Breytt skipan gjaldtöku á sviði flugmála í undirbúningi
Samgöngunefnd Alþingis hefur nú til umfjöllunar frumvarp um brottfall laga nr. 31./1987 um flugmálaáætlun og fjármöflun til flugmála. Með því er stefnt að samræmingu í gjaldamálum og tekjuöflun á sviði flugmála með hliðsjón af breyttri gjaldastefnu á þessu sviði og í ljósi alþjóðlegra þróunar og skuldbindinga sem leiðir af EES-samningnum.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpinu í byrjun mánaðarins. Breytingin felur í sér að horfið verður frá skatttöku yfir í gjaldtöku sem leiðir af kostnaði við þjónustuna, þ.e. að notandinn greiði í samræmi við kostnað í ríkari mæli en nú er. Í lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála, nr. 31/1987, með síðari breytingum, eru settir fram tveir skattstofnar, þ.e. flugvallaskattur og varaflugvallagjald, sem felldir verða niður vegna samræmingarinnar. Ákvæði laganna er ekki lúta að skattstofnunum eru einungis þrjú, þ.e. 1.–3. gr., og þar sem efnislegt innihald þessara greina er einnig að finna í lögum um samgönguáætlun, nr. 33/2008, þykir eðlilegt að fella lögin úr gildi í heild sinni, segir meðal annars í greinargerð með frumvarpinu.
Isavia ohf. sem sér um rekstur flugvalla á Íslandi hefur fengið hinar mörkuðu tekjur, flugvallaskatt og varaflugvallagjald, í gegnum þjónustusamning sem ráðuneytið gerir árlega við fyrirtækið. Með því að fella niður þá skattstofna mun gjaldskrá fyrirtækisins hækka sem þeim nemur. Þjónustusamningur fyrirtækisins og ráðuneytisins mun að sama skapi lækka og staða ríkissjóðs verða óbreytt. Staða farþega og flugrekenda mun einnig verða óbreytt þar sem í stað nefskatta sem greiddir eru ríkissjóði eru greidd þjónustugjöld til Isavia ohf.
Skipaður var starfshópur vorið 2008 sem var ætlað að endurskoða gjaldtöku flugvalla og gera tillögur til ráðherra um tilhögun á tekjuöflun til flugvalla þannig að þeir starfi í heilbrigðu viðskiptaumhverfi og í fullu samræmi við alþjóðareglur þar að lútandi. Hópurinn skilaði skýrslu um niðurstöður sínar í maí 2009 og var hópurinn sammála um að það fyrirkomulag tekjuöflunar á flugvöllum að blanda saman nefsköttum á farþega, beinum greiðslum úr ríkissjóði og þjónustugjöldum samkvæmt gjaldskrá hafi reynst ógagnsætt og lítt til þess fallið að efla kostnaðarvitund þeirra sem greiða fyrir þjónustuna. Hópurinn lagði því til að skattar af farþegum yrðu afnumdir og að þjónustugjöld yrðu tekin upp þess í stað. Er sú tillaga í samræmi við þá almennu stefnubreytingu sem hefur orðið hjá ríkinu að taka upp þjónustugjöld í stað skatta og draga þannig úr umfangi ríkissjóðs.
Eins og fyrr segir er málið nú til meðferðar hjá samgöngunefnd eftir fyrstu umræðu á Alþingi.