Bætt aðstaða við Sólheimajökul í þágu öryggis og stýringar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, opnaði í dag nýjan stíg við Sólheimajökul sem leiðir gesti að útsýnissvæði þar sem hægt er að horfa til jökuls og lóns. Sólheimajökull er einn af vinsælli viðkomustöðum ferðamanna á Íslandi en aðstöðu fyrir gesti hefur verið ábótavant.
Gerð stígsins var samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og hagsmunaaðila á svæðinu í tengslum við Safe Travel verkefni Landsbjargar.
Mat sérfræðinga var að í umbótunum fælust tækifæri til að bæta stýringu ferðamanna í þágu öryggis og aðgengis með bættum innviðum.
„Það er óhætt að segja að á undanförnum árum hafi orðið bylting í innviðum á fjölmörgum ferðamannastöðum vítt og breitt um landið þó að enn sé mikið verk að vinna,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Við Sólheimajökul voru veruleg tækifæri til úrbóta en staðurinn fellur af ýmsum ástæðum ekki sérlega vel að tveimur helstu tækjum stjórnvalda á þessu sviði, sem eru Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Það er því ánægjulegt að samstarf skyldi takast á milli ráðuneytisins, landeigenda og Safe Travel um að ráðast í þessar mikilvægu úrbætur.“
Um 70% af svæðinu sem framkvæmdirnar ná yfir eru á þjóðlendu og 30% eru í einkaeign. Samkvæmt viljayfirlýsingu ráðuneytisins og landeigendafélagsins á svæðinu fjármagnaði ráðuneytið hönnun á göngustígnum og greiddi fyrir þann hluta framkvæmda sem voru á þjóðlendu, en landeigendafélagið greiddi fyrir þann hluta þeirra sem eru ekki á þjóðlendu. Kostnaður við framkvæmdina var um 11 m.kr.
Stígurinn fellur vel að umhverfinu og eykur öryggi gesta umtalsvert, ekki síst þeirra sem eru ekki í skipulögðum ferðum og vilja njóta umhverfisins á eigin vegum.
Með umbótunum hefur útsýnissvæðið stækkað talsvert og með einföldum hætti verður upplifun gesta meiri og betri á þessum vinsæla áfangastað en áður.