Hoppa yfir valmynd
18. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 60/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 60/2021

Þriðjudaginn 18. maí 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 2. febrúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. desember 2020, á umsókn hennar um foreldragreiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 23. nóvember 2020, sótti kærandi um foreldragreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins fyrir tímabilið 1. október 2020 til 31. mars 2021 vegna sonar síns sem fæddist árið 2017. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. desember 2020, á þeirri forsendu að vandi barnsins félli ekki undir þau sjúkdóms- og fötlunarstig sem tilgreind væru í 26. og 27. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 2. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 5. febrúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 6. mars 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. mars 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að sonur hennar hafi fæðst á 30. viku og hafði verið greindur með esophagus atresia í móðurkviði. Hann hafi farið í aðgerð X daga gamall til að tengja saman vélinda og magaop og dvalið á vökudeildinni í 11 vikur. Hann hafi alltaf átt í erfiðleikum með inntöku á mat, verið með sondu í nefi til X mánaða aldurs og eftir það hafi hann fengið magahnapp sem hann sé enn með í dag. Hann hafi þurft að fara í allnokkrar víkkanir á vélinda og þurft að glíma við bólgur í vélindanu, líklega út af fæðuofnæmi, sem verði til þess að hann borði enn minna en hann geri vanalega sem geti verið rosalega erfitt. Hann sé með ofnæmi fyrir jarðhnetum, heslihnetum, eplum og svínakjöti og þurfi að vera á mjólkurlausu fæði út af bólgunum í vélindanu. Drengurinn sé með mikið bakflæði og fái 30 mg af Nexium á dag. Hann sé alltaf á fyrirbyggjandi sýklalyfjum og taki líka inn Ventolin, Atrovent 2-5 sinnum á dag og Seretide 2 sinnum á dag. Hann sé með úðavél heima, fái saltvatn nokkrum sinnum á dag og sterkara Ventolin ef hann sé slæmur. Drengurinn hafi þurft að fara á bráðamóttöku Barnaspítalans mjög oft í vetur. Hann hafi fengið sjö eða átta lungnabólgur frá haustinu 2019 og alltaf þurft að leggjast inn á Barnaspítalann og fá súrefni. Hann sé í sjúkraþjálfun þrisvar sinnum í viku til þess að reyna að styrkja lungun. Hann sé því á allri mögulegri meðferð sem bjóðist. Hann notist við Periactin tvisvar á dag vegna lystarleysis. Hann sé lítill og léttur og hafi alltaf verið það. Hann sé að verða X ára í júlí næstkomandi og sé 11 kg. Hann hafi verið með stuðning við matartíma þegar hann hafi verið í leikskólanum en muni þurfa fullan stuðning þegar og ef hann mætir aftur. Þá sé hann annaðhvort með harðlífi eða niðurgang vegna lyfjanna sem hann sé á og hafi mjög oft þurft á lyfjum að halda við að losa hægðir.

Lýsing á sérstakri umönnun eða gæslu:

Kærandi greinir frá því að drengurinn þurfi á umtalsverðri umönnun að halda. Það þurfi að passa upp á magahnappinn og þrífa hann allavega tvisvar sinnum á dag. Þá eigi til að leka meðfram hnappnum, hann sé oft mjög aumur í kringum hnappinn og hafi fengið sýkingar. Þá þurfi að nota bakteríudrepandi krem mjög reglulega. Það þurfi að skipta um hnapp á 2-3 mánaða fresti og það hafi komið fyrir að hann hafi dottið úr. Það þurfi að skipuleggja vel hvað hann eigi að borða yfir daginn, bæði vegna ofnæmis og óþols og líka vegna þess að hann sé svo lystarlaus. Hann sé á Periactin tvisvar sinnum á dag. Það þurfi að passa að skera allt smátt ofan í hann svo að það standi ekki í honum (sem gerist mjög oft) og einnig geti það tekið upp í eina og hálfa klukkustund fyrir hann að klára matinn. Hann hafi alltaf þyngst mjög hægt og hafi alltaf ælt mikið. Það gerist líka mjög oft á nóttunni sem þýði að það þurfi að sofa hjá honum. Hann hafi fengið síendurteknar lungnasýkingar síðan hann hafi byrjað í leikskólanum og hafi læknirinn hans ráðlagt foreldrunum að taka drenginn úr leikskólanum til að koma í veg fyrir varanlegar skemmdir á lungunum. Hann verði mjög lasinn og máttlaus þegar hann fái lungnabólgu, haldi engu niðri og æli miklu slími, fái hita og hósti mjög mikið. Hann sé mjög lengi að ná sér af veikindum. Lyfin sem hann taki eru Nexium tvisvar á dag, Eucaprim (fyrirbyggjandi sýklalyf og sterkari inn á milli) og Periactin. Það þurfi að gefa honum Ventolin á morgnana, bíða í hálftíma og gefa honum saltvatn og peppmaska, gera æfingar til að styrkja lungun og gera hann móðan. Svo fái hann Seretide. Þetta taki yfirleitt einn og hálfan tíma. Þetta er endurtekið nokkrum sinnum á dag og oftar ef hann sé virkilega slæmur. Hann fær járn því að hann virðist ekki ná að halda járnbirgðunum uppi lengi. Hann sé með fæðuofnæmi og óþol og verði að ganga með EPI penna á sér hvert sem hann fari vegna jarðhnetuofnæmisins. Það þurfi einnig alltaf að passa að hafa auka magahnapp, slöngur og sprautur meðferðis ef ske kynni að hnappurinn myndi detta úr. Að finna mjólkurlausan mat, sem honum finnist góður, geti verið frekar erfitt. Hann sé matvandur og þurfi að fara í nokkrar búðir til að finna það sem hann vilji borða. Farið sé með hann í sjúkraþjálfun þrisvar sinnum í viku inn í H og keyri foreldrarnir því 60 km á viku í og úr sjúkraþjálfun. Einnig hafi komugjaldið í sjúkraþjálfun hækkað úr 797 kr. í 1.497 kr. sem sé mjög mikil hækkun.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kveðið sé á um heimild til almennrar fjárhagsaðstoðar til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna í 19. gr. laga nr. 22/2006. Þar komi fram í 2. mgr. að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum samkvæmt 1. mgr. hafi barn þess greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem falli undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig samkvæmt 26. eða 27. gr. samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veiti barninu þjónustu, barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið, foreldri geti hvorki sinnt stöfum utan heimilis né námi vegna verulegrar umönnunar barnsins og foreldri og barn eigi lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur séu inntar af hendi. Í V. kafla laganna sé farið yfir sameiginleg skilyrði sem þurfi að uppfylla til að réttur til greiðslna myndist. Í 26. og 27. gr. laganna standi að foreldri geti átt rétt á greiðslum þegar barn þess hafi greinst með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun sem falli undir eitthvert þeirra sjúkdóms- eða fötlunarstiga sem tiltekin séu.

Í 6. gr. laganna segi að með umsókn um greiðslur skuli meðal annars fylgja vottorð sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar, sem veiti barninu þjónustu, um greiningu, meðferð og umönnunarþörf barns, staðfesting frá vinnuveitanda um að foreldri leggi niður störf, staðfesting um starfstímabil, vottorð frá skóla um að foreldri hafi gert hlé á námi og fyrri námsvist sem og aðrar upplýsingar sem framkvæmdaraðili telji nauðsynlegar. Þá komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum aðilum vegna einstakra umsókna þegar ástæða þyki til.

Við mat á umsókn kæranda hafi verið yfirfarin þau gögn sem hafi legið til grundvallar mati. Í læknisvottorði, dags. 20. nóvember 2020, komi fram sjúkdómsgreiningarnar:

Lungnabólga, ótilgreind J18.9

Asthma, unspecified J45.9

Atresia of oesophagus with tracheo-oesophageal fistula Q39.1

Oesophagitis K20

Maga-vélinda-bakflæðissjúkdómur með vélindabólgu K21.0

Other adverse food reations, not elsewhere classified T78.1

Congenital tracheomalacia Q32.0

Allergy, unspecified T78.4+

Attention to gastronomy Z43.1

Congenital matformation of lung, unspecified Q33.9

Congenital bronchomalacia Q32.2

Eosinophilia D72.1

Other preterm infants P07.3

Feeding disorder of infancy and childhood F98.2

Gastro-oesophageal reflux disease without oesophagitis K21.9

Önnur lág fæðingarþyngd P07.1

Næringarráðgjöf og -eftirlit Z71.3

Other lack of expected normal physiological development R62.8

Oesophageal obstruction K22.2

Respiratory distress syndrome of a newborn P22.0

Constipation K59.0

 

Einnig hafi komið fram að um væri að ræða langveikt barn sem hafi verið fyrirburi sem fæðst hafi með þrengsli í vélinda sem hafi valdið vanda við næringarinntöku. Barnið hafi verið nært með sondu fyrstu mánuðina og settur hafi verið magahnappur við fimm mánaða aldur. Einnig hafi barnið farið í útvíkkanir á vélinda í ein fimm skipti. Barnið væri með mikið fæðuofnæmi og sýkist mjög oft, langmest efri loftvegssýkingar en einnig afar oft lungnasýkingar og þarmasýkingar. Barnið væri í áhættu á að fá langvinnan lungnasjúkdóm vegna skemmda sem gætu komið í lungun vegna endurtekinna lungnasýkinga. Barnið myndi léleg mótefni gegn pneumokokkum, þrátt fyrir að vera fullbólusett og á fyrirbyggjandi sýklalyfjum. Læknir hafi mælt með að barnið yrði tekið af leikskóla í að minnsta kosti sex mánuði.

Í greinargerð félagsráðgjafa, dags. 23. nóvember 2020, segi að barnið sé með slæman astma og fái reglulega lungnabólgur og þurfi þá að leggjast inn á Barnaspítalann til að fá súrefni og bæði sýklalyf og næringu í æð. Barnið hafi tvisvar verið lagt inn síðasta haust og þar fyrir utan séu komur á Landspítala fimm skipti síðan í 17. ágúst. Kærandi hafi þurft að leggja niður vinnu þegar barnið hafi fæðst en hún hafi fengið fulla framlengingu á fæðingarorlofi og hafi verið í dreifðu fæðingarorlofi í tvö ár. Eftir þann tíma hafi tekið við fæðingarorlof vegna yngra barnsins. Barnið hafi byrjað í leikskóla í ágúst X.

Í umsókn kæranda segi að barnið þurfi lyf daglega og sérstakt eftirlit vegna sýkinga og næringarvanda. Barnið sé með magahnapp sem aðallega sé notaður fyrir lyf. Ef barnið fái lungnabólgu þurfi það að leggjast inn á Barnaspítalann og fá súrefni og viðeigandi læknismeðferð. Með umsókn hafi fylgt yfirlit um mætingar og fjarvistir barns frá leikskóla og yfirlit yfir réttindi kæranda frá Fæðingarorlofssjóði.

Af framansögðu og fyrirbyggjandi gögnum sé ljóst að barnið þurfi umönnun, eftirlit og stuðning sem kærandi veiti honum. Hins vegar telji Tryggingastofnun að ekki sé um ræða svo alvarlegan sjúkdóm eða fötlun að unnt sé að fella erfiðleika barnsins undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig, sem tilgreind séu í 26. og 27. gr., og því sé ekki til staðar réttur til almennrar félagsaðstoðar samkvæmt 19. gr. laga nr. 22/2006, með síðari breytingum.


 

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um foreldragreiðslur á grundvelli laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Með lögum nr. 22/2006 er kveðið á um réttindi foreldra til fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barna sinna sem greinst hafa með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun, sbr. 1. gr. laganna.

Í 1. mgr. 19. gr. laganna kemur fram að foreldri, sem geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna þess að barn þess þarfnist verulegrar umönnunar vegna mjög alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða fötlunar, geti átt sameiginlegan rétt á grunngreiðslum samkvæmt 20. gr. með hinu foreldri barnsins samkvæmt mati framkvæmdaraðila. Í 2. mgr. 19. gr. laganna er nánar kveðið á um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum samkvæmt ákvæðinu. Skilyrði greiðslnanna er að barn hafi greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem fellur undir 1. og 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig samkvæmt 26. og 27. gr. laganna samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Þá eru önnur skilyrði ákvæðisins þau að barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið, foreldri geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna verulegrar umönnunar barnsins og foreldri og barn eigi lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur séu inntar af hendi.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 22/2006 segir að undir 1. sjúkdómsstig falli börn sem þurfi langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og yfirsetu foreldris vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með illkynja sjúkdóma. Undir 2. sjúkdómsstig falli börn sem þurfi tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis alvarlegra hjartasjúkdóma og alvarlegra nýrna-, lungna- eða lifrarsjúkdóma sem krefjist ónæmisbælandi meðferðar. Undir 3. stig falli hins vegar börn sem þurfi innlagnir á sjúkrahús og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með alvarlega bæklunarsjúkdóma, innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma, meltingarfærasjúkdóma og geðsjúkdóma.

Í 1. mgr. 27. gr. laganna um fötlunarstig segir að undir 1. stig falli börn sem vegna alvarlegrar fötlunar séu algjörlega háð öðrum með hreyfifærni eða flestar athafnir daglegs lífs og undir 2. stig falli börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfi mjög víðtæka aðstoð og nær stöðuga gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna alvarlegrar þroskahömlunar eða alvarlegrar einhverfu. Undir 3. stig falli hins vegar börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfi töluverða aðstoð og gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna miðlungs þroskahömlunar, hreyfihömlunar sem krefjist notkunar hjólastóls eða verulegrar einhverfu.

