Ársskýrsla UN Women komin út
„Það er því ekki að ástæðulausu sem jafnréttismálin eru og verða áfram mikilvægur þáttur utanríkisstefnunnar. Þau eru samþætt starfi okkar á sviði alþjóða-, öryggis- og þróunarmála og endurspeglast í á þriðja hundrað verkefna og viðburða sem efnt var til á liðnu ári. Sjálf reyni ég sífellt, hvert sem ég fer, að láta jafnréttisrödd Íslands heyrast. Þörfin er mikil, því bakslagið er raunverulegt. En utanríkisþjónustan er ekki eyland. Við reiðum okkur á samstarf við stofnanir á borð við UN Women og frjáls félagasamtök,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra meðal annars í ávarpi í nýútkominni ársskýrslu UN Women fyrir síðasta ár.
Í ársskýrslunni kemur fram að heildartekjur UN Women á Íslandi jukust um 13 prósent á milli ára og námu tæplega 296 milljónum króna árið 2022. Framlög ljósbera, mánaðarlegra styrktaraðila samtakanna, voru líkt og síðastliðin ár helsta fjáröflunarleið samtakanna og jukust þau um 5 prósent á milli ára og námu tæpum 198 milljónum króna. Annað söfnunarfé frá einstaklingum og fyrirtækjum og sala á varningi nam rúmlega 62 milljónum króna.
„Ljósberar UN Women á Íslandi eru hryggjarstykki samtakanna og skipuðu lykilsess í fjáröflun samtakanna árið 2022, en langstærsti hluti framlaga UN Women á Íslandi til verkefna UN Women á heimsvísu kom frá ljósberum,“ segir í skýrslunni.
Í skýrslunni kemur fram að UN Women á Íslandi hafi átt í margra ára farsælu samstarfi við utanríkisráðuneytið. „Árið 2022 var ekki gildandi rammasamningur á milli aðilanna, en hins vegar fór af stað innri rýni á samstarfsfyrirkomulagi við landsnefndir UN Women, UNICEF og Félag SÞ á Íslandi og birtist skýrslan opinberlega á vef utanríkisráðuneytisins í febrúar 2023. Þó að rammasamningur hafi ekki verið til staðar, studdi utanríkisráðuneytið hins vegar við starf UN Women á Íslandi með kynningarstyrkjum sem gerði landsnefndinni kleift að halda úti öflugum götukynningum og vekja athygli á kvenmiðaðri neyðaraðstoð með „Náðir þú að pakka“ herferðinni. Sömuleiðis hlaust styrkur til að kynna táknrænar jólagjafir UN Women á Íslandi og kynningarstyrkur með það að markmiði að tryggja aukna upplýsingagjöf frá UN Women til fjölmiðla og stjórnvalda,“ segir í ársskýrslu UN Women.
Arna Grímsdóttir, lögfræðingur, lét af störfum sem stjórnarformaður UN Women á Íslandi eftir sex ára setu og Anna Steinsen var kosin stjórnarformaður í hennar stað. Framkvæmdastýra er Stella Samúelsdóttir.