Utanríkisráðuneytið styður baráttu Rauða krossins gegn mansali og stuðning við geðfatlaða
Utanríkisráðuneytið mun veita fé til baráttunnar gegn mansali í Hvíta-Rússlandi í tengslum við samstarfsyfirlýsingu við Rauða krossinn á Íslandi (RKÍ) sem undirrituð var í dag. Þá mun utanríkisráðuneytið einnig styrkja verkefni á vegum RKÍ í Hvíta-Rússlandi sem miðar að því að bæta aðstoð við geðfatlaða í landinu.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Anna Stefánsdóttir, formaður RKÍ, skrifuðu undir samstarfsyfirlýsingu ráðuneytisins og RKÍ sem tekur til áranna 2012-2015 en yfirlýsingin er í samræmi við heit sem stjórnvöld og RKÍ veittu sameiginlega á 31. Alþjóðaráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans í nóvember í fyrra.
Samstarfsyfirlýsingin skilgreinir verkefni sem stjórnvöld og RKÍ hyggjast vinna að sameiginlega næstu þrjú árin en m.a. er nú stefnt að gerð rammasamnings um stuðning stjórnvalda við alþjóðlegt hjálparstarf Rauða krossins, áframhaldandi samstarf sem miðar að útbreiðslu mannúðarlaga og gagnkvæmri upplýsingagjöf um mannúðarmál.
Þá er kveðið á um fjárstuðning utanríkisráðuneytisins við RKÍ í yfirlýsingunni en þar ræðir annars vegar um árlegt framlag til Alþjóðaráðs Rauða krossins sem í ár reiknast sem tæplega tíu milljónir ísl. króna; og hins vegar aðstoð á gleymdum svæðum sem eru utan við kastljós fjölmiðla og fáar aðrar hjálparstofnanir sinna. RKÍ hefur undanfarin ár með stuðningi utanríkisráðuneytisins verið í samstarfi við Rauða krossinn í Hvíta-Rússlandi um verkefni sem miðar að því að fræða ungmenni um hættur mansals og hvernig forðast megi að verða því að bráð. Þá er reynt að aðstoða fórnarlömb mansals, sem komist hafa aftur heim, að aðlagast samfélaginu á nýjan leik. Verkefnið hefur þótt gefa góða raun í Gómel-héraði í Hvíta-Rússlandi og verður nú fært út til héraðanna Minsk og Vitebsk. Þannig verða áhrifin margfölduð og næst til miklu fleiri.
Ennfremur verður nú ráðist í tilraunaverkefni sem miðar að aðstoð við geðfatlaða í Hvíta-Rússlandi en umræða og úrræði fyrir geðfatlaða eru á miklu frumstigi þar í landi. RKÍ hefur um árabil starfað með geðfötluðum á Íslandi, m.a. í Vin, athvarfi Rauða krossins í Reykjavík, og öðrum athvörfum og er vonast til að sú þekking og reynsla geti nýst vel í Hvíta-Rússlandi, svo að auka megi lífsgæði þarlendra sem eiga við geðsjúkdóma að stríða.