Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2023 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 19/2021 - Úrskurður

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

mennta- og barnamálaráðuneytinu

 

Skipun í embætti. Mismunun á grundvelli kyns. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra, nú mennta- og barnamálaráðherra, um að skipa karl í embætti skólameistara Verkmenntaskóla Austurlands. Að mati kæru­nefndar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns við skipun í embættið. Var því ekki fallist á að ráðuneytið hefði gerst brotlegt við lög nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 23. febrúar 2023 er tekið fyrir mál nr. 19/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  1. Með kæru, dags. 6. desember 2021, kærði A ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra, nú mennta- og barnamálaráðherra, um að skipa karl í embætti skólameistara Verkmenntaskóla Austurlands. Kærandi telur að með skipuninni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Gerir kærandi kröfu um að kærða verði gert að greiða henni málskostnað, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála.
  2. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 5. janúar 2022. Kærði óskaði tvívegis eftir framlengdum fresti til að skila greinargerð í málinu. Greinargerð kærða barst 17. mars 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 21. mars s.á. Kærandi óskaði eftir viðbótarfresti til að skila athugasemdum. Bárust þær nefndinni 6. maí 2022 og voru sendar kærða til kynningar 9. s.m. Kærði óskaði enn eftir viðbótarfresti og skilaði athugasemdum sínum 30. júní 2022 og voru þær sendar kærða 4. júlí s.á.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  3. Kærði auglýsti embætti skólameistara Verkmenntaskóla Austurlands laust til umsókn­ar með auglýsingum 16. og 19. júní 2021 með umsóknarfresti til 1. júlí 2021. Í aug­lýs­ingunni kom m.a. fram að skólinn væri áfangaskóli sem byði upp á verk- og bóknám, bæði styttri brautir og brautir til starfsréttinda og stúdentsprófs. Skólinn væri eini framhaldsskólinn á austanverðu landinu sem gæfi nemendum kost á að leggja stund á nám á fjölbreyttum iðn- og starfsnámsbrautum auk bóknámsbrauta. Starfsmenn skól­ans væru um 40 talsins og fjöldi nemenda um 250 talsins, þar af 150 í dagskóla og 100 í fjarnámi. Jafnframt kom fram að skólameistari veitti skólanum forstöðu, stjórnaði daglegum rekstri og starfi skólans og gætti þess að skólastarfið væri í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann bæri ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar og að henni væri fylgt, auk þess að hafa frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans. Enn fremur var tekið fram að skólameistari gegndi mikilvægu hlutverki í mótun skólastarfs á grundvelli laga og aðal­nám­skrár framhaldsskóla en að mikilvægt væri að umsækjendur hefðu skýra fram­tíðar­sýn hvað það varðaði. Hæfni- og menntunarkröfur voru tilgreindar sem starfs­heitið kennari ásamt viðbótar­menntun í stjórnun eða kennslureynslu á fram­halds­skólastigi og þekking á fjár­málum, rekstri og áætlanagerð auk þekkingar og reynslu af stjórnsýslu. Þá var gerð krafa um umfangsmikla stjórnunarreynslu og leiðtogahæfni, góða samskiptahæfni og færni til að skapa liðsheild á vinnustað, reynslu af verkefna­stjórnun og stefnumótunarvinnu, skýra framtíðarsýn og hæfileika til nýsköpunar.
  4. Að loknum umsóknarfresti lágu þrjár umsóknir um embættið fyrir, þ.e. frá kæranda og tveimur körlum. Ráðgefandi valnefnd boðaði umsækjendurna í viðtal og leitaði eftir umsögn skólanefndar Verkmenntaskóla Austurlands. Var það niðurstaða valnefndar­innar að mæla með að karlarnir yrðu boðaðir í annað viðtal. Skipuð var önnur valnefnd til að halda áfram ráðningarferlinu. Síðari valnefnd ákvað að bjóða öllum þremur umsækjendunum í framhaldsviðtal. Að viðtölum loknum var það niðurstaða síðari valnefndar að mæla með því að annar karlinn yrði skipaður í embættið. Skipaði ráðherra hann í starf skólameistara frá 1. september 2021.
  5. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi 6. ágúst 2021 sem var veittur með bréfi, dags. 24. ágúst s.m.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  6. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við skipun í embætti skólameistara Verkmenntaskóla Austur­lands. Hafi kærandi verið látin gjalda kynferðis síns þegar reynsluminni og minna menntaður karl hafi verið skipaður í embættið. Þá gerir kærandi kröfu um að kærða verði gert að greiða henni málskostnað, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála.
  7. Kærandi telur að ráðningarferlið hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga og reglna og að hún hafi ekki fengið sanngjarna og óhlutdræga meðhöndlun af hálfu kærða. Þá telur hún að við meðferð málsins hafi vísvitandi verið gert lítið úr hæfni hennar, mennt­un og reynslu, en að sama skapi meira gert úr reynslu þess sem fékk starfið á ákveðnum sviðum og ekki hafi verið samræmi í einkunnagjöf valnefndar á umsækjendum. Telur kærandi að hún hafi meiri menntun og meiri og fjölbreyttari starfsreynslu en sá sem var skipaður og hafi því verið hæfari til að gegna embættinu. Hafi henni því verið mismunað á grundvelli menntunar og starfsreynslu auk fleiri þátta.
