Hoppa yfir valmynd
3. september 2021

Umfangsmiklar aðgerðir í loftslagsmálum

Að þessu sinni er fjallað um:

  • tillögur sem útfæra þá fyrirætlan að ná 55% samdrætti í losun fyrir 2030
  • boðaða nýja stofnun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
  • vinnu við tillögur um lágmarkslaun

Löggjafarpakki markar leið fram til 2030

Þann 14. júlí 2021 kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þverlægar tillögur að lagabreytingum, pakka sem nefndur hefur verið „Fit for 55“, en honum er ætlað er að styðja við markmið sambandsins um 55% nettó samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, miðað við árið 1990. Jafnframt leggur pakkinn grunn að markmiði Evrópusambandsins um kolefnishlutleysi árið 2050. Tillögurnar koma í kjölfarið á nýjum lögum um loftslagsmál sem samþykkt voru í vor. Í pakkanum er að finna tillögur að breytingum á átta núgildandi lögum sambandsins en einnig tillögur að fimm nýjum lagabálkum.  Tillögurnar ná yfir mörg málefnasvið eins og loftslags- og orkumál, samgöngur, byggingar, landnýtingu og skógrækt.  Með tillögunum fylgdi mat á áhrifum tillagnanna þar sem horft var til innbyrðis tengsla allra tillagnanna. Niðurstaða matsins var að heppilegast væri að að fara blandaða leið til að ná settu markmiði í samdrætti í losun, þ.e. blanda saman aðgerðum er snúa að verði, setningu markmiða og staðla og veitingu stuðnings (e. pricing, targets, standards and support measures). 

Orkumál

Ljóst er að þörf er á 90% samdrætti í losun frá samgöngum innan ESB fyrir árið 2050 til að ná kolefnishlutleysi. Staðlar er varða losun á CO2 frá bifreiðum verða endurskoðaðir sem og reglur um uppbyggingu innviða fyrir endurnýjanlega orkugjafa er mun fjölga hleðslustöðvum innan Evrópu. Einnig verði áfram unnið að sjálfbærni rafhlöðumarkaðarins í því sambandi.

Til að takast á við losun frá sjóflutningum og frá flugi verður notkun á meira mengandi eldsneyti í þeim geira gerð kostnaðarsamari fyrir eldsneytisbirgja. Í flugi er gert ráð fyrir að notað verði svokallað e-fuels en einnig verði umhverfisvænna eldsneyti blandað saman við hefðbundið eldsneyti á flugvöllum innan ESB svæðisins (e. ReFuelEU: More sustainable aviation fuels). Settar verða nýjar kröfur um hámarkslosun á þau skip sem fara um hafnir ríkja innan ESB. Boðið verður upp á umhverfisvænna eldsneyti í þessu skyni (e. FuelEU: Cleaner maritime fuels). Endurskoðun á tilskipun um orkuskatt mun svo gera notkun slíks eldsneytis eftirsóknarverðari (e. Energy taxation Directive) en þar er til dæmis stefnt að því að útrýma undanþágum sem verið hafa fyrir flug og samgöngur á sjó og ýta undir notkun á hreinu eldsneyti.

Í tillögunum er gert ráð fyrir að sett verði á fót nýtt landamæraaðlögunarkerfi fyrir kolefni (e. New Carbon Border Adjustment Mechanism) sem á að taka á kolefnisleka yfir landamæri frá þeim ríkjum sem hafa ekki sama metnað í loftslagsmálum og Evrópusambandið. Auka álögur verða því lagðar á innflutning ákveðinna vara eins og sements, áburðar, járns og stáls, áls og rafmagns.   Athuga ber að kerfið mun ekki ná til vöru sem er upprunnin hjá EFTA ríkjunum þar sem þau ríki eru aðilar að ETS kerfinu. Gert er ráð fyrir umbreytingarferli sem mun ná yfir árin 2023 til 2025.

Orkunotkun er ábyrg fyrir 75% af allri losun gróðurhúsalofttegunda innan ESB, orkusparnaður og notkun endurnýjanlegra orkugjafa er því lykillinn að störfum, vexti og samdrætti í losun. Til að ná 2030 markmiðinu þá er með endurskoðun á tilskipun um endurnýjanlega orku (e. Renewable Energy Directive) gert ráð fyrir að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa verði aukið í 40% úr 32%. Það mun ýta undir notkun annarra orkugjafa eins og vetnis. Upplýsingar um hlutfall hvers ríkis til að ná sameiginlegu markmiði verða settar fram. Samdráttur í orkunotkun mun draga úr losun og orkukostnaði fyrir neytendur og iðnaðinn. Endurskoðun tilskipunar um orkunýtni (e. Energy Efficiency Directive) mun endurspegla aukinn metnaði í markmiðum um orkunýtni og að þau verði gerð bindandi. Þetta er talið munu leiða til 9% samdráttar í orkuneyslu fyrir árið 2030.

ETS-kerfið

Hornsteinn „Fit for 55“ pakkans er ETS-kerfið en með tillögunum verður það kerfi styrkt og útvíkkað enn frekar til annarra geira. Reynsla af ETS-kerfinu er talin sýna að viðskipti með losunarheimildir er árangursrík leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með hagkvæmum hætti og getur hagnaður af kerfinu nýst til að styðja við umbreytingu í græna framleiðslu og til að örva nýsköpun.

Með tillögum framkvæmdastjórnarinnar er gert ráð fyrir að þeir geirar sem endurskoðun ETS regluverksins nær til muni þurfa að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 61% samanborið við árið 2005. Til að ná þessu markmiði þarf að draga úr árlegum losunarheimildum.

Framkvæmdastjórninn leggur til að ETS-kerfið verði smám saman útvíkkað til sjóflutninga á árunum 2023-2025 og gera tillögur að lagabreytingum ráð fyrir slíku. Einnig verður þrengt að losunarheimildum í fluggeiranum og mun í áföngum verða dregið úr veitingu losunarheimilda sem hafa verið ókeypis.

Gert er ráð fyrir upptöku sérstaks ETS-kerfis fyrir vegasamgöngur og byggingar. ETS-kerfi fyrir vegasamgöngur ásamt samhliða uppbyggingu innviða fyrir aðra orkugjafa (e. New infrastructure for alternative fuels) er ætlað að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum. Á sama hátt mun viðskiptakerfi sem nær til bygginga hraða orkuskiptum í upphitun og kælingu húsnæðis. Gert er ráð fyrir að farið verði samhliða í aðgerðir til að auka orkunýtni bygginga. Endurskoðun á tilskipun um orkunýtni í byggingum, sem áætlað er að fara í síðar á þessu ári, mun leggja til ákveðin viðmið til að hraða endunýjun húsnæðis sem ýtir undir betri orkunýtni og markmið um endunýjun og samdrátt í losun frá byggingariðnaðinum. 

Framkvæmdastjórnin leggur til að ETS kerfi fyrir samgöngur og byggingar verði sett upp frá og með árinu 2026. Gert er ráð fyrir að ábyrgðin verði sett á herðar framleiðenda og birgja eldsneytis í stað þess að hún leggist á einstaka heimili og notendur vegsamgangna og að smá saman verði dregið úr losunarheimildum sem muni leiða til samdráttar í heildarlosun.

Sameiginleg ábyrgð og LULUCF

Í pakkanum er að finna tillögur að breytingu á reglugerð um sameiginlega ábyrgð (e. Effort sharing). Tillagan mun færa aðildarríkjum ESB vald til að grípa til aðgerða á landsvísu sem varða samdrátt í losun frá byggingum, samgöngum, landbúnaði, úrgangi og frá smáiðju. Tillagan er talin geta leitt til samdráttar í losun um 40% innan ESB svæðisins í framangreindum geirum miðað við árið 2005. Hlutfall hvers ríkis mun áfram byggja á vergri landsframleiðslu miðað við höfðatölu þar sem einnig verður tekið tillit til aðstæðna í hverju ríki auk kostnaðarhagkvæmni.

