Heilsuefling fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Landssamtökunum Þroskahjálp styrk til að ráðast í fræðsluátak um heilbrigðan lífsstíl, venjur og vellíðan. Styrkurinn nemur 20 milljónum króna og markmiðið er að auka aðgengi fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir að fræðslu og stuðningi til þess að ástunda heilbrigðan lífsstíl.
Verkefnið verður unnið í samvinnu við ungmennaráð Þroskahjálpar, Átak – félag fólks með þroskahömlun og Fjölmennt. Áhersla verður jafnframt lögð á samstarf við aðila sem sinna mikilvægu og viðurkenndu lýðheilsu-, forvarnar- og fræðslustarfi á ýmsum sviðum.
Fólk með þroskahömlun á frekar á hættu að búa við verri heilsu en aðrir, andlega og líkamlega, meðal annars vegna skorts á fræðslu. Verkefninu er ætlað að mæta þessu og auka lífsgæði þessa hóps.
Boðið verður upp á fræðslu og námskeið fyrir fólk með þroskahömlun. Námskeiðin munu fara fram hjá Fjölmennt og símenntunarmiðstöðvum á landsbyggðinni sem gert hafa þjónustusamning við Fjölmennt. Þá verða gerð myndbönd sem keyrð verða á samfélagsmiðlum. Leitað verður til starfsbrauta framhaldsskólanna sem og stórra vinnustaða fatlaðs fólks um þátttöku í verkefninu til þess að koma efninu á framfæri sem víðast.