  8. Kærandi tekur fram að hún hafi lokið BA-prófi í íslensku og þýsku frá Háskóla Íslands árið 1982. Hún hafi stundað nám í þýskum fræðum við háskólann í Bonn á árunum 1982–1983 og lokið námi í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands árið 1983. Þá hafi hún lokið meistaraprófi í íslensku (M.Paed.) frá sama skóla árið 2005 til kennslu í grunn- og framhaldsskólum, meistaraprófi í lögfræði frá Háskól­anum í Reykjavík árið 2018, auk þess að hafa stundað meistaranám í íslenskum bók­menntum við Háskóla Íslands á árunum 2019–2020. Hafi hún leyfisbréf bæði sem grunnskólakennari og framhaldsskólakennari. Sá sem fékk starfið hafi hins vegar lokið sveinsprófi í rafvirkjun árið 2007, hafi numið rafiðnaðarfræði við Háskólann í Reykja­vík árið 2013 og hafi orðið rafvirkjameistari árið 2014. Hafi hann hlotið B-löggildingu til rafvirkjunarstarfa árið 2017. Þá hafi hann lokið grunndiplómaprófi í kennslufræði fyrir iðnmeistara við Háskóla Íslands árið 2021 og hafi leyfisbréf til að nota starfsheitið kennari. Sé kærandi því með mun meiri menntun en sá sem hlaut embættið, auk þess sem hann hafi ekki stundað neina kennslu eftir að hann hlaut kennsluréttindi.
  9. Bendir kærandi á að hún hafi kennt í framhaldsskóla frá 1983 eða í 38 ár og þar af haft leyfi til að starfa sem framhaldsskólakennari í 34 ár og verið deildar- og fagstjóri í þýskudeildum í tveimur framhaldsskólum í samtals 15 ár. Sá sem var skipaður í embættið hafi kennt við Verkmenntaskóla Austurlands frá árinu 2013, þar af fyrstu tvö árin sem stundakennari en í fullu starfi í sex ár. Frá árinu 2016 hafi hann verið deildarstjóri rafdeildar skólans. Hafi hann starfað sem leiðbeinandi við skólann enda ekki með réttindi til að starfa sem framhaldsskólakennari.
  10. Kærandi gerir athuga­semd við að hæfnisþátturinn menntun hafi verið notaður sem lágmarksviðmið og ekki haft tölulegt vægi. Er þannig menntun og reynsla kæranda og kærða af kennslu við framhaldsskóla lögð að jöfnu og því enginn munur gerður á 38 ára kennslureynslu kæranda, þar af með réttindi sem framhaldsskólakennari í 34 ár, og sex ára reynslu þess sem var skipaður í embættið sem leiðbeinanda við framhaldsskóla. Sé það óforsvaranlegt.
  11. Gerir kærandi athugasemdir við niðurstöðu fyrri valnefndar varðandi matsþáttinn „fyrri starfsreynsla og þekking á starfstengdum þáttum“ sem hafi verið skipt upp í nokkra undirmatsþætti í skýrslu valnefndar. Bendir kærandi á að af fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að hún hafi mun lengri reynslu af verkefnastjórnun, stefnumótun og stjórnun en sá sem fékk embættið. Þá sé ósamræmi í mati nefndarinnar varðandi þessa þætti matsins, þ.e. í tölulegri einkunnagjöf og texta í skýrslunni. Þannig hafi hún og sá sem fékk embættið fengið sömu einkunn fyrir verkefnastjórnun og stefnumótunarvinnu en í texta skýrslunnar hafi verið sagt að reynsla hennar af stjórnun hafi verið takmörk­uð en að sá sem var skipaður í embættið hafi haft nokkra reynslu af almennri stjórnun, verkefnastjórnun og stefnumótun. Hafi hún gert ítarlega grein fyrir krefjandi verkefnum í viðtali. Þá sé löng reynsla kæranda af deildar- og fagstjórn í framhalds­skólum ásamt setu í samstarfsnefnd og vinnumatsnefnd Kvennaskólans og þess sem fékk embættið ekki sambærileg. Er því ljóst að þetta mat valnefndar standist enga skoðun. Seinni valnefndin hafi talið þann sem var skipaður standa kæranda skör framar þar sem sýn hans og nálgun á verknámi félli best að þörfum skólans. Kærandi gerir athugasemd við að þetta mat hafi lotið að framtíðarsýn umsækjenda en ekki þekk­ingu þeirra og reynslu af stjórnun og rekstri. Bendir kærandi á að í báðum tilvikum, þ.e. hjá fyrri og seinni valnefnd, hafi niðurstöðurnar verið að langmestu leyti byggðar á upplýsingum úr viðtölum við umsækjendur án þess að sinnt hafi verið fullnægjandi skráningu sem skylt sé að gera, sbr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
  12. Kærandi mótmælir því að ekkert hafi fram komið í umsóknargögnum hennar sem hafi varðað hæfnisþáttinn „þekking á fjármálum, rekstri og áætlanagerð“. Hafi komið fram í ferilskrá hennar að hún hafi starfað sem deildarstjóri og fagstjóri í tveimur framhalds­skólum um árabil sem og átt sæti í samstarfsnefnd og vinnumatsnefnd framhaldsskóla. Með setu í nefndunum hafi kærandi öðlast mikla innsýn í fjármál og rekstur stórs fram­haldsskóla. Hún telur mat fyrri valnefndar ekki standast skoðun. Bendir kærandi á að sá sem var skipaður í embættið hafi starfað í rúmlega eitt og hálft ár hjá fyrirtæki með þrjú til fjögur stöðugildi samkvæmt ársreikningum félagsins fyrir tíma­bilið og umfang rekstrarins verið mjög tak­markað. Ekki verði séð af fyrirtækjaskrá að hann hafi gegnt stöðu framkvæmda­stjóra eða farið með prókúru fyrir félagið.
  13. Kærandi tekur fram að hæfnisþátturinn „persónuleg færni“ hafi verið skilgreindur með vísan til hæfni í mannlegum samskiptum, reynslu af þróun jákvæðrar vinnustaða­menningar, reynslu af krefjandi starfsmannamálum og skipulagshæfni. Hvað varðar skipulagshæfni mótmælir kærandi því að hægt sé að lesa það út úr viðtalsgögnum að kærandi hafi ekki náð að sýna fram á skipulagshæfni sína með sannfærandi hætti en að sá sem hlaut embættið hafi virst hafa skýra yfirsýn yfir verkefnin. Gerir kærandi athugasemd við að niðurstöðurnar hafi að langmestu leyti verið byggðar á upplýsingum úr viðtölum við umsækjendur án þess að sinnt hafi verið fullnægjandi skráningu.
  14. Þá tekur kærandi fram að hæfnisþátturinn „þekking og reynsla af opinberri stjórn­sýslu“ hafi verið skilgreindur með vísan til fyrri reynslu af opinberri stjórnsýslu sem stjórnandi og hvernig hafi reynt á þekkingu umsækjenda af lögum hins opinbera í starfi. Í mati fyrri valnefndar komi fram að þekking kæranda á opinberri stjórnsýslu sé nokkuð meiri en annarra umsækjenda. Einnig að ljóst sé að starfsreynsla umsækjenda sé slík að ekki hafi reynt verulega á þekkingu á opinberri stjórnsýslu í störfum þeirra. Því telur kærandi ljóst að hún hafi verið talin hæfust umsækjenda við mat á þættinum og staðið þeim sem var skipaður mun framar en að ekki verði séð að það hafi verið tekið inn í heildarmat í niðurstöðu valnefndar.
  15. Varðandi hæfnisþáttinn „framtíðarsýn“ bendir kærandi á að sá sem hlaut embættið hafi verið í allt annarri stöðu en hún til að setja fram ítarlegar tillögur um framtíðarsýn fyrir skólann enda hefði hann starfað við skólann í nokkur ár. Tekur hún fram að jafnvel þótt heimilt væri að ljá slíku sjónarmiði vægi við hæfnismat geti það ekki rutt úr vegi öðrum umsækjanda sem hafi meiri menntun og stjórnunarreynslu og reynslu af starfsmannaábyrgð og rekstri, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 6614/2011.
  16. Kærandi gerir athugasemdir við að meðmæla hafi einungis verið leitað vegna tveggja umsækjenda en ekki hennar og hafi hún þannig verið útilokuð frá ráðningarferlinu sem sé einungis á færi ráðherra. Þá gerir hún athugasemdir við hæfi skólanefndar þar sem sá sem fékk embættið hafi setið sem áheyrnarfulltrúi kennara í skólanefndinni vetur­inn áður. Bendir hún á að sá sem hlaut embættið hafi ekki verið metinn hæfastur af skólanefnd til að gegna því en formaður skólanefndar hafi verið meðmælandi hans. Þá bendir hún á að óljóst sé frá hverjum niðurstaða um hæfni umsækjenda í skýrslu valnefnda stafi, þar sem aðeins komi fram að það sé „sameiginleg niðurstaða mennta- og menningarmálaráðuneytis“ að loknu heildstæðu mati á þeim sjónarmiðum sem leggja beri til grundvallar samkvæmt auglýsingu um embætti skólameistara að mæla með þeim sem hlaut embættið. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við að síðari val­nefndin hafi aðeins byggt niðurstöðu sína á hluta þeirra hæfnisþátta sem fyrri valnefndin byggði á og litið framhjá þeim hæfnisþáttum þar sem kærandi stóð þeim er embættið hlaut mun framar. Þá gerir kærandi athugasemd við það að í minnisblaði til ráðherra, þar sem óskað hafi verið ákvörðunar um skipun í embætti skólameistara, fylgi einkunnagjöf beggja valnefnda fyrir starfstengda þætti annars vegar og persónu­lega færni hins vegar. Hins vegar sé ekki tilgreind einkunnagjöf fyrir hæfnisþættina menntun við hæfi og þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu. Þá sé ekkert fjallað um vægi einstakra hæfnisþátta í mati valnefndanna. Þá liggi ekki fyrir heildstætt skjal um stigagjöf valnefndarmanna, hvorki á grundvelli mats­kvarðans sem notaður var í viðtalinu né á grundvelli hæfnisþátta sem metnir voru. Þá liggi ekki fyrir skipunarbréf eða gögn um skipun seinni valnefndarinnar og því óljóst hvenær hún hafi verið skipuð.
  17. Kærandi telur ekki rétt þau ummæli kærða að játa verði ráðherra töluvert svigrúm við mat á vægi einstakra sjónarmiða við samanburð milli umsækjenda og hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum. Ráða megi af skrifum fræðimanna og álitum umboðsmanns Alþingis að svigrúm veitingarvaldshafa takmark­ist af rannsóknar­reglunni og verðleikareglunni. Fullnægjandi upplýsingar verði að liggja fyrir um þá þætti sem veitingarvaldshafi hyggist byggja ákvörðun um skipun á. Ef veitingarvalds­hafi ætli að byggja á huglægum sjónarmiðum, s.s. persónulegum eigin­leikum umsækjenda, verði að leggja viðhlítandi grundvöll að slíku mati. Þá beri veitingarvalds­hafa á grundvelli verðleikareglunnar að ráða hæfasta einstaklinginn í starfið. Kærandi segir ekki verða séð að kærði hafi gætt að skyldum sínum samkvæmt þessum tveimur reglum.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  18. Kærði hafnar því að ómálefnalegar ástæður, þ.m.t. kyn umsækjenda, hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða um skipun í embætti skólameistara og að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Þá fer kærði fram á að kröfu kæranda um máls­kostnað verði vísað frá, enda hafi kærandi ekki sýnt fram á kostnað sinn vegna kærunnar.
  19. Kærði bendir á að samkvæmt almennum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um mat á hæfni umsækjenda um opinber störf verði að ljá veitingarvaldshafa töluvert svigrúm um mat á vægi einstakra sjónarmiða við samanburð á milli umsækjenda og hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis nr. 5466/2008. Veitingarvaldshafa beri að velja þann umsækjanda sem hæf­astur verði talinn á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Hafi verðleikareglunni verið fylgt við skipunina. Ráðherra hafi borið ábyrgð á ráðningarferlinu og tekið endanlega ákvörðun um hvaða umsækjandi væri hæfastur til að gegna embættinu.