Framkvæmdastjórnin telur að auka þurfi umfang kolefnisviðtaka eins og skóga, jarðvegs, votlendis og mýrlendis, hafs og vatnshlota. Setja þurfi land og náttúru í fyrsta sæti þegar kemur að landbúnaði og auka jarðvegsgæði til að tryggja fæðuöryggi. Í samræmi við þetta er í pakkanum lögð til breyting á LULUCF reglugerðinni. Framkvæmdastjórnin leggur til, sem hluta af þeim breytingum, aukinn metnað til stækkunar á náttúrulegri kolefnisbindingu. Í tillögunum er lagt til að markmiðið verði 310 milljónir tonna af CO2 árið 2030. Sett verða bindandi markmið fyrir hvert aðildarríki. Aðildarríkin munu hafa ákveðinn sveigjanleika varðandi að skipta upp framtaki sínu í kolefnisbindingu milli aðgerða sem farið er í á grundvelli reglugerðar um sameiginlega ábyrgð og LULUCF.

Ný skógræktaráætlun ESB var kynnt samhliða „Fit for 55“ pakkanum en síðar á árinu er von á nýrri jarðvegsáætlun, löggjafartillögum er varða endurreisn náttúru og tillögu að kolefnis landbúnaði.

Annað

Auk framangreinds er gert ráð fyrir aðgerðum er efla nýsköpun, samstöðu og að dregið verði úr áhrifum aðgerða á viðkvæma hópa í gegnum sjóði eins og nýjan „Social Climate Fund“ og uppfærða „Modernisation and Innovation Funds“.

Framkvæmdastjórnin leggur áherslu á að til að græn umbylting geti átt sér stað þurfi að efla menntun og þjálfun starfsfólks þannig að vinnumarkaður á ESB svæðinu hafi hæft starfsfólk og sé samkeppnishæfur. Grænar áherslur er því að finna í áætlunum eins og Erasmus+.

Fjárhagsáætlun ESB ásamt Bjargráðasjóði ESB eru sérstaklega sniðin að því að styðja við græna umbreytingu. 30% af samstarfsáætlunum ESB eru helgaðar stuðningi við loftslagsaðgerðir t.d. í gegnum samræmdar stefnur, landbúnað og LIFE áætlunina. 35% af Horizon sjóðnum er ætlaður í grænar fjárfestingar. Auk þess ber aðildarríkjum að nýta 37% af framlögum sínum úr Bjargráðasjóðnum í græna umbreytingu.

Tillögur „Fit for 55“ hafa verið sendar Evrópuþinginu og Ráðinu til frekari meðferðar og samþykktar í samræmi við hefðbundið ferli slíkra tillagna innan ESB. Búist er við að ferlið framundan muni geta tekið allt upp undir tvö ár.

Tillögur um peningaþvætti

Framkvæmdastjórn ESB birti 20. júlí tillögur sem miða að því að styrkja regluverk um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þungamiðjan er þar að komið verði á fót nýrri stofnun á þessu sviði. Sú stofnun á að hafa beint eftirlit með fjármálastofnunum sem taldar eru fela í sér mesta áhættu og starfa í mörgum aðildarríkjum eða þar sem hætta er yfirvofandi. Þá mun hún starfa með eftirlitsstjórnvöldum í aðildarríkjunum og samræma aðgerðir þeirra eftir þörfum.   Tillögurnar taka mið af tæknibreytingum sem orðið hafa í fjármálageiranum og fjalla þannig m.a. um rafmyntir og samtengingu skráa um bankareikninga.

Lágmarkslaun - sérstaða á Norðurlöndum

Ráðherraráðið og Evrópuþingið eiga nú í samningaviðræðum um tilskipun um lágmarkslaun og tilskipun um launagagnsæi. Norðurlöndin hafa haft áhyggjur af hvoru tveggja vegna þess að tillögurnar kunni að grafa undan skipan vinnumarkaðar þar sem meginreglur endurspeglast í samningum frekar en löggjöf. Slóvenska formennskan lagði fram málamiðlun um lágmarkslaunin 7. júlí. Gert er ráð fyrir að vinnu- og félagsmálanefnd Evrópuþingsins fjalli um málið síðar í þessum mánuði. Dagblaðið Le Monde greindi frá því á dögunum að Elisabeth Borne vinnumálaráðherra Frakklands hefði heimsótt Danmörku og Svíþjóð seinni hluta ágúst til þess fyrst og fremst að skilja betur andstöðu í þessum löndum við lágmarkslaunin. Heimsóknin var liður í undirbúningi Frakka fyrir að taka við formennsku í Evrópusambandinu á næsta ári en þeir leggja mikla áherslu á að tillögurnar um þetta efni hljóti afgreiðslu í vetur.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta