Aðhald í innkaupum stofnana
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að setja á fót átakshóp um aðhald í innkaupum stofnana sem fylgi eftir aðgerðaáætlun úr stefnu um sjálfbær innkaup.
Í aðgerðaáætluninni kemur fram að leggja eigi áherslu á greiningar innkaupagagna og hefur Fjársýslan í þessu skyni unnið að því að hægt verði að gefa út mælaborð innkaupa fyrir stjórnendur. Í haust fá öll ráðuneyti aðgang að slíku mælaborði. Mælaborðið færir öllum ráðuneytum getu til að rýna innkaup sín og sinna undirstofnana og á þeim grundvelli geta ráðuneyti markað áherslur um mögulegar leiðir til að ná fram aukinni hagræðingu.
Einnig er í aðgerðaáætluninni fjallað um þá forsendu hagræðingar í ríkisrekstri sem tilgreind var í fjármálaáætlun fyrir 2024-2028 að skrá samninga og bjóða út að nýju eldri samninga.
Til að fylgja eftir innleiðingu á framangreindum greiningartólum og skráningarskyldu samninga er átakshópnum ætlað að bæta þekkingu og færni stjórnenda, bæði í stofnunum og ráðuneytum í að beita gögnunum til aðhalds. Hópnum er ætlað að vinna með og miðla niðurstöðum greininga, aðstoði aðila við að móta viðeigandi aðgerðir eins og sameiginleg innkaup, sértæk útboð, eða endurskipulagningu þjónustufyrirkomulags ásamt því að stuðla að auknu gagnsæi. Enn fremur verður unnið að frekari þróun á framsetningu opinna reikninga og samninga.
Gert er ráð fyrir að hópurinn starfi út árið 2025.