Vegna frétta um bann framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um útflutning á bóluefni
Í ljósi fréttaflutnings í fjölmiðlum um að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi ákveðið að banna útflutning á bóluefni gegn kórónuveirunni til Íslands, auk annarra landa, vilja forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið árétta eftirfarandi:
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fékk í dag skýr skilaboð frá Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, um að nýjar reglur ESB um útflutningshömlur á bóluefni muni ekki hafa áhrif á afhendingar bóluefna til Íslands frá aðildarríkjum ESB, í samræmi við þá samninga sem gerðir hafa verið.
Ekki er því ástæða til að ætla að nýrri reglugerð ESB verði beitt gegn Íslandi né að hún hafi einhver áhrif á afhendingar bóluefna til Íslands.
Boðaðar útflutningshömlur á vörum til EFTA-ríkjanna ganga í berhögg við EES-samninginn. Því hefur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra rætt við utanríkisráðherra Noregs til að stilla saman strengi og óskað atbeina utanríkisviðskiptaráðherra Svíþjóðar til að knýja á um skjóta lausn málsins. Mun hann eiga fleiri fundi með evrópskum ráðamönnum á morgun.
Íslensk stjórnvöld hafa einnig komið þessum skilaboðum skýrt á framfæri við framkvæmdastjórn ESB í dag og lagt áherslu á að reglugerðinni verði breytt og Ísland verði formlega undanþegið útflutningshömlum í samræmi við EES-samninginn. Jafnframt var staðgengill sendiherra ESB á Íslandi kallaður til fundar í utanríkisráðuneytinu í dag og mótmælum komið á framfæri.