Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Þriðjungur barna upplifir ofbeldi innan veggja heimilisins í kjölfar COVID-19

Ljósmynd: Barnaheill – Save the Children  - mynd

Covid-19 faraldurinn hefur breytt lífi barna um allan heim. Heil kynslóð barna verður fyrir áhrifum heimsfaraldurs sem mun hafa ævilangar afleiðingar á líf þeirra. Aðstæður barna eru þó ólíkar eftir því hvar þau búa á heimskringlunni og hefur Covid-19 haft gífurleg áhrif á börn í þróunarlöndum. Heimsfaraldurinn hefur aukið kerfisbundið misrétti, þar sem þeir fátækustu gjalda hæsta verðið.

Nauðsynlegt er að tryggja öryggi og velferð barna í því umhverfi sem Covid-19 hefur skapað. Hundruðir milljóna barna eiga í aukinni hættu á að sæta vanrækslu, ofbeldi, misnotkun og félagslegri útilokun vegna þess að skólar í þróunarlöndum hafa verið meira og minna lokaðir frá því að heimsfaraldurinn hófst. Áætlað er að um 85 milljónir barna hafi orðið fyrir eða muni verða fyrir líkamlegu, kynferðislegu eða andlegu ofbeldi vegna Covid-19 og þeirra takmarkanna sem faraldrinum fylgir.

60% barna telja sig minna örugg en áður

Alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children gerðu viðamikla rannsókn á seinni hluta síðasta árs sem mældi meðal annars ofbeldi gegn börnum á tímum heimsfaraldursins, en reynslan hefur sýnt að heimilisofbeldi eykst og verður hættulegra þegar samfélög ganga í gegnum erfiðleika. Rannsóknin náði til 46 landa, þar sem um 45 þúsund börn og foreldrar tóku þátt. Niðurstöður leiddu í ljós að þriðjungur svarenda hafði upplifað ofbeldi innan veggja heimilisins síðan í mars 2020. Jafnframt töldu 60% barna sig minna örugg en áður.

Kynbundið ofbeldi

Kynbundið ofbeldi hefur stóraukist í kjölfarið á Covid-19. Um 12 millj­ón­ir stúlkna eru á ári hverju þvingaðar í hjóna­band og áætla má að vegna Covid-19 eigi rúm­lega 2,5 millj­ón­ir stúlkna til viðbótar á hættu á því að vera þvingaðar í hjóna­band fyr­ir árið 2025. Fleiri stúlkum er nauðgað, bæði innan sem utan hjónabands. Gert er ráð fyrir að ein milljón stúlkna verði barnshafandi í kjölfar Covid-19, til viðbótar þeim 13 milljónum stúlkna sem verða þungaðar árlega. Það setur ungar stúlkur í bráða lífshættu því barnsfæðing er helsta dánarorsök stúlkna á aldrinum 15 til 19 ára.

Þróunarsamvinna ber ávöxt

Kynferðisofbeldi á átakasvæðum hefur stóraukist en eitt af hverjum sex börnum sem býr þar á það á hættu að verða fyrir kynferðisofbeldi. Barnaheill - Save the Children hafa lagt aukinn þunga í verkefni sín erlendis, með það að meginmarkmiði að vinna gegn ofbeldi á börnum. Barnaheill eru nú með verkefni í Sýrlandi og Jemen og í nóvember síðastliðnum hófu samtökin mannúðaraðstoð í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó til að bregðast við ofbeldi gegn börnum þar í landi. Í Kongó er þörfin fyrir aðstoð gríðarlega mikil. Verkefnið miðast að því að vernda börn gegn ofbeldi, misnotkun, útskúfun og vanrækslu og byggir verkefnið á sérþekkingu Barnaheilla með skýrri skírskotun í innlend verkefni samtakanna með innleiðingu á BellaNet aðferðafræðinni sem þjálfar eintaklinga sem vinna með ungu fólki með áherslu á forvarnir og valdeflinu ungmenna.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi, ásamt tíu öðrum félagasamtökum hér á landi sem starfa í þróunarsamvinnu, standa að átakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt, með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu. Samstarfshópurinn stóð fyrir fræðsluþættinum Stóra myndin: COVID og heimsbyggðin sem sýndur var á RÚV síðastliðinn fimmtudag, 11. febrúar, þar sem farið var yfir efnahags- og félagsleg áhrif Covid-19 á þróunarríki, m.a. voru áhrif faraldursins á börn skoðuð. Við hjá Barnaheillum hvetjum alla til þess að horfa á þáttinn og kynna sér þau áhrif sem faraldurinn hefur haft á efnaminni ríki.

Höfundur er verkefnastjóri erlendra verkefna og kynningarmála hjá Barnaheillum.

Greinin er skrifuð í tilefni af fræðsluátakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum allra helstu íslenskra félagasamtaka í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu, í samstarfi við utanríkisráðuneyti.

Greinin birtist áður í Fréttablaðinu 16. febrúar 2021.
  • Kolbrún Pálsdóttir. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta