Ráðherrafundur gegn fíkniefnum
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, flutti í dag, ræðu á ráðherrafundi Pompidou hópsins í Strasborg. Ráðherra ræddi um nýskipan lögreglumála á Íslandi og hertar aðgerðir lögreglu gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi og fíkniefnum, sem enn myndu eflast með nýskipan lögreglumála 1. janúar 2007 og stofnun greiningardeildar hjá ríkislögreglustjóra. Auk þess greindi ráðherra frá forvarnaráætlun, sem félagsmálaráðuneytið ynni að á vegum ríkisstjórnarinnar. Hvatti hann til alþjóðlegrar samvinnu á þessu sviði og taldi Pompidou hópinn góðan vettvang í þessu starfi.
Pompidou hópurinn, sem starfar undir handarjaðri Evrópuráðsins, var stofnaður 1971 til að samræma stefnu og starf þátttökuríkjanna í baráttunni gegn fíkniefnum. Hollendingar hafa stýrt hópnum undanfarin þrjú ár en á ráðherrafundinum voru Pólverjar kjörnir til forystu næstu ár.
Anna Sigríður Arnardóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðneytinu, situr í hópi fastafulltrúa í Pompidou hópnum fyrir Íslands hönd.
Unnt er að fá upplýsingar um Pompidou hópinn og ráðherrafundinn á vefsíðunni: www.coe.int/pompidou.
Reykjavík 28. nóvember 2006