Hoppa yfir valmynd
22. október 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 504/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. október 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 504/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19070058

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 23. júlí 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. júlí 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 16. maí 2019. Þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun hjá litháískum stjórnvöldum var þann 22. maí 2019 send beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd til yfirvalda í Litháen, sbr. 2. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá litháískum yfirvöldum, dags. 3. júní 2019, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 5. júlí 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 9. júlí 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 23. júlí 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 30. júlí 2019 ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn frá kæranda þann 9. september 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að litháísk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Litháen ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Litháen.  

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtölum hjá Útlendingastofnun greint frá því að hann hafi glímt við […]. […]. Kærandi finni til líkamlega, eigi erfitt með svefn og fái kvíðaköst. Þá hafi kærandi greint frá því að hann þekki ekki til hæliskerfisins í Litháen og hafi einungis komið þangað til lands einu sinni fyrir tíu árum. Kærandi óttist að sumarhitinn þar í landi geti haft slæm áhrif á heilsufar hans, […]. Þá hafi kærandi greint frá því að gott sé fyrir hann að vera hér á landi […].

Í greinargerð kæranda koma fram athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Í fyrsta lagi gerir kærandi athugasemd við þá staðhæfingu Útlendingastofnunar að kærandi eigi rétt á heilbrigðisþjónustu í Litháen án þess að fjallað hafi verið nánar um þá þjónustu. Telur kærandi að endursending til ríkis þar sem heilbrigðiskerfið sé jafnt langt á eftir því íslenska og raun ber vitni sé varhugaverð. Kveður kærandi að ýmsir vankantar séu á heilbrigðiskerfinu í Litháen, þ. á m. hvað varðar útgjöld til heilbrigðismála, aðgengi að þjónustunni og spillingu í heilbrigðiskerfinu og vísar til ýmissa skýrslna og gagna til stuðnings þeirri fullyrðingu. Telji kærandi að flutningur hans til Litháen muni hafa verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á heilsu hans. Kærandi gerir í öðru lagi athugasemd við beitingu Útlendingastofnunar á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 eins og henni hafi verið breytt með reglugerð nr. 276/2018, auk þess að gera athugasemd við lagastoð reglugerðarinnar. Kærandi kveður að viðmiðin í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga séu sett fram í dæmaskyni og að ekki sé um tæmandi talningu að ræða á þeim þáttum sem taka beri tillit til við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Telur kærandi að rökstuðningi Útlendingastofnunar hafi verið áfátt hvað mat á einstaklingsbundinni stöðu hans varðar og óljóst hvort heildarmat á aðstæðum hans hafi farið fram.

Krafa kæranda um að mál hans skuli tekið til efnismeðferðar hér á landi er byggð á því að fyrir hendi séu sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í þeim efnum fjallar kærandi almennt um og gerir grein fyrir inntaki og túlkun á ákvæðinu, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum. Þá vísar kærandi til nánar tiltekinna úrskurða kærunefndar útlendingamála varðandi mat á því hvenær einstaklingur teljist eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki. Kærandi telji, með vísan til frásagnar hans og heilsufars, að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá kveður kærandi að hann óttist litháísku mafíuna vegna tengsla sinna við pólitísk samtök í heimaríki og vísar til gagna sem hann telji að gefi til kynna aukin umsvif glæpahópa í Litháen. Með vísan til erfiðrar reynslu kæranda, aðstæðna hans áður fyrr, góðrar líðanar hér á landi og óvissu um stöðu hans í Litháen séu fyrir hendi sérstakar ástæður í málinu, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Litháen á umsókn kæranda er byggð á 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið útgefna vegabréfsáritun af þarlendum stjórnvöldum. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja litháísk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi karlmaður á fertugsaldri. Í gögnum um heilsufar kæranda kemur m.a. fram að hann hafi verið greindur með […]. Þá kemur fram að kærandi glími við […] og eigi m.a. í erfiðleikum með svefn. Hann hafi leitað aðstoðar á […]. […].

Það er mat kærunefndar að frásögn kæranda og framangreind heilsufarsgögn beri ekki með sér að kærandi hafi sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins.

Aðstæður í Litháen

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Litháen, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Lithuania 2018 Human Rights Report (U.S. Department of State, 13. mars 2019),
  • Amnesty International Report 2017/18 – Lithuania (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Progress Report 2018: A Global Strategy to Support Governments to End the Detention of Asylum-Seekers & Refugees, 2014 – 2019 (UNHCR, febrúar 2019),
  • Freedom in the World 2019 – Lithuania (Freedom House, 2019),
  • Report by Nils Muižnieks, Commissioner for Human Rights of the Council of Europe following his visit to Lithuania from 5 to 9 December 2016 (Commissioner for Human Rights, 19. apríl 2017),
  • Country Factsheet: Lithuania 2017 (European Migration Network, 2017),
  • National report submitted in accordance with paragraph 5 of the annex to Human Rights Council resolution 16/21 – Lithuania (United Nations General Assembly. Human Rights Council, Working Group on the Universal Periodic Review, 17. ágúst 2016),
  • Health Systems in Transition. Lithuania: Health System Review 2013 (European Observatory on Health Systems and Policies, a partnership hosted by the World Health Organisation (WHO), 2013),
  • […],
  • Upplýsingar af vefsíðu útlendingastofnunar Litháen, www.migracija.lt og
  • Upplýsingar af vefsíðu innanríkisráðuneytis Litháen, www.vrm.lrv.lt.

Í framangreindum gögnum kemur fram að m.a. sé hægt að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd í Litháen hjá landamæravörðum við komuna til landsins. Ákvörðun í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd er tekin af litháísku útlendingastofnuninni (l. Migracijos departamentas). Þegar umsókn umsækjanda um alþjóðlega vernd er tekin til meðferðar hjá útlendingastofnuninni skal hún almennt afgreidd á þremur mánuðum en stofnuninni er þó heimilt að framlengja málsmeðferðartímann um þrjá mánuði til viðbótar. Komi til synjunar á umsækjandi um alþjóðlega vernd þess kost að bera hana undir svæðisdómstólinn í Vilnius innan tveggja vikna. Ef svæðisdómstóllinn staðfestir ákvörðun útlendingastofnunarinnar getur umsækjandi áfrýjað málinu til stjórnsýsludómstóls sem tekur endanlega ákvörðun á dómstigi. Litháen er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir 2013/32/ESB og 2013/33/ESB vegna málsmeðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Litháen er jafnframt aðildarríki Evrópuráðsins og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans. Samkvæmt ofangreindum gögnum eru viðmiðanir um veitingu alþjóðlegrar verndar lögfestar í litháískum rétti og fram fer kerfisbundið mat á því hvort umsækjandi sé í viðkvæmri stöðu. Sé það mat útlendingastofnunarinnar að umsækjandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu getur stofnunin vísað honum, vegna þjónustuþarfa, í viðeigandi móttökuúrræði. Samkvæmt lögum um réttarstöðu útlendinga sem gilda í Litháen eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á búsetu í skráningarmiðstöð fyrir útlendinga eða flóttamannamiðstöð og geta nýtt sér þá þjónustu sem þar er boðið upp á. Sú þjónusta felur m.a. í sér lögfræðiaðstoð, túlkaþjónustu, nauðsynlega heilbrigðis- og félagsþjónustu, mánaðarlega framfærslu og niðurgreiðslu á almenningssamgöngum. Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að útgjöld til heilbrigðismála í Litháen hafa aukist jafnt og þétt á síðastliðnum árum, þó að útgjöldin séu lægri en tíðkast víða í löndum Vestur-Evrópu. Heilbrigðiskerfið er að mestu leyti fjármagnað af heilbrigðistryggingasjóði (e. National Health Insurance Fund) og er þátttaka í sjóðnum skyldubundin. Lyfjakostnaður er þó ekki niðurgreiddur nema að takmörkuðu leyti en ákveðnir hópar fá endurgreiddan lyfjakostnað vegna ávísaðra lyfja frá lækni, þ. á m. börn, ellilífeyrisþegar, fatlaðir einstaklingar svo og einstaklingar með tiltekna sjúkdóma. Líkt og áður segir þá eiga flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á nauðsynlegri grunnheilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. […]. Í framangreindum gögnum kemur fram að löggæsluyfirvöld heyri undir innanríkisráðuneytið og að einstaklingar geti leitað til lögreglu óttist þeir að brotið sé á þeim. Þá veita litháísk lög m.a. vernd gegn mismunun á grundvelli þjóðernis auk þess sem lög kveða á um að þeir sem verða uppvísir að spillingu í stjórnkerfinu sæti refsingu. Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendingaÍ 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Litháen er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Litháen, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendingaÍ 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda og telur kærunefnd að þær séu ekki þess eðlis að þau viðmið sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga eigi við í málinu. Það er mat kærunefndar að heilsufar hans sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi eða að aðstæður hans að því leyti séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Litháen verður ráðið að umsækjendur eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi komi því til með að hafa aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu þar í landi, en hann muni e.t.v. þurfa að greiða að einhverju leyti fyrir slíka þjónustu sjálfur. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Auk þess verður ráðið af framangreindum gögnum að kærandi geti leitað ásjár litháískra lögregluyfirvalda óttist hann um öryggi sitt þar í landi. Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.Vegna tilvísunar í greinargerð kæranda til úrskurða kærunefndar í málum nr. 550/2017 og 552/2017 frá 10. október 2017 og nr. 581/2017, 583/2017 og 586/2017 frá 24. október 2017 tekur kærunefnd fram að ekki sé hægt að jafna stöðu kæranda í þessu máli við stöðu kærenda í framangreindum úrskurðum enda ekki um að ræða sömu viðtökuríki og aðstæður þeirra einnig ólíkar að öðru leyti. Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 12. júní 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 16. maí 2019. Athugasemdir kæranda við hina kærðu ákvörðunSvo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni nokkrar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. við mat stofnunarinnar á aðstæðum kæranda í Litháen, auk þess sem gerð er athugasemd við beitingu og lagastoð reglugerðar um útlendinga nr. 276/2018. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun að öðru leyti og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemd við hana. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. FrávísunKærandi kom hingað til lands þann 15. maí 2019 og sótti um alþjóðlega vernd þann 16. maí 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.Kærandi skal fluttur til Litháen innan tilskilins frests, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.SamantektÍ máli þessu hafa litháísk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Litháen með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.Kæranda er leiðbeint um að með úrskurði kærunefndar nr. 350/2019, dags. 28. ágúst 2019, ákvað nefndin að breyta framkvæmd varðandi afmörkun 12 mánaða tímabilsins sem vísað er til í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Eins og fram kemur í úrskurðinum eru lok tímabilsins þegar fyrir liggur endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi vegna þess stjórnsýslumáls sem hófst með framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd. Þessi breytta stjórnsýsluframkvæmd leiðir til þess að þótt ekki komi til flutnings kæranda úr landi innan 12 mánaða frá upphafi málsins hefur það ekki þýðingu fyrir þann frest sem 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekur til.ÚrskurðarorðÁkvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.Áslaug MagnúsdóttirÁrni Helgason Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta