Réttur til atvinnuleysisbóta
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur lýst vilja til að leggja fram frumvarp um að tíminn sem fólk á rétt til atvinnuleysisbóta verði lengdur tímabundið úr þremur árum í fimm.. Þetta kom fram á samráðsfundi hans með aðilum vinnumarkaðarins sem haldinn var 16. júní síðastliðinn. Á fundinum sagði ráðherra að endurskoða þyrfti lög um atvinnuleysistryggingar í heild og lagði til að sú vinna yrði hafin í samráði við aðila vinnumarkaðarins í lok ágúst. Í samræmi við þetta voru sérfræðingar aðilanna nýlega boðaðir til fyrsta fundar um endurskoðun laganna og var hann haldinn í félags- og tryggingamálaráðuneytinu í dag.
Í fjölmiðlum í dag var haft eftir Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, að þúsundir manns gætu þurft að leita til félagsþjónustu sveitarfélaganna verði réttur til atvinnuleysisbóta ekki lengdur í fimm ár. Jafnframt var haft eftir honum að félags- og tryggingamálaráðherra hefði ekki svarað því af eða á hvort bótarétturinn verði lengdur.
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, vill af þessu tilefni árétta orð sín á samráðsfundinum með aðilum vinnumarkaðarins í júní: „Eins og ég sagði þá er ég reiðubúinn að beita mér fyrir því að tíminn sem fólk á rétt til atvinnuleysisbóta verði lengdur tímabundið úr þremur árum í fimm meðan við erum að fást við kúfinn í atvinnuleysinu. Við teljum hins vegar mikilvægt að þetta mál sé unnið í fullu samráði við aðila vinnumarkaðarins þannig að nákvæmlega verði farið yfir hvaða áhrif slík breyting kann að hafa. Endurskoðun laganna er nú hafin og þess má geta að fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga á aðild að þeirri vinnu.“
Ráðherra bendir á að atvinnuleysi hér á landi var um árabil nær óþekkt: „Í maí 2008 var atvinnuleysi á landinu um 1% en tók að aukast þegar leið á haustið það ár þar til að sprenging varð í þessum efnum við bankahrunið í október. Samkvæmt gildandi lögum á fólk rétt til atvinnuleysisbóta í þrjú ár. Við höfum því tíma til að bregðast við aðstæðum og lengja bótatímabilið áður en það fer að reyna á félagsþjónustu sveitarfélaganna af þessum sökum. Við teljum einnig mikilvægt að vinna gegn langtímaatvinnuleysi með viðeigandi úrræðum eins og starfsendurhæfingu og tækifærum til náms, eins og mikið kapp hefur verið lagt á síðustu misseri.“