Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um niðurfelling dráttarvaxta vegna virðisaukaskatts

[…]
[…]
[…]
[…]

Reykjavík 5. febrúar 2016
Tilv.: FJR15100060/16.2.5


Efni: Stjórnsýslukæra […], kt. […], vegna ákvörðunar tollsstjóra dags. 17. júlí 2015.

Þann 19. október 2015 barst ráðuneytinu erindi [A] forsvarsmanns félagsins […], kt. […], þar sem kærð er synjun tollstjóra dags. 17. júlí 2015 á ósk um niðurfellingu dráttarvaxta vegna virðisaukaskattskuldar. Ráðuneytið tekur erindið til afgreiðslu á grundvelli hinnar almennu kæruheimildar 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Málsatvik:
Kærandi sendi inn virðisaukaskattsskýrslu þann 5. október 2009 sem gerði ráð fyrir innskatti fyrir tímabilið júlí-ágúst 2009 (VA 2009-32) að fjárhæð 1.837.743 kr. og innskattur vegna bráðabirgðaskila fiskvinnslu fyrir tímabilið júlí-ágúst 2009 var 640.343 kr. Þann 21. október 2009 fékk kærandi upphæðina greidda að frádregnum 72.630 kr. sem skuldajafnað var inn á staðgreiðslu launagreiðanda vegna tímabilsins ágúst 2009 (SK 2009-08).

Þann 3. febrúar 2015 barst leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts með framtali sem var afgreidd þann 12. maí 2015. Samkvæmt leiðréttingunni var heildar innskattur 1.837.743 kr. og var þá innskattur vegna bráðabirgðaskila meðtalinn og stemmdi það við framtal kæranda. Niðurstaðan varð því sú að innskattur tímabilsins var lækkaður í 1.197.400 kr. og innskattur vegna bráðabirgðaskila var áfram 640.343 kr. Mismunurinn leiddi til þess að það myndaðist skuld að fjárhæð 640.343 kr. og á þá upphæð reiknuðust dráttarvextir. Inneign myndaðist hins vegar á tímabilinu 2009-48 að fjárhæð 2.487.631 kr. Af þeirri upphæð var skuldajafnað upp í kröfu tímabilsins 2009-32, þ.e. 640.343 kr. að viðbættum dráttarvöxtum að fjárhæð 566.988 kr., samtals 1.207.331 kr. Kærandi fékk því greiddar 1.280.300 kr.

Kærandi fór fram á niðurfellingu dráttarvaxta með bréfi til tollstjóra dags 30. júní 2015. Erindinu var synjað með bréfi dags. 17. júlí 2015. Kærandi telur að ekki hefði átt að reikna dráttarvexti vegna ofgreiðslu á tímabilinu 2009-32 þar sem hann hafi ekki verið krafinn um greiðslu skuldarinnar og hann hafi ekki haft tækifæri á að greiða hana til að komast framhjá vanskilaviðurlögum. Á sama tíma hafi kærandi átt inni hjá yfirvöldum tvöfalda upphæðina yfir sama tímabil sem ríkið sparaði sér að greiða í nærfellt fimm ár. Um sé því að ræða mistök skattyfirvalda sem hann sé látinn gjalda fyrir með greiðslu dráttarvaxta.


Umsögn tollstjóra:
Umsögn tollstjóra barst ráðuneytinu dags. 16. desember 2015. Í henni kemur fram að leiðréttingarskýrsla kæranda sem mál þetta lýtur að hafi verið afgreidd til samræmis við lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og verklagsreglur ríkisskattstjóra um gildisdagsetningar.

Í umsögn tollstjóra er því vísað á bug að um hafi verið að ræða mistök skattyfirvalda sem hann sé látinn gjalda fyrir með greiðslu dráttarvaxta. Það leiði af tímasetningu skýrsluskila kæranda hvernig leiðréttingarskýrslan var afgreidd en um síðbúin skýrsluskil gildi sérstakar reglur í virðisaukaskattslögum, nánar tiltekið í 28. gr. laganna. Gjaldandi verði að bera hallann af því að hafa ekki skilað skýrslu vegna ársins 2009 fyrr en raun ber vitni.

Þá sé tollstjóri bundinn af lögum og reglum skattaréttar en þar sé ekki að finna heimildir fyrir innheimtumenn ríkissjóðs til að fella niður eða lækka lögboðna dráttarvexti. Að gættri jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar sé ekki unnt að afgreiða mál kæranda með öðrum hætti en gert var með bréfi tollstjóra dags. 17. júlí 2015.


Niðurstaða:
Í IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er kveðið á um uppgjörstímabil, gjalddaga, álag, kærur o.fl. Ákvæði um dráttarvexti vegna síðbúinnar greiðslu skattaðila á virðisaukaskatti og vegna síðbúinnar endurgreiðslu af hálfu ríkissjóðs er að finna í 28. gr. laganna. Þannig kemur fram í 1. mgr. hennar að ef virðisaukaskattur er ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skuli greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Sama gildi ef endurgreiðsla hefur verið of há. Eftir 4. mgr. 28. gr. sömu laga skal ríkissjóður greiða dráttarvexti í samræmi við 1. mgr. af endurgreiðslu skv. 25. gr. laganna ef hún er ekki innt af hendi innan 21 dags frá lokum frests samkvæmt sömu grein. Í 4. málsl. 4. mgr. 25. gr. kemur fram að berist skýrsla eftir lok skilafrests skuli endurgreiðsla fara fram innan tuttugu og eins dags frá því að ríkisskattstjóri kveður upp úrskurð.

Ákvæði 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eru afdráttarlaus og er enga heimild að finna í lögunum til að víkja frá áskilnaði þeirra um greiðslu dráttarvaxta vegna vangreiðslu virðisaukaskatts. Með vísan til framangreinds er ekki fallist á með kæranda að beiting dráttarvaxta og aðferð við skuldajöfnun hjá innheimtumanni ríkissjóðs hafi brotið gegn lögum. Inneignir þær sem mynduðust við leiðréttingu á uppgjöri félagsins í virðisaukaskatti hefðu ekki átt að fá sömu gildisdagsetningar og gjalddagar viðkomandi virðisaukaskattstímabila, þar sem enga slíka reglu er að finna í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þvert á móti leiðir af 1. mgr. 25. gr. laganna að dráttarvextir leggjast á endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan 21 dags frá gildisdagsetningu þeirri sem ákvörðuð er af ríkisskattstjóra í samræmi við verklagsreglur þar um. Slíkt er í samræmi við almenn sjónarmið í skattarétti að gjaldandi skuli ekki geta verið betur settur með því að skila skýrslum of seint og fá þannig reiknaða dráttarvexti á inneign sína hjá ríkissjóði aftur í tímann.

Ekki er fallist á með kæranda að álagning dráttarvaxta hafi komið til vegna mistaka skattyfirvalda heldur sé það niðurstaða síðbúinna skila á leiðréttingarskýrslu kæranda. Niðurstaða ráðuneytisins er því sú að unnið hafi verið eftir lögum og verklagsreglum í málinu. Með vísan til þess að gæta ber jafnræðis við innheimtu skattskulda, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, telur ráðuneytið að ekki séu skilyrði til niðurfellingar dráttarvaxta í málinu.


Úrskurðarorð:
Hin kærða ákvörðun tollstjóra, dags. 17. júlí 2015, um að synja kæranda um niðurfellingu dráttarvaxta, er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra







Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta