Vega- og umferðareftirlit fært frá Samgöngustofu til lögreglu
Með flutningi þessara verkefna er ætlunin að tryggja réttaröryggi, auka umferðaröryggi, sýnileika lögreglu og skilvirkni. Uppfylla á skyldur til eftirlits á vegum samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins sem hafa verið innleiddar í íslenskan rétt. Eftirlitið fer fram á grunni 68. gr. umferðarlaga og reglugerða sem settar eru samkvæmt lögunum. Undanfarin ár hafa vegaeftirlitsmenn hjá Samgöngustofu sinnt þessum verkefnum en ákveðið var að flytja þau til lögreglu. Er talið að það gefi tækifæri til betri nýtingar á starfskrafti lögreglumanna.
Í samræmi við samninginn, sem gildir út næsta ár, færast á þessu ári 117 milljónir króna frá Samgöngustofu til embætta lögreglustjóranna þriggja vegna þessa verkefnaflutnings. Lögreglustjórinn á Vesturlandi og lögreglustjórinn á Suðurlandi fá tvær nýjar stöður hvort embætti og lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra fær þrjár stöður. Tilgreint er í samningnum hversu oft lögregla skal hafa afskipti af ökutækjum og ökumönnum vegna einstakra liða eftirlitsins. Þá skal lögreglan halda skrá um eftirlitið og hefur embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra verið falin ábyrgð á skýrsluskilum.
Undir samninginn skrifuðu þau Halla Bergþóra Björnsdóttir, Ragnhildur Hjaltadóttir, Úlfar Lúðvíksson og Kjartan Þorkelsson.