Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 58/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 58/2017

Fimmtudaginn 6. apríl 2017

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. febrúar 2017, kærir A, ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 30. nóvember 2016, um synjun á umsókn hennar um ferðaþjónustu fatlaðra.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 20. september 2016, sótti kærandi um ferðaþjónustu fatlaðra hjá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dagsettu sama dag, með vísan til 1. gr. reglna um ferðaþjónustu fatlaðra. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 30. nóvember 2016 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 10. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 22. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 28. febrúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. mars 2017, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust með tölvupósti þann 27. mars 2017.

II. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 30. nóvember 2016, um synjun á umsókn kæranda um ferðaþjónustu fatlaðra. Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi hafi lagt fram nýjar upplýsingar með kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála sem ekki hafi legið fyrir þegar mál kæranda var tekið fyrir. Að mati sveitarfélagsins hafi ákvörðun um synjun því ekki verið byggð á fullnægjandi upplýsingum.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun skuli felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 30. nóvember 2016, um synjun á umsókn A, um ferðaþjónustu fatlaðra er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta