Rætt um fjármál og eflingu sveitarfélaga á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga
Formlegur samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn í samgönguráðuneytinu 29. september og sátu hann fulltrúar fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Farið var yfir stöðu og horfur í búskap ríkis og sveitarfélaga og fjallað um eflingu sveitarfélaga.
Til fundarins var boðað á grundvelli samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga en tilgangur hans er að efla formlegt samstarf ríkis og sveitarfélaga. Er það gert með reglulegum samskiptum aðila, stuðla að sameiginlegri sýn á þróun, stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins og stuðla að aðhaldi og ábyrgð í opinberum rekstri.
Kristján L. Möller samgönguráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fóru yfir stöðu mála í hvoru ráðuneytinu fyrir sig. Steingrímur gerði grein fyrir stöðu og horfum í þjóðarbúskapnum og fjárlagagerðina og í framhaldi af því fjallaði Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, um stöðu sveitarfélaganna.
Fram fóru síðan almennar umræður og jafnframt voru kynnt drög að svonefndum vegvísi að gerð hagstjórnarsamnings ríkis og sveitarfélaga. Tilgangur hans er að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, fjármálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga líti á fjármál opinberra aðila sem eina heild.
Á síðari hluta fundarins fjallaði samgönguráðherra fyrst um verkefni sem unnið er að og snerta eflingu sveitarstjórnarstigsins. Einnig greindi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga frá áherslum Sambandsins í þeim efnum og fjármálaráðherra gerði einnig grein fyrir sýn sinni.
Í framhaldi af fundinum undirrituðu Kristján L. Möller og Halldór Halldórsson síðan yfirlýsingu um næstu skref til eflingar sveitarstjórnarstiginu og greint hefur verið frá.
Samráðsfundir ríkis og sveitarfélaga eru haldnir á grundvelli samstarfssáttmála þessara aðila. |
Fundinn sátu:
Frá fjármálaráðuneyti:
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra
Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri
Indriði H. Þorláksson aðstoðarmaður
Sigurður Guðmundsson sérfræðingur.
Frá samgönguráðuneyti:
Kristján L. Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri
Ingvar Sverrisson aðstoðarmaður
Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri
Elín Pálsdóttir forstöðumaður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
Jóhannes Tómasson upplýsingafulltrúi
Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga:
Halldór Halldórsson formaður
Karl Björnsson framkvæmdastjóri
Dagur B. Eggertsson stjórnarmaður
Elín Líndal stjórnarmaður
Gunnar Einarsson stjórnarmaður
Þorleifur Gunnlaugsson stjórnarmaður
Karl Björnsson framkvæmdastjóri
Anna Guðrún Björnsdóttir sviðsstjóri
Guðjón Bragason sviðsstjóri
Gunnlaugur Júlíusson sviðsstjóri
Inga Rún Ólafsdóttir sviðsstjóri
Magnús Karel Hannesson sviðsstjóri