Framhald á ráðstöfun eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka
Þann 23. júní sl. voru samþykkt á Alþingi lög um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf. Lögin fela í sér að hlutur ríkisins í bankanum verði seldur í markaðssettu útboði eða útboðum. Slíkt sölufyrirkomulag er talið best til þess fallið að fylgja meginreglum sem áhersla er lögð á við ráðstöfun ríkiseigna: gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Í lögunum er m.a. tilgreint með hvaða hætti safnað er í tvær tilboðsbækur í útboði, hvernig verðlagningu verði háttað og úthlutun fari fram. Tilboð einstaklinga verða í forgangi við úthlutun.
Í lögunum er gert ráð fyrir einu eða fleiri útboðum. Ríkissjóður á nú 42,5% hlut í Íslandsbanka og er horft til þess að u.þ.b. helmingurinn verði seldur á þessu ári og eftirstandandi hlutur á næsta ári, eftir því sem markaðsaðstæður leyfa.
Undirbúningur útboðs er hafinn. Ríkiskaup hafa birt auglýsingu fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytisins, þar sem auglýst er eftir einum eða fleiri umsjónaraðilum útboðsins, bæði á innlendum og/eða erlendum markaði. Hlutverk umsjónaraðila er að annast skipulagningu og yfirumsjón útboðsins m.a. utanumhald tilboðsbóka. Áhugasamir geta kynnt sér málið nánar á vef Ríkiskaupa utbodsvefur.is og sent áhugayfirlýsingu fyrir 9. júlí 2024.
Í fréttatilkynningu 24. maí sl. var upplýst um ráðningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á Arctica Finance hf. sem fjármálaráðgjafa til að veita ráðuneytinu þjónustu og ráðgjöf varðandi skipulagningu og yfirumsjón á fyrirhuguðum útboðum eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka hf. Þróun mála í öðrum verkefnum Arctica Finance hefur gert það að verkum að félagið telur sér erfitt um vik að veita áframhaldandi ráðgjöf um útboðin. Ráðuneytið hefur fallist á ósk Arctica Finance um að verða leyst undan verkefninu. Upplýst verður um ráðningu nýs ráðgjafa þegar hún liggur fyrir.