  20. Bendir kærði á að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, skipi ráðherra skólameistara í framhaldsskólum til fimm ára í senn og skuli skólanefnd veita umsögn um umsækjendur um starf skólameistara. Um hæfniskröfur skólastjórnenda sé nánar kveðið á í 2. mgr. 12. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 95/2019, um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands teljist til embættismanna sem forstöðumaður ríkisstofnunar samkvæmt 13. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
  21. Tekur kærði fram að í samræmi við heimild 39. gr. b laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hafi ráðherra skipað ráðgefandi hæfnisnefnd til að meta hæfni umsækjenda út frá hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum. Bar nefndinni að skila skýrslu til ráðherra þar sem fram kæmi með rökstuddum hætti hvaða um­sækjendur væru hæfastir til að gegna embættinu í samræmi við menntunar- og hæfniskröfur í auglýsingu um embættið auk annarra sjónarmiða sem taka þyrfti tillit til við skipun í embættið, þ.m.t. lögbundinna skilyrða samkvæmt lögum nr. 70/1996 og nr. 95/2019.
  22. Kærði tekur fram að valnefnd hafi farið yfir allar umsóknir og lagt mat á eftirfarandi þætti út frá umsóknargögnum: 1) starfsheitið kennari ásamt viðbótarmenntun í stjórn­un eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi, 2) þekking á fjármálum, rekstri og áætlanagerð, 3) þekking og reynsla af stjórnsýslu, 4) umfangsmikil stjórnunarreynsla, 5) reynsla af verkefnastjórnun og stefnumótunarvinnu, 6) umfangsmikil þekking á framhaldsskólakerfinu og 7) skýr framtíðarsýn. Í kjölfarið hafi í starfsviðtali verið lagðar fyrir hegðunartengdar spurningar. Bendir kærði á að út frá auglýsingu um embætti skólameistara Verkmenntaskóla Austurlands og hinum lögbundnu hæfnis­skilyrðum hafi valnefnd skilgreint hæfnisþætti sem æskilegt hafi verið talið að skóla­meistari byggi yfir og útbúið viðtalsspurningar fyrir starfsviðtal. Þessir matsþættir voru: 1) fyrri starfsreynsla og þekking á starfstengdum þáttum, 2) persónuleg færni og 3) þekking og 4) reynsla af opinberri stjórnsýslu. Í viðtölum hafi verið notaður staðlaður viðtalsrammi og umsækjendur fengið sömu spurningarnar. Þá hafi verið leitað eftir umsögn skólanefndar Verkmenntaskóla Austurlands um umsækjendur í samræmi við 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, en sú umsögn hafi verið byggð á umsóknargögnum. Valnefnd hafi skilað greinargerð til ráðherra sem byggði á niðurstöðu og mati valnefndar á öllum fyrirliggjandi gögnum og frammistöðu um­sækjenda í starfsviðtali. Var það mat valnefndar að nauðsynlegt væri að fá betri innsýn í hæfni og færni umsækjenda. Ráðherra hafi því ákveðið að skipa aðra valnefnd til að halda áfram með ráðningarferlið. Fór seinni valnefnd yfir fyrirliggjandi gögn og skýrslu fyrri valnefndar. Hafi seinni valnefndin fylgt eftir mati og niðurstöðu fyrri valnefndar og útbúið viðtalsspurningar þar sem lögð hafi verið áhersla á að kafa dýpra í þekkingu umsækjenda á starfi skólameistara og þær áherslur sem þau myndu leggja í starfi. Hafi allir þrír umsækjendurnir verið boðaðir í framhaldsviðtal.
  23. Kærði bendir á að við mat á þekkingu, hæfni og færni hafi báðar valnefndir litið til allra fyrirliggjandi gagna, s.s. umsóknargagna og tölulegs mats á þeim, umsagnar skóla­nefndar og frammistöðu í starfsviðtali. Tekur kærði fram að hæfniskrafan „starfsheitið kennari ásamt viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslu­reynslu á framhaldsskólastigi“, sem fram kom í auglýsingu, sé í samræmi við 2. mgr. 12. gr. laga nr. 95/2019. Lagt hafi verið til grundvallar að umsækjendur þyrftu að fullnægja almennum hæfnisskilyrðum og lágmarkskröfum til að gegna starfi á þeim tíma­punkti er ákvörðun um ráðningu var birt. Það sé því óumdeilt að bæði kærandi og sá er var skipaður í embættið hafi haft starfsheitið kennari og kennslureynslu á framhalds­skólastigi. Þar sem um lágmarks­kröfu hafi verið að ræða hafi hæfnis­þættinum ekki verið gefið tölulegt gildi heldur metið hvort umsækjendur uppfylltu hann eða ekki. Aðrir þættir auglýsingar hafi verið metnir með tölulegu gildi á skalanum 1–5. Að mati kærða sé ljóst að heimilt sé að meta hvernig vægi einstakra hæfnisþátta sé háttað, sbr. t.d. fyrrnefnt álit umboðsmanns Alþingis nr. 5466/2008. Með þeirri ákvörðun að líta til menntunar og kennslu­­reynslu á framhalds­skólastigi sem lágmarkskröfu til að komast áfram í viðtal hafi kærði því ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020.
  24. Kærði bendir á að hæfnisþátturinn „þekking á fjármálum, rekstri og áætlanagerð“ hafi verið metinn út frá umsóknargögnum og frammistöðu umsækjenda í viðtali. Í um­sóknar­gögnum kæranda hafi ekkert komið fram er laut að þessum hæfnisþætti en í umsóknar­gögnum þess er hlaut embættið hafi hins vegar m.a. komið fram að hann hafi stýrt starfsstöð fyrirtækis þar sem hann hafi annast allan daglegan rekstur. Við tölu­legt mat á umsóknargögnum hafi kærandi hlotið 0,8 stig en sá sem hlaut starfið 2 stig. Varð því mat og niðurstaða fyrri valnefndar að sá sem hlaut starfið hefði nokkuð meiri reynslu en kærandi. Við mat á svörum í starfsviðtali hafi verið ljóst að reynsla þess er hlaut embættið af fjármálum, rekstri og áætlanagerð hafi verið nokkuð meiri en reynsla kæranda. Hann hafi borið fjárhagslega ábyrgð á rekstri og komið að tilboðs­gerð vegna útboðsverkefnis en kærandi aðeins komið að áætlanagerð hvað varðar kennslumagn og skiptingu og þar með ekki haft beina aðkomu að fjárhagslegri áætlana­gerð. Við tölulegt mat á frammistöðu umsækjenda í starfsviðtali hafi kærandi hlotið 2,4 stig að meðaltali en sá sem hlaut embættið 3,6 stig. Niðurstaða fyrri valnefndar hafi því verið sú að sá sem hlaut embættið hefði ágæta reynslu af fjármálum, rekstri og áætlana­gerð bæði innan og utan skólans, auk þess að hafa borið fjárhagslega ábyrgð á rekstri, en kærandi hefði ekki náð að sýna fram á beina slíka reynslu. Seinni valnefnd hafi ekki talið þörf á að spyrja nánar út í hæfnisþáttinn.
  25. Kærði tekur fram að varðandi hæfnisþáttinn „þekking og reynsla af stjórnsýslu“ hafi kærandi við tölulegt mat á umsóknargögnum fengið 3,3 stig en sá sem hlaut embættið 2,3 stig af 5 stigum. Hafi fyrri valnefnd talið kæranda búa yfir töluvert meiri þekkingu á opinberri stjórnsýslu en þann sem hlaut embættið, einkum sökum lögfræðimenntunar hennar. Jafnframt að starfsreynsla bæði kæranda og þess er hlaut embættið væri slík að ekki hefði reynt verulega á þekkingu þeirra á opinberri stjórnsýslu í starfi. Í því sambandi áréttar kærði að við mat á svörum í starfsviðtali hafi verið spurt um reynslu viðkomandi af opinberri stjórnsýslu sem stjórnandi og hvernig hefði reynt á þá reynslu í starfi en ekki um þekkingu viðkomandi á stjórnsýslulögum. Við tölulegt mat á frammi­stöðu umsækjenda í starfsviðtali hlaut kærandi að meðaltali 3,5 stig en sá sem hlaut starfið að meðaltali 3,1 stig. Seinni valnefndin taldi ekki þörf á að spyrja nánar út í þekkingu og reynslu umsækjenda af stjórnsýslu. Kærði bendir á að við heildstætt mat á frammistöðu umsækjenda í starfsviðtölum hafi verið reiknað meðaltal fyrir hvern þátt úr báðum viðtölum, þ.e. meðaltal vegna starfstengdra þátta, persónulegrar færni og þekkingar á opinberri stjórnsýslu. Við lokamat hafi verið reiknað meðaltal af þessum þremur þáttum og mat á opinberri stjórnsýslu hafi gilt 33,33% af tölulegu heildarmati umsækjenda. Með vísan til þess hafnar kærði því alfarið að kæranda hafi verið mismunað við mat á þekkingu hennar á opinberri stjórnsýslu.
  26. Kærði bendir á að varðandi hæfnisþáttinn „umfangsmikil stjórnunarreynsla og leið­togahæfni“ hafi báðar valnefndir metið það svo að þrátt fyrir lengri reynslu kæranda af stjórnunarstarfi í árum talið, sem deildar- og fagstjóri við framhaldsskóla, hafi sá sem hlaut embættið búið yfir fjölbreyttari reynslu af stjórnun, bæði úr núverandi og fyrri störfum, sem nýttist betur í embætti skólameistara. Við tölulegt mat á umsóknargögnum hafi kærandi hlotið 2,3 en sá sem hlaut embættið 3 stig af samtals 5 stigum. Við tölulegt mat á frammistöðu í starfsviðtali hlaut kærandi að meðaltali 2,7 stig en sá sem hlaut embættið 3,5 stig. Var það mat og niðurstaða fyrri valnefndar að kærandi hefði ekki þurft að takast á við stjórnunarlega krefjandi verkefni í sínu starfi og að reynsla hennar á því sviði væri takmörkuð en sú niðurstaða var til að mynda byggð á dæmum sem kærandi nefndi í starfsviðtali. Þá þótti valnefnd áhersla þess sem hlaut embættið á nemendur og starfsmenn við skilgreiningu á árangri í starfsviðtali sérstaklega jákvæð. Við tölulegt mat á svörum við spurningum í seinna starfsviðtali hafi kærandi fengið að meðaltali 3,2 stig en sá sem hlaut embættið 3,5 stig. Var það mat og niðurstaða seinni valnefndar að sá sem hlaut embættið hafi náð að sýna fram á skýrari stjórnunar- og leiðtogahæfni en aðrir umsækjendur.
  27. Kærði tekur fram að hæfnisþátturinn „góð samskiptahæfni og færni til að skapa liðs­heild á vinnu­stað“ hafi verið metinn út frá frammistöðu umsækjenda í fyrra starfs­viðtali. Við tölulegt mat á frammistöðu í starfsviðtali hafi kærandi fengið að meðaltali 3,6 stig en sá sem hlaut embættið 3,9 stig. Fyrri val­nefnd hafi metið það svo að bæði kærandi og sá sem hlaut starfið hafi búið yfir góðri samskiptahæfni og færni til að skapa liðsheild. Sá sem hlaut embættið hefði þó betur náð að lýsa hvernig hann vildi byggja upp jákvæða vinnustaðamenningu með því að koma inn á bæði fag- og félagslega þætti en áherslur kæranda hefðu frekar verið á þá félagslegu.
