Samstarfsáætlun dómsmálaráðuneyta Litháens og Íslands
Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra ritaði í gær, föstudaginn 29. ágúst, í Vilníus undir samstarfsáætlun með Petras Baguska, dómsmálaráðherra Litháens. Samkvæmt áætluninni munu dómsmálaráðuneyti landanna efla samstarf sitt, þar á meðal á sviði fangelsismála.
Fyrr á árinu komust ráðherrarnir að samkomulagi um að fangar frá Litháen í íslenskum fangelsum skyldu taka út refsingu í heimalandi sínu, enda væru þeir dæmdir til nokkurra ára refsivistar. Á fundi ráðherranna í gær var staðfest, að þrír fyrstu fangarnir væru á förum til Litháens, enda hefði verið gengið frá öllum nauðsynlegum formsatriðum.
Að loknum fundi ráðherranna heimsótti Björn Bjarnason fangelsi fyrir síbrotamenn í Vilníus og kynnti sér aðstæður þar.