Bjargráðasjóður úthlutar 442 milljónum til bænda
Greiddar hafa verið 442 milljónir króna í styrki úr Bjargráðasjóði vegna mikils kal- og girðingatjóns veturinn 2019-2020. Mikið tjón varð á ræktarlandi og girðingum á tímabilinu og því hafði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, frumkvæði að því að sjóðnum yrðu tryggðar 500 milljónir til að koma til móts við bændur og það tjón sem þeir urðu fyrir.
Kaltjónið olli mikilli uppskerurýrnun sumarið 2020 og samhliða verulegur kostnaður við endurræktun og fóðurkaup. Girðingatjón varð einnig umtalsvert vegna snjóþyngsla. Með greiðslunni er komið til móts við kostnað bænda af þessum sökum og nema greiddir styrkir að meðaltali um helmingi tjónsins að mati stjórnar sjóðsins.
Kaltjón varð alls á 4.776 hekturum ræktarlands hjá þeim sem sóttu um til sjóðsins auk tjóns á 221,6 kílómetrum af girðingum. Alls bárust 212 umsóknir vegna kaltjóns. Stjórn sjóðsins ákvað að greiða styrki til 183 umsækjenda, alls að upphæð kr. 381,4 m. kr. Alls bárust 73 umsóknir vegna girðingatjóns. Stjórn sjóðsins ákvað að greiða styrki til 72 umsækjenda, alls að upphæð kr. 60,6 m.kr.
Um Bjargráðasjóð
Bjargráðasjóður starfar samkvæmt lögum nr. 49/2009 og er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Hlutverk hans er að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiriháttar beint tjón af völdum náttúruhamfara, meðal annars vegna tjóns á girðingum og vegna uppskerubrests af völdum óvenjulegra kulda, þurrka og kals. Fjárhagsaðstoð sjóðsins felst í veitingu styrkja sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni í samræmi við fjárhag og stöðu sjóðsins.