Í læknisvottorði B, dags. 20. nóvember 2020, kemur fram að sjúkdómsgreiningar sonar kæranda séu lungnabólga, ótilgreind J18.9, asthma, unspecified J45.9, atresia of oesophagus with tracheo-oesophageal fistula Q39.1, oesophagitis K20, maga-vélinda-bakflæðissjúkdómur með vélindabólgu K21.0, other adverse food reations, not elsewhere classified T78.1, congenital tracheomalacia Q32.0, allergy, unspecified T78.4+, attention to gastronomy Z43.1, congenital matformation of lung, unspecified Q33.9, congenital bronchomalacia Q32.2, eosinophilia D72.1, other preterm infants P07.3, feeding disorder of infancy and childhood F98.2, gastro-oesophageal reflux disease without oesophagitis K21.9, önnur lág fæðingarþyngd P07.1, næringarráðgjöf og -eftirlit Z71.3, other lack of expected normal physiological development R62.8, oesophageal obstruction K22.2, respiratory distress syndrome of a newborn P22.0 og constipation K59.0.

Í vottorðinu segir svo um sjúkrasögu barnsins:

„Langveikur X ára drengur sem fæddist 30 vikna fyrirburi, léttburi og var meðgangan einkennd af polyhydramnios. Vitað að drengur var með atresia á vélinda fyrir fæðingu. Fór svo í aðgerð á 3j degi og var með lága atresiu í vélinda og fistulu inn í bronchus frá neðra segmenti. Mjög veikur post up. Leki – lungnasýking – sepsis. RDS líka. Fór á öndunarvél. Gekk síðan illa að næra og nærður með sondu. Settur á Pepticate mjólk fljótlega – og virtist hafa mjólkur ofnæmi – var með mikil uppköst. Settur í hann magahnappur X mánaða gamall. Glímt alla tíð við mikinn asthma sjúkdóm. Verulega obstruktífur og ávallt í þéttu eftirliti hjá asthma lækni. Mörg asthma lyf reynd og notuð. Innlagður fljótlega eftir útskrift af Vökudeild vegna sýkinga og blóðugra uppkasta. Var mjög veikur X mánaða gamall og þá innlagður aftur. Þá lungnasýking og afar mikil hægðatregða. Byrjað síðan að dilatera vélindað en þar var hann ávallt með vélinda þrengsli og hefur líklega fram á þennan dag verið vélinda útvíkkaður í svæfingu í ein 5 skipti en auk þess maga speglaður í a.m.k. 2 skipti án þess að vera dílateraður. Er með hiatus herniu og í ljós kom að hann er líka með mikla ofnæmisbólgu í vélinda – Eosinofiliskan esophagitis með vel yfir 29 neosinofila mep „high power fieild“ sem samrýmist þessum sjúkdómi. Vafalaust líka með vélinda bakflæðis sjúkdóm. Er sífellt á bakflæðis lyfi. Er með staðfest ofnæmi f. mjólk, hnetum, eplum og svínakjöti og er á sérfæði. Þá hefur hann verið lungnaspeglaður í svæfingu og greindur mep tracheo og broncho malaciu. Drengurinn sýkist afar oft. Fengið ótal veiru sýkingar og margar bakteríu sýkingar – lang mest efri loftvega sýkingar en einnig afar oft lungnasýkingar og þarma sýkingar. Er í mun meir áhættu að fá langvinnan lungnasjúkdóm vegna skemmda sem gætu komið í lungun vegna endurtekinna lungnasýkinga. Hann hefur verið rannsakaður ónæmisfræðilega. Myndar léleg mótefni gegn pneumokokkum. Er samt full bólsettur. fengið auka örvun við pneumokokkum. Er hafður á fyrirbyggjandi sýklalyfi en hefur samt s.l. 3 mánuði veikst amk x4 sinnum í haust og nú er vetur er rétt að byrja. Líkur er yfirgnæfandi að hann veikist í vetur. mag rgar af sýkingum hans hafa verið alvarlegar. Þá á hann EpiPen lyfja sprautu til að nota fái hann brátt ofnæmiskast vegna fæðu ofnæmis síns. en hann er með bráaðaofnæmi fyrir hnetum, eplum og svínakjöti m.a. og hugsanl. mjólk en mjólkur m ofnæmi hans er þó fyrst of fremst eosinofilisk bólga í vélindanu. þannig er drengurinn með langvinna og frekar flókna sjúkrasögu og fer ég fram á að foreldrar fái greiddar foreldragreiðslur.“

Þá kemur fram í læknisvottorði um læknisskoðun og niðurstöður rannsókna sem skipta máli:

„Er afar grannur – og vex við – 3 sd fyrir þyngd og við – 2 sd fyrir hæð. Obstruktífyr oft við hlustun. Ljós yfirlitum. Er skapgott barn of eðl. þroski a.ö.l.“

Varðandi núverandi meðferð kemur fram:

„Sjá að ofan. Er á sérfæði, fær bakflæðis lyfjameðferð og lystaukandi lyf. Sífelld astmalyfjameðferð og er á fyrirbyggjandi sýklalyfjum. þar á ofan oft settur á sýkllayf er hann veikist t.d. nú í vetur.“

Um fyrirhugaðar aðgerðir/innlagnir segir:

„Tel rétt að taka drenginn af leikskóla vegna Þess hve oft veikur hann er og að hann sé það langveikur að endurteknar lungna sýkingar geti valdið skemmdum í lungum sem verði óafturkræfar. Hann verði heima a.m.k. í 6 mánuði og e.t.v lengur og móðir hans líka. Fer fram á að fjölskyldan fái greiddar foreldra greiðslur.“

Um umönnunarþörf – aðstoð vegna athafna daglegs lífs kemur fram:

„Mikil. Sífelld veikindi og móðir varla / ekki komist út á vinnumarkað vegna þess að drengurinn veikist strax og hann er settur á leikskólann. verið á leikskóla frá 12 mánaða aldri.“

Varðandi sértæka daglega þjónustu vegna fatlaðs barns kemur fram:

„Fengið stuðning við matargjafir í leikskóla og gjafir við astma lyfjum. Er á Nexium bakflæðislyfi og Periactin lyfi til að auka matarlyst.“

Í gögnum málsins liggur fyrir greinargerð félagsráðgjafa, dags. 23. nóvember 2020, þar sem greint er frá aðstæðum kæranda og sonar hennar. Þar segir:

„C er X ára gamall drengur sem greindist með vélindalokun strax á 20 viku meðgöngunnar. Hann er með slæman astma og fær reglulega lungnabólgur og þarf þá að leggjast inn á barnaspítalann til að fá súrefni og bæði sýklalyf og næringu í æð. Þess á milli fær hann allar venjulegar umgangspestir. C vaknar gjarnan upp á nóttunni vegna hósta og kastar upp. Hann hefur tvisvar verið innlagður nú í haust og þar fyrir utan eru komur fimm skipti síðan 17. ágúst.

C er með magahnapp, saltúðavél, adrenalínpenna, úðalyf og á fyrirbyggjandi sýklalyfjum, lystaukandi lyfjum og járni. Magahnapp og saltvatnsúða þarf að þrífa daglega. Hann er í reglubundnu eftirliti hjá lungnalækni, meltingar- og næringarlækni, næringarfræðingi og tvisvar í viku er hann hjá sjúkraþjálfara sem vinnur að því að styrkja lungun. C nærist illa og því þarf að gæta þess sérstaklega að hann fái rétta næringu og er hann á sérfæði vegna fæðuofnæmis. Einnig þarf að hafa fyrir því að hann borði nægilega mikið. Móðir C þurfti að leggja niður vinnu þegar hann fæddist en hún fékk fulla framlengingu á fæðingarorlofi og var í dreifðu fæðingarorlofi í tvö ár. Eftir þann tíma tók við fæðingarorlof vegna yngra barnsins en systir C er fædd í X og er hún byrjuð á leikskóla. C byrjaði á leikskóla í ágúst X, þar sem hann með stuðning á matartímum og verið er að vinna að auknum stuðningi þar sem hann þarf púst og lyfjagjafir á þessum tíma. Vegna ítrekaðra alvarlegra veikinda drengsins í lungunum, hefur læknirinn hans nú mælt með að hann sé frá leikskólanum næstu mánuði fram í mars eða apríl meðan umgangspestir ganga sem mest yfir.“

Samkvæmt gögnum málsins er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, að um sé að ræða alvarlega fatlað barn sem þarfnast mjög víðtækrar aðstoðar og daglegrar aðgæslu. Úrskurðarnefndin telur því að fötlunarstig barnsins teljist vera í samræmi við 2. stig, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 22/2006. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Tryggingastofnunar og mats á skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laganna að öðru leyti.

 

 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. desember 2020, um að synja umsókn A, um foreldragreiðslur, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta