ráð fyrir við uppkvaðningu úrskurðar.

Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, hagsmunum þeim sem séu í húfi og hvernig þessar upplýsingar kunni að breyta niðurstöðu málsins sé ljóst að fullt tilefni sé til endurupptöku málsins.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 20. maí 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram nýtt heilbrigðisgagn frá heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja þar sem fram kemur m.a. að kærandi glími við hræðslu, kvíða og eigi erfitt með svefn. Þá upplifi hann vonleysi og á hann leiti hugsanir um að svipta sig lífi, þótt hann hafi ekki gert tilraun til þess. Samkvæmt læknabréfinu hafi kæranda verið vísað á bráðaþjónustu geðsviðs. Kærunefnd sendi tölvupóst á kæranda þann 23. október 2020 þar sem beðið var um upplýsingar um dagsetningu læknabréfsins auk þess sem að kæranda var gefið tækifæri á að leggja fram frekari heilsufarsgögn. Að ósk kæranda var honum þann 29. október 2020 veittur viðbótarfrestur til að afla nánari upplýsinga og gagna. Þann 4. nóvember 2020 bárust kærunefnd frekari heilbrigðisgögn frá heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, dags. 7. júlí til 21. október 2020, sem innihéldu m.a. framangreint læknabréf, dags. 18. september sl. Ljóst er af gögnunum að kærandi hafi leitað þar aðstoðar vegna andlegrar vanlíðunar og m.a. fengið lyf vegna þess. Þá hafi honum verið vísað til bráðaþjónustu geðsviðs, en ekki liggur fyrir samkvæmt framlögðum gögnum að hann hafi leitað þangað.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 20. maí 2020, ásamt þeim fylgigögnum sem liggja fyrir í málinu. Þegar kærunefnd úrskurðaði í máli kæranda hinn 20. maí sl. lá fyrir að atburðir í heimaríki kæranda hefðu haft áhrif á andlega líðan hans og að hann hafi hitt sálfræðing á Göngudeild sóttvarna. Það er mat nefndarinnar að hinar nýju upplýsingar beri með sér að andlegri heilsu kæranda hafi hrakað frá því að nefndin úrskurðaði upphaflega í málinu. Hins vegar telur nefndin jafnframt ljóst að kærandi glími ekki við alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Kærunefnd vísar í þessu samhengi til umfjöllunar um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð í framangreindum úrskurði kærunefndar í máli kæranda. Þar var m.a. tekið fram að gögn málsins bæru með sér að umsækjendur sem hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu, en fái þó ekki fjárhagsstuðning ríkisins til þess að greiða fyrir slíka þjónustu. Áréttar kærunefnd að í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga er sérstaklega tekið fram að meðferð við veikindum teljist, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana. Að mati kærunefndar er heilsufar kæranda ekki þess eðlis að ástæða sé til að víkja frá þessari meginreglu.

Kærandi byggir einnig á því að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en ekki hafi verið lagt fullnægjandi mat á andlega heilsu kæranda. Kærandi telur jafnframt að stjórnvöld hefðu átt að afla frekari gagna um heilsu kæranda af sjálfdáðum. Við meðferð máls kæranda hjá stjórnvöldum var kæranda leiðbeint um að leggja fram þau heilsufarsgögn sem hann teldi hafa þýðingu fyrir mál sitt og voru slík gögn lögð fram. Kærunefnd áréttar í þessu sambandi að stjórnvöld hafa ekki heimild til öflunar slíkra gagna.

Til stuðnings þessarar málsástæðu vísar kærandi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-6459/2019. Kærunefnd hefur endurtekið komist að þeirri niðurstöðu að sá dómur hafi hvorki þýðingu fyrir aðila dómsmálsins né almennt fordæmis- eða leiðbeiningargildi. Eins og talsmanni kæranda er ljóst var gerð dómssátt á grundvelli 4. mgr. 108. gr. laga um einkamála um þau álitaefni sem dómurinn fjallaði um með vísan til þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi voru á Ítalíu vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd hefur jafnframt talið að dómur héraðsdóms í þessu máli hafi vikið í veigamiklum atriðum frá viðteknum viðmiðum um umfang og eðli rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, en dóminum hafði verið áfrýjað Landsréttar þegar sáttin var gerð. Kærunefnd telur því að dómurinn hafi ekki almennt leiðbeiningargildi um eðli og umfang rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar eða þá aðferðarfræði sem leggja beri til grundvallar. Þá telur kærunefnd að málsatvik þessa máls séu í veigamiklum atriðum frábrugðin þeim aðstæðum sem voru uppi í dómsmálinu sem kærandi vísar til. Í tilvitnuðu dómsmáli var um að ræða einstæða móður sem var þolandi mansals en kærandi var staddur einsamall hér á landi. Þá verður ekki ráðið að nefndin hafi, í því máli sem hér er til umfjöllunar, synjað beiðnum um að bíða eftir frekari gögnum. Sú tenging sem talsmaður kæranda gerir við ofangreindan dóm héraðsdóm er því tilhæfulaus með öllu. 

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að hinar nýju upplýsingar beri með sér að andlegri heilsu kæranda hafi hrakað frá því að upphaflegi úrskurðurinn var kveðinn upp þá hafi þau atvik sem fyrri úrskurður kærunefndar byggði á ekki breyst svo verulega að tilefni sé til þess að endurupptaka úrskurðinn.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 20. maí 2020, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellant‘s request is denied.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                     Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta