Starfshópur endurskoðar umgjörð um gjaldeyrismál
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað starfshóp til að endurskoða umgjörð um gjaldeyrismál hér á landi. Í þessu felst meðal annars að endurskoða lög um gjaldeyrismál, lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og reglur settar á grundvelli beggja laganna.
Á síðastliðnum árum hafa stjórnvöld náð þeim markmiðum að afnema fjármagnshöft, sem komið var á eftir efnahagshrunið 2008, með sem minnstum áhrifum á stöðugleika. Tímabært er að leggja mat á hvaða meginsjónarmið skuli hafa að leiðarljósi um gjaldeyrismál á Íslandi.
Verður starfshópnum m.a. falið að skoða hvort sérstaða íslenska hagkerfisins og íslenskra markaða kalli á úrræði í löggjöf sem sníða þarf stakk innan þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem Ísland er bundið af.
Starfshópurinn skal taka mið af íslenskum aðstæðum og alþjóðlegum skuldbindingun Íslands við verkefnið. Er þar átt við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem Ísland varð skuldbundið af árið 1994 og samþykktir Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um frelsi þjónustuviðskipta og fjármagnshreyfinga sem Ísland hefur verið aðili að frá árinu 1961. Ennfremur hafa stjórnvöld hér á landi tekið tillit til almennra og sértækra leiðbeininga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um flæði fjármagns.
Við vinnu starfshópsins ber einnig að horfa til og draga lærdóm af þeirri reynslu sem fengist hefur við framkvæmd laga um gjaldeyrismál á undanförnum árum. Starfshópnum er falið að skila ráðherra drögum að lagafrumvarpi til nýrra heildarlaga um gjaldeyrismál, og eftir atvikum nauðsynlegum breytingum á öðrum lögum, eigi síðar en í júní 2020.
Starfshópurinn er þannig skipaður:
- Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, formaður.
- Tinna Finnbogadóttir, hagfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti,
- Sigurður Páll Ólafsson, hagfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti,
- Rannveig Júníusdóttir, forstöðumaður, tilnefnd af Seðlabanka Íslands,
- Andri Egilsson, sérfræðingur, tilnefndur af Seðlabanka Íslands.