  28. Varðandi hæfnisþáttinn „reynsla af verkefnastjórnun og stefnumótunarvinnu“ tekur kærði fram að fyrri valnefnd hafi talið að þrátt fyrir að kærandi hefði lengri reynslu sem deildar- og fag­stjóri í árum talið sem hafi falið í sér verkefnastjórn og stefnumótun hafi sá sem hlaut embættið fjölbreyttari reynslu af þessum þáttum, bæði úr skóla­samfélaginu og úr fyrri störfum. Við tölulegt mat á umsóknargögnum hafi kærandi og sá sem hlaut embættið verið bæði með 3,7 stig af samtals 5. Við tölulegt mat á frammi­stöðu umsækjenda í starfsviðtali hafi kærandi að meðaltali fengið 2,9 stig en sá sem hlaut embættið 3,8 stig. Var það niðurstaða fyrri valnefndar að kærandi hefði ekki náð að sýna með sannfærandi hætti fram á reynslu sína af verkefna­stjórn og stefnu­mótun en sá sem hlaut embættið hefði betur náð að sýna fram á hlutverk sitt sem stjórnandi við verkefnastjórn í starfsviðtali. Seinni valnefndin taldi ekki þörf á að spyrja nánar út í reynslu umsækjenda af verkefnastjórn og stefnumótunarvinnu. Hafnar kærði að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli þekkingar sinnar og reynslu af verkefnastjórnun og stefnumótun og að misræmi hafi annars vegar verið í greinargerð ráðuneytisins og hins vegar í tölulegu mati fyrri valnefndar.
  29. Varðandi hæfnisþáttinn „skýr framtíðarsýn og hæfileiki til nýsköpunar“ var það niður­staða fyrri valnefndar þegar horft væri til umsóknargagna að sá sem hlaut embættið hefði lagt fram skýra og vel afmarkaða framtíðarsýn fyrir skólann á meðan framtíðarsýn kæranda hefði verið almennari. Hafi kærandi fengið 2,8 stig eftir mat á umsóknargögnum en sá sem hlaut embættið 4,5 af 5 stigum. Hafnar kærði því að starfsreynsla þess er hlaut embættið við skólann hafi haft ráðandi áhrif við mat á gæðum framtíðarsýnar eins og hún var lögð fram í umsóknargögnum. Seinni valnefnd hafi metið þáttinn nánar í starfsviðtali með krefjandi spurningum. Heilt yfir hafi ekki verið mikill munur á svörum kæranda og þess er hlaut embættið en helst varðandi hæfileika til nýsköpunar. Kærandi hafi nefnt dæmi um námsáfanga sem hún hefði þróað en sá sem hlaut embættið nefnt víðtækari dæmi um breytingar á námsfyrirkomu­lagi innan skólans. Hafi kærandi fengið 3,2 stig að meðaltali fyrir þennan þátt af 5 stigum en sá sem hlaut embættið 3,5 stig. Kærði bendir á að við tölulegt mat á umsókn­argögnum hafi framtíðarsýn umsækjenda vegið 16,67% en við heildstætt mat á þeim sjónarmiðum sem lögð voru til grundvallar við skipun í embættið hafi það haft enn lægra vægi, enda horft til umsóknargagna, frammistöðu í starfs­viðtölum og umsagnar skólanefndar. Sé því ljóst að framtíðarsýn umsækjenda hafi haft mjög lítið hlutfallslegt vægi við heildstætt mat á hæfni umsækjenda til að gegna embætti skólameistara og hafnar kærði því alfarið að hún hafi haft of mikið vægi.
  30. Kærði tekur fram að hæfnisþátturinn „skipulagshæfni og forgangsröðun“ hafi ekki komið fram í auglýsingu en kærði hafi talið mikilvægt að spyrja út í hæfni umsækjenda á sviðinu, enda mikilvægt að stjórnendur hafi yfirsýn yfir verkefni og geti forgangsraðað þegar álag sé mikið. Hæfnin sé nátengd lögbundnum hæfnisskilyrðum og málefnalegt að líta til þessara þátta við ráðningu stjórnanda. Hafi kærandi fengið 3,2 stig hjá fyrri valnefnd í viðtalinu fyrir þennan hæfnisþátt en sá sem hlaut starfið 4,1 stig af 5. Hafi fyrri valnefnd talið, út frá frammistöðu umsækjenda í starfsviðtali, að sú aðferðafræði að halda yfirsýn yfir verkefni í dagatali eða dagbók, líkt og sá sem var skipaður gerði, væri bæði líklegri til árangurs og nútímalegri en að safna verkefnum í bunka, líkt og kærandi gerði. Þá hafi komið skýrt fram hjá þeim sem var skipaður hver forgangsröðun verkefna væri að hans mati og þær áherslur hans að setja velferð nemenda í forgang féllu best að sýn kærða hvað varðar forgangsröðun skólameistara.
  31. Kærði hafnar því alfarið að endanleg ákvörðun um hjá hvaða umsagnaraðilum skyldi leitað meðmæla hafi ekki verið í höndum ráðherra í málinu. Bendir kærði á að sá sem hlaut embættið hafi ekki nefnt formann skólanefndar sem meðmælanda heldur þáverandi skólameistara skólans. Að frumkvæði mannauðsstjóra kærða hefði verið fengin umsögn um þann sem hlaut embættið frá formanni skóla­nefndar til að fá fyllri mynd af hæfni hans til viðbótar við meðmæli þess meðmælanda sem viðkomandi benti sjálfur á. Ákvörðunin hafi verið tekin í ljósi lögbundins hlutverks skólanefndar í ferlinu og vegna þess að skólanefnd þekkti til starfa þess er hlaut embættið og hafði starfað með honum. Kærði tekur fram að skólanefndin hafi mælt með öðrum umsækjanda en þeim sem embættið hlaut út frá umsóknargögnum. Taldi mann­auðsstjóri því mikilvægt að kanna afstöðu formanns skólanefndar til umsækjandans og skráði þær upplýsingar niður. Kærði segir að slík framkvæmd verði að teljast bæði mál­efnaleg og eðlileg í alla staði. Kærði harmar að við ritun minnisblaðs til ráðherra virðist aðeins hafa komið fram mat á starfstengdri og persónulegri hæfni en ekki heildstætt mat á umsækjendum úr báðum viðtölum. Ráðherra hafi engu að síður haft réttar upplýsingar þegar kom að ákvörðun um mat á hæfni umsækjenda þar sem ráðherra hafði fengið Excel-skjal þar sem frammistaða hvers og eins í báðum viðtölum kom fram ásamt samantekt.
  32. Kærði bendir á að það sé ráðherra sem beri ábyrgð á ráðningarferlinu og verði álit hæfnisnefndar hluti af mati ráðherra en ráðherra hafi haft aðgang að öllum gögnum málsins. Ráðherra hafi tekið endanlega ákvörðun um hvaða umsækjandi væri hæfastur til að gegna embættinu. Hafni kærði því að ómálefnalegar ástæður, þ.m.t. kyn umsækj­enda, hafi legið til grundvallar ákvörðun ráðherra við skipun í embætti skólameistara. Þá hafnar kærði því að skjal með yfirliti yfir stigagjöf valnefndarmanna hafi verið búið til eftir á og bendir í því samhengi á tölvupóst­samskipti sem liggi fyrir í málinu.
  33. Að lokum bendir kærði á að það sé ekki í verkahring kærunefndar að taka afstöðu til þess hvaða umsækjanda hefði átt að skipa í embættið heldur eingöngu að fjalla um hvort ákvörðun kærða hafi samræmst lögum nr. 150/2020. Kærði áréttar að við mat á þeim þáttum sem leggja bar til grundvallar við skipun í embætti skólameistara Verk­menntaskóla Austurlands hafi farið fram málefnalegt mat á hæfni, þekkingu og reynslu umsækjenda. Heildstætt mat kærða hafi byggt á öllum fyrirliggjandi gögnum um um­sækjendur, þ.m.t. umsóknargögnum, frammistöðu í starfsviðtölum, umsögn skóla­nefndar og meðmælum. Hafni kærði því að önnur sjónarmið en menntun, starfsreynsla, sérþekking eða aðrir sérstakir hæfileikar sem krafa var gerð um í viðkomandi embætti, samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verði að annars komi að gagni í starfinu, hafi haft áhrif við skipun í embætti skólameistara. Með öðrum orðum bendi ekkert til þess að kynferði hafi ráðið för við mat á hæfni umsækjenda, hvorki hjá valnefnd né ráðherra.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  34. Mál þetta beinist að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með skipun karls í embætti skólameistara Verkmennta­skóla Austurlands. Gerir kærandi jafnframt kröfu um kostnað við að hafa kæruna uppi.
  35. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórn­sýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kæru­nefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framan­sögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  36. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á skipun í embættið sem um ræðir í málinu hjá kærða.
  37. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  38. Í auglýsingu um embætti skólameistara kom fram að skólinn væri áfangaskóli sem byði upp á verk- og bóknám, bæði styttri brautir og brautir til starfsréttinda og stúdents­prófs. Tekið var fram að skólinn væri eini framhaldsskólinn á austanverðu landinu sem gæfi nemendum kost á að leggja stund á nám á fjölbreyttum iðn- og starfsnáms­brautum auk bóknámsbrauta. Jafnframt kom fram að skólameistari veitti skólanum forstöðu, stjórnaði daglegum rekstri og starfi skólans og gætti þess að skólastarfið væri í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann bæri ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar og að henni væri fylgt, auk þess að hafa frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans.
  39. Í auglýsingunni var gerð krafa um starfsheitið kennari ásamt viðbótar­menntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi, þekkingu á fjár­málum, rekstri og áætlanagerð auk þekkingar og reynslu af stjórnsýslu. Þá var gerð krafa um umfangsmikla stjórnunarreynslu og leiðtogahæfni, góða samskiptahæfni og færni til að skapa liðsheild á vinnustað, reynslu af verkefnastjórnun og stefnumótunarvinnu, skýra framtíðarsýn og hæfileika til nýsköpunar.
  40. Í samræmi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, var aflað umsagnar skólanefndar um umsækjendur um embætti skólameistara. Þá var ákveðið í samræmi við heimild 39. gr. b laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að fela sérstakri ráðgefandi hæfnisnefnd þriggja manna að meta hæfni umsækjenda um embættið. Var nefndin skipuð þremur starfsmönnum ráðuneytisins. Í málinu liggur fyrir að hæfnisnefndin hafi metið umsóknargögnin á grundvelli sjö þátta, þ.e. 1) starfsheitið kennari ásamt viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á fram­haldsskólastigi, 2) þekking á fjármálum, rekstri og áætlanagerð, 3) þekking og reynsla af stjórnsýslu, 4) umfangsmikil stjórnunarreynsla, 5) reynsla af verkefna­stjórnun og stefnumótunarvinnu, 6) umfangsmikil þekking á framhaldsskólakerfinu og 7) skýr framtíðarsýn.
  41. Þá skilgreindi hæfnisnefndin tiltekna hæfnisþætti, út frá auglýsingu um embætti skólameistara og hinum lögbundnu hæfnisskilyrðum, sem æskilegt væri að skóla­meistari byggi yfir og útbjó viðtalsspurningar fyrir starfsviðtal. Þeir fjórir þættir sem lágu mati hæfnisnefndar til grundvallar voru í fyrsta lagi menntun við hæfi, sbr. skilgreiningu í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 95/2019, um menntun, hæfni og ráðningu kenn­ara og skólastjórnenda, í öðru lagi fyrri starfsreynsla og þekking á starfstengdum þátt­um, í þriðja lagi persónuleg færni og í fjórða lagi þekking og reynsla af opinberri stjórn­sýslu. Allir þrír umsækjendurnir voru taldir hafa menntun við hæfi og þar með uppfylla lágmarksviðmið til að vera ráðinn skólastjórnandi við framhaldsskóla, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 95/2019. Fengu umsækjendurnir því allir á þeim grundvelli boð um að koma í viðtal. Í viðtölum var notaður staðlaður viðtalsrammi og voru sömu spurningarnar lagðar fyrir alla umsækjendurna. Að mati hæfnisnefndar stóðu tveir umsækjenda, þ.e. báðir karlarnir, framar kæranda, að loknu heildstæðu mati á þeim sjónarmiðum sem voru lögð til grundvallar og umsagnar skólanefndar Verkmenntaskóla Austurlands, og mælt með að þeir yrðu boðaðir til síðara viðtals. Var það þannig niðurstaða nefndar­innar að kærandi væri ekki jafnhæf körlunum og lagt til að ráðningarferlinu varðandi hana myndi ljúka.
  42. Í framhaldinu var ákveðið að skipa aðra hæfnisnefnd til að halda áfram ráðningar­ferlinu. Var sú nefnd eins og sú fyrri skipuð starfsmönnum ráðuneytisins. Þessi seinni hæfnisnefnd ákvað eftir yfirferð á greinargerð fyrri hæfnisnefndar að boða alla þrjá umsækjendur í síðari viðtöl. Í þeim viðtölum var eins og í fyrri viðtölum notaður staðl­aður viðtalsrammi og sömu spurningarnar lagðar fyrir alla þrjá umsækjendur. Eftir það viðtal og að loknu heildstæðu mati á þeim sjónarmiðum sem leggja bæri til grundvallar við skipun í embættið stóð að mati síðari hæfnisnefndar einn umsækjandi framar hinum tveimur. Var það því niðurstaða nefndarinnar að mæla með að sá umsækjandi yrði skipaður í embættið. Í framhaldinu var það niðurstaða ráðherra, að loknu heildstæðu mati á sömu sjónarmiðum, að skipa þann umsækjanda í embættið. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um hæfniskröfur í lögum að öðru leyti en samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 95/2019 sé það kærða að ákveða þær í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegt að uppfylla til starfrækslu þeirra verk­efna sem um ræðir með hagsmuni skólans að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þessar hæfniskröfur hafi verið málefnalegar.
  43. Hefur kærði lýst því að það sem hafi ráðið úrslitum við mat á hæfni umsækjenda hafi verið heildstætt mat á öllum matsþáttum. Byggði kærði mat sitt einkum á upplýsingum í umsóknum, þ.m.t. fylgigögnum, og frammistöðu í fyrra og seinna viðtali auk umsagnar skólanefndar skólans. Af matsblöðum sem liggja fyrir í málinu má ráða að sá sem var skipaður í embættið hafi að meðaltali fengið örlítið fleiri stig fyrir starfstengda þætti og persónulega færni en kærandi þó að hún hafi fengið fleiri eða jafnmörg stig í einstökum matsþáttum sem lágu til grundvallar mati á umsækjendum, þ.m.t. fyrir opinbera stjórnsýslu og fyrir einn lið í starfstengdum þætti. Verður því ekki annað ráðið en að lagt hafi verið mat á efnislegt inntak þessara þátta. Að mati kærunefndar verður heldur ekki annað séð af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu en að niðurstaða um hvað félli undir þessa matsþætti hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og að mat á þeim hafi verið forsvaranlegt. Í því sambandi er þó rétt að benda á að jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á stigagjöfinni er það einungis hluti af margþættu og heildstæðu mati ráðningaraðila á umsækjendum.
  44. Fyrir liggur að samræmdar spurningar voru lagðar fyrir umsækjendur í viðtölum og fengu upplýsingar sem komu fram í þeim vægi í mati kærða. Hvorki verða gerðar athugasemdir við það að upplýsingar í viðtölum hafi verið hluti af heildarmati á umsækjendum né talið ómálefnalegt að byggja á þeim upplýsingum sem þar komu fram.
  45. Nánar tiltekið byggði heildarmat á umsækjendum einkum á starfstengdum þáttum og persónulegri færni til að gegna embætti skólameistara Verkmenntaskóla Austurlands. Taldi kærði að iðnmenntun þess sem var skipaður væri styrkur fyrir Verkmennta­skólann og að hann væri best til þess fallinn að leiða skólann í áframhaldandi vexti á því sviði. Með vísan til þessa og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. gagna sem lýsa því sem fram kom í viðtölum, verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækj­anda sem var skipaður í embættið hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði lagði áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt. Ágreiningur um það hvað fór á milli aðila í viðtölum hefur ekki áhrif á þessa niðurstöðu. Þá verður ekki betur séð en að upplýsingar úr viðtölum við umsækjendur sem byggt var á í niður­stöðum valnefnda hafi verið skráðar með fullnægjandi hætti, sbr. 1. mgr. 27. gr. upp­lýsingalaga nr. 140/2012.
  46. Að framangreindu virtu verður að mati kærunefndar að telja að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt, forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við ráðningu í embætti skólameistara hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 150/2020. Telur kærunefnd því að mat kærða á umsækjendum, eins og það birtist í gögnum máls­ins, leiði ekki líkur að því að við ráðninguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
  47. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við skipun í embætti skólameistara. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020. Í samræmi við það verður ekki fallist á kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, mennta- og barnamálaráðherra, braut ekki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við skipun í embætti skólameistara Verkmenntaskóla Austurlands.

Hafnað er kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Ari Karlsson

 

Anna Mjöll Karlsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta