Hoppa yfir valmynd
28. júní 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Flutningur meginstarfsemi Fæðingarorlofssjóðs og umsýslu atvinnuleysistrygginga

Fréttatilkynning

Meginstarfsemi Fæðingarorlofssjóðs flutt til Hvammstanga

Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að meginstarfsemi Fæðingarorlofssjóðs verði staðsett á Hvammstanga. Frá 1. janúar 2007 flyst starfsemi sjóðsins til Vinnumálastofnunar og hefur ráðherra við þessa ákvörðun falið forstjóra Vinnumálastofnunar og starfsmönnum hans að undirbúa flutninginn.

Gert er ráð fyrir að um 10 stöðugildi verði við starfsemi sjóðsins á Hvammstanga. Á fjárlögum fyrir árið 2006 er gert ráð fyrir 7 milljörðum króna til greiðslu fæðingarorlofs og eru viðskiptavinir sjóðsins á milli sjö og átta þúsund á ári hverju.

Umsýsla atvinnuleysistrygginga flutt til Skagastrandar

Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að umsýsla atvinnuleysistrygginga fari fram og verði staðsett á Skagaströnd. Með gildistöku nýrra laga þann 1. júlí næstkomandi um atvinnuleysistryggingar mun Vinnumálastofnun annast alla stjórnsýslu og umsýslu atvinnuleysistrygginga samkvæmt sérstökum samningi við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Með þessum breytingum er ætlunin að tryggja enn betur hagræði, samræmi og faglegri vinnubrögð við ákvörðun um rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins og umsýsla fari fram á einum stað fyrir landið allt í stað margra áður.

Gert er ráð fyrir að um 6–8 stöðugildi verði við starfsemi í reiknistofu atvinnuleysistrygginga.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta