Ný norræn upplýsingasíða um notendastýrða persónulega aðstoð
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, opnaði í gær norræna upplýsingasíðu um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fólk með fötlun. Allar Norðurlandaþjóðirnar stóðu saman að verkefninu undir stjórn Íslendinga og er síðan vistuð á vef félags- og tryggingamálaráðuneytisins: http://nordisk.felagsmalaraduneyti.is.
Notendastýrð persónuleg aðstoð felst í því að fólk með sértækar þjónustuþarfir vegna skertrar færni, til dæmis alvarlegrar hreyfihömlunar, stjórnar því sjálft hvers konar stoðþjónustu það nýtur, hvar og hvernig hún er veitt, að hve miklu leyti og af hálfu hvers. Notendastýrð aðstoð getur jafnt farið fram á heimili notanda, vinnustað, sem annars staðar, til dæmis við frístundaiðju eða sem aðstoð við að sækja aðra þjónustu í samfélaginu. Almennt er miðað við að notandinn sé fær um að stjórna þjónustunni sjálfur en þess eru einnig dæmi að aðstandendur eða sérstakir ábyrgðarmenn komi til skjalanna. Hverjum og einum er úthlutað fjármagni til að ráða sér aðstoðarfólk, ýmist á eigin vegum eða með aðstoð opinberra þjónustuaðila eða samtaka fatlaðs fólks. Aðstoðin er háð tilteknum fjárhags- eða tímaramma sem veltur á sameiginlegu mati notanda og þjónustuaðila á þörf fyrir stuðning.
Markmiðið með þessari tilhögun er að stoðþjónusta við þann sem í hlut á sé sniðin betur að þörfum hans og fjölskyldu hans. Þjónustan verður þannig sveigjanlegri, ekki bundin stofnun eða fastmótuðum tímasetningum, og þannig hnitmiðaðri og skilvirkari en ella. Jafnframt eykur þetta fyrirkomulag sjálfstæði þess sem aðstoðarinnar nýtur.
Upplýsingar um fyrirkomulag og þróun þjónustunnar á Norðurlöndunum
Nokkur munur er á hugmyndafræðinni að baki notendastýrðri persónulegri aðstoð og þróun þjónustunnar milli Norðurlandaþjóðanna. Þegar Ísland fór með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2009 beitti það sér fyrir þeirri hugmynd að safna upplýsingum um framkvæmd og lagaumhverfi þessa þjónustuforms meðal norrænu þjóðanna og leggja þannig saman reynslu þeirra, þekkingu og árangur. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem undirritaður var af Íslands hálfu árið 2007 var einnig hvati til þess að fjalla um efnið en í honum er meðal annars kveðið á um rétt fatlaðs fólks til þess „að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu“.
„Ég vænti þess að sú samnorræna vefsíða sem nú er kynnt til sögunnar geti stuðlað að því að efla notendastýrða persónulega aðstoð sem valkost í þjónustu við fatlað fólk,“ sagði Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, við opnun síðunnar í dag. „Með þessu móti geta allir sem láta sig málið varða borið saman mismunandi fyrirkomulag þessa þjónustuforms á Norðurlöndunum, kynnst viðhorfum notenda og dregið lærdóm af þeirri fjölbreytilegu reynslu sem byggst hefur upp hjá þjóðunum.“
Vefslóð síðunnar er: http://nordisk.felagsmalaraduneyti.is/