Hoppa yfir valmynd
7. september 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný reglugerð um starfsleyfi til einkaaðila sem veita þjónustu við fatlað fólk

Starfsleyfisskylda einkaaðila

Frá því ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 tóku gildi hinn 1. október 2018 hefur félagasamtökum, sjálfseignarstofnunum og öðrum þjónustu- og rekstraraðilum verið skylt að afla starfsleyfis vegna þjónustu sem þeir veita á grundvelli laganna eða þjónustu sem hefur þann megintilgang að veita fötluðu fólki sértæka aðstoð eða þjónustu. Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar annast meðferð starfsleyfisumsókna og útgáfu starfsleyfa.

Þann 2. september sl. tók gildi ný reglugerð um starfsleyfi til einkaaðila sem veita þjónustu við fatlað fólk nr. 856/2020 sem leysir af hólmi eldri reglugerð.

Helstu breytingar frá fyrri reglugerð

Umsagnarskylda notendaráða

Með nýrri reglugerð er ekki lengur skylt að afla umsagnar notendaráðs fatlaðs fólks í því sveitarfélagi þar sem starfsemin fer fram áður en umsókn um starfsleyfi hlýtur afgreiðslu. Þess í stað skal tilkynna notendaráði um fyrirhugaða afgreiðslu umsóknar. Notendaráð hefur svo fjórar vikur frá því tilkynning berst til að senda inn umsögn vegna afgreiðslu starfsleyfis. Berist ekki umsögn frá notendaráðinu er umsóknin afgreidd án umsagnar þess. Ekki skal senda tilkynningu um fyrirhugaða afgreiðslu á umsókn um starfsleyfi vegna umsýslu með einum NPA samningi.

Starfsleyfisskyldir einkaaðilar

Starfsleyfisskyldan er að mestu leyti samhljóða fyrri reglugerð. Þó er í nýrri reglugerð kveðið á um að einstaklingar sem starfa sem verktakar fyrir starfsleyfishafa að þeim þáttum þjónustunnar sem liggja til grundvallar starfsleyfinu starfi á ábyrgð viðkomandi starfsleyfishafa og undir starfsleyfi hans.

Gildistími starfsleyfa

Almennur gildistími starfsleyfa verður nú þrjú ár. Heimilt er að veita leyfi til skemmri tíma, binda leyfi við tiltekinn árstíma eða veita starfsleyfi með skilyrðum sem þarf að uppfylla innan tiltekins tíma mæli eðli starfseminnar með því.

Yfirlit yfir gild starfsleyfi

Um nokkurt skeið hefur Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar birt yfirlit um útgefin starfsleyfi. Í nýrri reglugerð er þetta fyrirkomulag formfest.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta