Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Fyrirlestrarröð Jafnréttisskólans á vormisseri beinist að mannréttindum

Fyrirlestraröð  Jafnréttissskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og RIKK, Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á vormisseri 2018 er tileinkuð Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna en í ár eru 70 ár síðan hún var samþykkt. Mannréttindayfirlýsingin nær yfir grundvallarréttindi sem allir menn – karlar og konur – eiga tilkall til. Markmið fyrirlestraraðarinnar er að fjalla um þá þætti sem viðhalda kynjamismunun og ójafnrétti í ólíkum samfélögum og vekja athygli á gildi mannréttinda sem verkfæris til að takast á við viðvarandi kynjaójöfnuð.

Fyrsti fyrirlesturinn var fluttur 11. janúar og fjallaði Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands, um mótun mannréttindayfirlýsingarinnar í fyrirlestrinum: „Veröld ný og betri. Mótun Mannréttindayfirlýsingarinnar“. Hinn 25. janúar flutti svo Ulrike E. Auga, prófessor við Humboldt-háskóla í Berlín og gestaprófessor við Salzburg-háskóla í Austurríki fyrirlesturinn „Mannréttindi, kyn og trú. Álitamál í orðræðu um stjórn-, félags-, menningarmál“. Ragnhildur Helgadóttir, forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, gerði mannlega reisn í íslenskum rétti að umfjöllunarefni í sínu erindi hinn 8. febrúar.

Næsta fimmtudag, 22. febrúar er komið að Elizabeth Klatzer, hagfræðingi og sérfræðingi í kynjaðri hagstjórn, og mun hún fjalla um kynjaða fjárlagagerð í erindi sínu „Fjárlagagerð í þágu kvenréttinda: Skattaréttlæti og kynjajafnrétti“.  Þá er komið að Magnúsi Þorkeli Bernharðssyni, prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda við Williams College, hinn 8. mars og nefnist hans erindi „Réttindabarátta egypskra kvenna í kjölfar arabíska vorsins“ og hinn 19. mars flytur Linda Hogan, fyrrverandi aðstoðarrektor Trinity-háskóla í Dublin, fyrirlesturinn „Trú, kyn og pólitík í ljósi mannréttinda. Sifjafræðileg greining“ í Hátíðarsal Háskóla Íslands.

Viviane Namaste, prófessor við Concordia-háskóla í Montreal fjallar um „Skipulag heilbrigðisþjónustu fyrir konur: Lærdómur úr samfélagi innflytjenda frá Haíti í Montréal“ hinn 12. apríl, í stofu 101 í Odda og síðust á dagskránni er Andrea Peto, prófessor í kynjafræði við Central European-háskólann í Búdapest með erindið „Andfemínískar hreyfingar sem ögrun við mannréttindi“ hinn 8. maí, í Veröld — húsi Vigdísar.

Hádegisfyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og eru flestir fyrirlestrarnir haldnir í fyrirlestrasal safnsins í hádegi á fimmtudögum. Allir fyrirlestrarnir eru fluttir á ensku, aðgangur er ókeypis og er allt áhugafólk um þróunarmál og mannréttindi hvatt til að mæta á þessa áhugaverðu viðburði.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta