Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 374/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 374/2016

Miðvikudaginn 5. apríl 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 27. september 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. júní 2016 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn. Með örorkumati, dags. 30. júní 2016, var umsókn kæranda synjað en henni metinn örorkustyrkur tímabundið frá 1. desember 2015 til 30. júní 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. september 2016. Með bréfi, dags. 4. október 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 25. október 2016, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. október 2016. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins verði felld úr gildi og umsókn hennar um örorkulífeyri samþykkt.

Í kæru segir að í svari Tryggingastofnunar ríkisins við umsókn kæranda hafi komið fram að hún forðist hversdagsleg verkefni til að koma í veg fyrir þreytu og álag. Einnig að hún kvíði því að fara aftur að vinna því að þá muni sjúkleiki hennar versna. Hvoru tveggja sé rangt, þetta séu ekki upplýsingar sem kærandi hafi gefið.

Kærandi hafi gert eins mikið og hún mögulega geti, bæði heima og í vinnu. Gigtin sé hins vegar virk og það hafi í för með sér mikla verki og mikinn stirðleika. Eftir því sem álag sé meira því verri sé hún.

Afleiðingar gigtarinnar séu þær að kærandi geti illa haldið vinnu vegna þess að hún geti ekki mætt reglulega vegna veikinda. Hún kvíði því ekki að fara á vinnumarkað, hún myndi glöð fara þangað ef hún gæti og sleppt við þessa erfiðu brekku sem örorkuferill Tryggingastofnunar ríkisins sé. Hún hafi einnig reynt að breyta álagi með því að fara í háskólanám í stað vinnu en ekki lokið neinni gráðu vegna þess að hún geti ekki mætt nægilega til að ná fögum vegna veikinda.

Vorið 2017 þurfi kærandi að fara í liðskipti á hægra hné sem sé bein afleiðing gigtarinnar. Önnur afleiðing sé sú að vegna bólgueyðandi gigtarlyfja hafi blætt ítrekað í maga kæranda og þar af leiðandi þurfi hún að taka magalyf og megi ekki taka bólgueyðandi lyf. Það sé erfitt fyrir manneskju með bólgusjúkdóm.

Kærandi sé stirð og aum í höndum og geti til dæmis hvorki opnað gosflösku né krukku.

Í svari Tryggingastofnunar ríkisins sé þyngd kæranda nefnd. Vissulega sé hún of þung en hún sé enn að ná af sér þyngd síðan á meðgöngu. Áður en hún hafi orðið ólétt hafi hún verið X kg léttari en hún sé í dag. Hún hafi hins vegar þá átt erfitt með nákvæmlega sömu hluti og í dag, til dæmis með að ganga þar sem hné hennar sé ónýtt, óháð þyngd.

Nýjasta afleiðing gigtarinnar sé sú að spjaldhryggur læsist sem hafi í för með sér hræðilega taugaverki og verulega skerta hreyfigetu.

Næsta skref lækna sé að setja kæranda á líftæknilyf. Það sé ekki gert nema gigt hafi veruleg áhrif á líf sjúklings.

Kærandi hafi oft þurft að berjast við kerfið vegna þess hve ung hún sé. Gigtin og afleiðingar hennar tengist hins vegar ekki aldri.

Þetta sé ekki sú staða í lífinu sem kærandi hafi sjálf kosið og hún myndi gjarnan vilja vera þannig stödd að hún gæti unnið fyrir sér og fjölskyldu sinni. Því miður sé staðan ekki þannig og það sé ekki rétt að kerfið taki hana ekki til greina vegna aldurs eða upplýsinga sem standist ekki.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilegra viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Stofnunin meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.

Við örorkumat sé stuðst við staðal stofnunarinnar sem skiptist í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hluta hans eða tíu stig í þeim andlega. Hins vegar nægi að umsækjandi fái sex stig úr hvorum hluta fyrir sig.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Við hið kærða örorkumat hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 8. mars 2016, skoðunarskýrsla, dags. 30. maí 2016, umsókn og spurningalisti á rafrænu formi auk tölvupósts frá VIRK. Einnig hafi legið fyrir eldri gögn hjá stofnuninni.

Við skoðun með tilliti til staðals hafi komið fram að kærandi gæti ekki gengið upp og niður stiga á milli hæða án þess að halda sér. Þá forðist hún hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi og hún kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna.

Við matið hafi kærandi fengið þrjú stig í líkamlega hlutanum og tvö stig í þeim andlega. Það nægi ekki til að uppfylla skilyrði efsta stigs samkvæmt staðli, en hún hafi verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks og hann því veittur.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. júní 2016. Umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en henni metinn örorkustyrkur tímabundið. Ágreiningur snýst um hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá stofnuninni samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Samkvæmt fylgiskjalinu fjallar fyrri hluti örorkustaðalsins um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni. Þar leggjast öll stig saman og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Með umsókn kæranda um örorkulífeyri fylgdi vottorð B læknis, dags. 8. mars 2016, en samkvæmt því eru sjúkdómgreiningar eftirfarandi: Sermineikvæð iktsýki, mígreni ótilgreint, vefjagigt og offita ótilgreind. Þá er sjúkrasögu hennar lýst svo:

„Offita, vefjagigt og slæm iktsýki. Var óvenjugóð af sínum einkennum meðan ófrísk af sínu fyrsta barni. Eignaðist stúlku X […]. Methotrexate gjöf var hætt 6 mánuðum áður en hún reyndi að verða ófrísk. Líklega um 10 mánaða tímabil og mátti bara taka Plaquenil á þeim tíma. Einkenni versnuðu á þeim tíma.

Meiri stirðleiki og verkir í höndum og mjöðmum nú. Hnéð einnig verra. Krónískar bólgur í höndum. Tók engin lyf meðan var ólétt utan Omeprazol. Eftir fæðingu leið ca mánuður áður en hún byrjaði að taka Plaquenil. Einkenni voru þá strax farin að versna. Gigtareinkenni versnað alveg síðan. Tekur 2 stk af Plaquenil daglega. Má ekki byrja á Methotrexat fyrr en barnið hættir á brjósti. Barnið ekki orðið X mánaða nú og á brjósti enn.

Verkir mest í DIP og PIP liðum handa ásamt þumalfingursrótum. Bólgnar oft upp á fingrum og verður þrútin. Fær skjálfta. Er stíf á morgnana, lengi af stað á fætur. ½ klst -1 ½ klst. Fær verki í báðar mjaðmir, verið í mörg ár.

Er með ónýtt hægra hné, verið í skoðun hjá C bæklunarlækni D, talin þörf á gervilið í náinni framtíð. Er einnig slitin í því vinstra en minni verkir þar. Á að koma í mat hjá honum aftur á næstu mánuðum. Búið að gera MR sem sýnir slitbreytingar og í dag einnig búið að gera röntgen með álagsmyndum. Niðurstöður sýndu mikið slit hægra hné, stendur bein í bein á álagsmyndum. Einnig virðist fremra krossbandið vera farið í hné. Sótt var um stuðningsspelkur fyrir A 2015 í von um að seinka gerviliðaaðgerðum í hnjám sökum ungs aldurs. Ekki hægt að útiloka að gigtin eigi þarna einhvern hlut að máli. Talsverðir verkir til staðar í hnjám við gang, sérstaklega í tröppum. A finnst gigtin hafa versnað sl. 3-4 ár.

Þolir mjög illa að taka NSAID lyf vegna magavandamála. Paratabs ekkert að duga. Var búni að vera á Methotrexat sprautum í einhver ár. Verið í eftirliti hjá E hjá F. Var vön að hitta E á 3ja mánaða fresti en ekki hitt hann síðan.“

Um skoðun á kæranda 8. mars 2016 segir í vottorðinu:

„Hæð X cm og X kg. BMI X sem svarar til offitu. Var um X kg fyrir fæðingu dóttur sinnar en hún fæddist X. Blóðþrýstingur 104/75 og púls 99 reglulegur. Gefur góðan contact, skýr og samvinnuþýð. Þreytuleg og lítt tilhöfð. Dapurleiki yfir sínum gigtareinkennum. Eymsli við þreifingu yfir öllum kviðpunktum vefjagigtar. Ekki að sjá aflögun á fingrum en svolítið bólgnir fingurliðir. Ekki hreyfiskerðing til staðar í fingurliðum, baki eða hnjám en svolítill stirðleiki.“

Samkvæmt vottorðinu var kærandi metin óvinnufær að hluta en búast megi við að færni aukist með tímanum.

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 18. apríl 2016, sem hún skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Í stuttri lýsingu á heilsuvanda sínum nefnir kærandi liðagigt og ónýtan lið í hægra hné sem afleiðing gigtar. Einnig nefnir hún blæðingar í maga vegna notkunar bólgueyðandi lyfja við gigt. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að sitja á stól svarar hún þannig að hún finni til í hné og mjöðmum við að sitja. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að hné eigi það til að gefa sig og hún finni til í því ásamt mjöðmum. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa svarar hún þannig að hún eigi mjög erfitt með að krjúpa þar sem hnéð leyfi henni það ekki. Því fylgi verkur og hún geti oft ekki staðið upp aftur. Hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig með hnjánum, hnéð gefi sig oft og það verkji. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að hún finni til í mjöðmum og hnjám við að standa og þurfi stöðugt að breyta um stellingu. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að ganga á jafnsléttu þannig að á slæmum dögum sé það svo sárt að ganga að hún láti það að mestu vera. Á góðum degi finni hún ávallt til í hægra hné og mjöðmum og bæði eigi það til að læsast og þurfi hún þá að ná að smella þeim aftur til að komast af stað. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga þannig að hægra hné valdi miklum erfiðleikum við gang í stiga, verkir og stirðleiki geri henni erfitt fyrir í stigum. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að nota hendurnar svarar hún þannig að stirðleiki, máttleysi og bólgur í höndum geri dagleg verk erfið og sár. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að það valdi verkjum í hnjám og höndum. Að lokum svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríðandi játandi og segir að hún hafi átt við depurð og kvíða að stríða vegna veikinda sinna og vegna þess hve erfitt það sé að fá aðstoð við hæfi hjá heilbrigðiskerfinu. Hún hafi hitt sálfræðing og prest til þess að fá aðstoð.

Skýrsla G skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu, en hún átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins 30. maí 2016. Samkvæmt skýrslunni telur skoðunarlæknir að líkamleg færniskerðing kæranda samkvæmt örorkustaðli felist í því að hún geti ekki gengið upp og niður stiga á milli hæða án þess að halda sér. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að hún forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar muni versna fari hún aftur að vinna. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda með eftirfarandi hætti í skýrslu sinni:

„X ára kona, útlit svarar til aldurs, litarháttur er eðlilegur. Hún er alltof þung, er X cm, X kg, BMI X. Göngulag er stirðlegt og slyttingslegt. Hún fer með hendur í gólf í frambeygju með bein hné. Hún er bólgin og aum í flestum pip-liðum fingra og líka í grunnliðum þumla. Hún er mjög aum í hæ. hné, einkum yfir medial liðglufunni og er líka aum í vi. hné en minna og báðum mjöðmum. Hún er aum víða við þreyfingu á vöðvum og vöðvafestum.“

Um geðheilsu kæranda segir í skýrslunni:

„Saga um kvíða og depurð, en segist ekki þunglynd. Er fremur framtaks- og aðgerðarlítil. Hún hefur ekki leitað læknis vegna þessa og ekki fengið nein geðlyf. Í viðtali er hún áttuð, er í andlegu jafnvægi, gefur góðan kontakt og góða sögu. Geðslag er eðlilegt. Engar ranghugmyndir.“

Í athugasemdum skýrslunnar segir:

„X ára kona í sambúð, sem er búin með X af [nám]. Hefur verið að vinna við ýmis umönnunarstörf. Hún átti barn seint á X ári, og hefur verið […]. Hún var greind með […] fyrir nokkrum árum og áður með vefjagigt. Þegar greining á […] lá fyrir, var hún sett á ónæmisbælandi lyfjameðferð, og batnaði nokkuð. Hún átti barn í X. og hætti þá á aðallyfinu hálfu ári fyrir getnað, og var ekki á því á meðgöngu eða meðan á brjóstagjöf stóð. Hún versnaði mikið af liðagigtini á þessu tímabili, en er nú komin á lyfið aftur. Hún er morgunstirð, er með bólgna flesta fingurliði og líka slæm í mjöðmum og hnjám, einkum hæ. hné, og er þar komin “bein í bein” og komin á lista fyrir gervilið, þrátt fyrir ungan aldur. Hún er alltof þung, og var með BMI X fyrir meðgöngu, en er nú með X.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin teljur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu felst líkamleg færniskerðing í því að kærandi geti ekki gengið upp og niður stiga á milli hæða án þess að halda sér. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Að mati skoðunarlæknis er andleg færniskerðing kæranda sú hún forðast hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til þriggja stiga og andleg færniskerðing til tveggja stiga.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefnd leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Í örorkumatinu segir að kærandi stríði við gigt, ofþyngd og fleira. Hún hafi verið í endurhæfingu en frekari endurhæfing sýnist ekki í farvatninu.

Í kæru gerir kærandi ýmsar athugasemdir við mat skoðunarlæknis á færni hennar. Kærandi lýsir miklum verkjum vegna gigtar og hvernig þeir séu hamlandi í vinnu og daglegum athöfnum. Í fyrirliggjandi bréfi H sjúkraþjálfara kemur fram að kærandi eigi við margþætt stoðkerfisvandamál að stríða. Öll heimilisstörf séu erfið og hún ráði ekki við líkamlegt álag. Einnig segir að vegna verkja eigi hún orðið erfitt með að ganga nema um 300 metra án þess að stoppa og setjast niður. Í skýrslu skoðunarlæknis er hins vegar hakað við að kærandi eigi ekki í erfiðleikum með gang. Þá er það mat skoðunarlæknis að engin vandamál séu við stöður en í rökstuðningi fyrir því svari tekur skoðunarlæknir fram að hún geti staðið í um hálftíma en vilji þá oft hreyfa sig. Þrátt fyrir framangreint misræmi í mati á líkamlegri færniskerðingu telur úrskurðarnefnd það ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins, enda fengi kærandi einungis þrjú stig til viðbótar samkvæmt staðli ef fallist yrði á að hún gæti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um en ekkert stig til viðbótar þrátt fyrir að fallist yrði á að hún gæti ekki gengið nema 400 metra án þess að stoppa og fá veruleg óþægindi þar sem ekki er heimilt að gefa bæði stig fyrir liðinn „að ganga á jafnsléttu“ og liðinn „að ganga í stiga“, sbr. fylgiskjal með reglugerð um örorkumat. Því myndi kærandi samt sem áður ekki ná tilskildum stigafjölda samkvæmt örorkustaðli til að uppfylla skilyrði 2. gr. reglugerðar um örorkumat.

Það er niðurstaða úrskurðarnefndar að þar sem kærandi gæti að hámarki fengið sex stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og tvö stig úr þeim hluta staðals sem varðar andlega færni, þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta