Hoppa yfir valmynd
15. júní 2007 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/2007

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 1/2007:

A

gegn

Fjölskyldu- og styrktarsjóði BHM, BSRB og KÍ.

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 15. júní 2007 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 14. febrúar 2007, óskaði kærandi A, hér eftir nefndur kærandi, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun Fjölskyldu- og styrktarsjóðs BHM, BSRB og KÍ, hér eftir nefndur Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn, á umsókn hans um greiðslu úr sjóðnum í fæðingarorlofi bryti í bága við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Fjölskyldu- og styrktarsjóðnum með bréfi, dags. 19. febrúar 2007, og var óskað eftir því að umsögn sjóðsins bærist fyrir 5. mars 2007. Með tölvubréfi, dags. 12. mars 2007, óskaði Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn eftir viðbótarfresti til að skila inn umsögn sinni og var viðbótarfrestur veittur til 26. mars 2007. Umsögnin barst nefndinni eftir ítrekun, dags. 12. apríl 2007, með bréfi, dags. 17. apríl 2007, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá aðilum.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavaxtalýsing

Samkvæmt reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, var fastráðnum konum sem starfað höfðu í þjónustu ríkisins samfellt í sex mánuði fyrir barnsburð veittur réttur til launaðs leyfis í sex mánuði sem skiptist þannig að greidd voru dagvinnulaun og yfirvinnulaun fyrstu þrjá mánuði fæðingarorlofsins og dagvinnulaun síðari þrjá mánuði fæðingarorlofsins. Með lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, var meðal annars svo fyrir mælt að samið skyldi um laun í fæðingarorlofi í kjarasamningum en á meðan skyldi ofannefnd reglugerð gilda.

Með samkomulagi BHM, BSRB og KÍ við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga, dags. 24. október 2000, var í grein 3.1 stofnaður sjóður, Fjölskyldu- og styrktarsjóður, sem hafði meðal annars það hlutverk „að taka við umsóknum, ákvarða og annast greiðslur til félagsmanna í fæðingarorlofi“. Í framangreindu samkomulagi kemur fram að sjóðnum hafi verið ætlað það hlutverk að taka við iðgjöldum launagreiðanda og annast greiðslur til félagsmanna í fæðingarorlofi, sbr. nánar grein 3.1.1 í samkomulaginu. Í grein 3.1.2 segir orðrétt: „Vegna þess mismunar sem er á greiðslum sem taka mið af reglugerð nr. 410/1989 annars vegar og skv. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof hins vegar fer hluti af iðgjaldi launagreiðanda í fjölskyldu- og styrktarsjóð til að greiða þann mismun. Fyrri réttindi sem taka mið af reglugerð nr. 410/1989 teljast að fullu bætt með greiðslum launagreiðanda í sjóðinn.“

Kærandi, sem er grunnskólakennari, sótti um greiðslu launa úr Fjölskyldu- og styrktarsjóðnum vegna fyrirhugaðs fæðingarorlofs. Umsókn kæranda var hafnað með bréfi, dags. 20. desember 2006, á grundvelli þess að ekki hafi verið í gildi samningur um fæðingarorlof karla milli stéttarfélags kæranda, Kennarasambands Íslands, og vinnuveitanda fyrir gildistöku laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Sjóðurinn benti á það að til sjóðsins hefði verið stofnað til að bæta þá skerðingu sem launamenn hefðu orðið fyrir vegna þess mismunar sem var á greiðslum sem tóku mið af reglugerð nr. 410/1989 annars vegar og 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof hins vegar og færi hluti af iðgjaldi launagreiðanda í sjóðinn til að greiða þann mismun. Greiðslur úr sjóðnum miðuðust við það tjón sem starfsmaður hefði orðið fyrir við það að glata réttindum sem hann hafði fyrir gildistöku laga nr. 95/2000.

    

III.

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að afgreiðsla Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins á umsókn hans um greiðslur úr sjóðnum vegna fæðingarorlofs feli í sér kynbundna mismunun og gangi gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þá einkum 1., 14., 16., 22., 23. og 28. gr. Afleiðing ákvörðunar Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins sé m.a. sú að kærandi nýti sér ekki rétt sinn til að taka fæðingarorlof enda fái hann ekki greidd full laun líkt og þær konur sem fái greiðslur úr sjóðnum.

 

IV.

Sjónarmið Fjölskyldu- og styrktarsjóðs BHM, BSRB og KÍ.

Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn telur nauðsynlegt að gera grein fyrir því laga- og kjarasamningsumhverfi sem sé bakgrunnur hans að því leyti sem hér um ræðir.

Samkvæmt reglugerð nr. 410/1989, sbr. reglugerð nr. 280/1996 og nr. 324/1996 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, sem sett var með stoð í þágildandi starfsmannalögum, nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nutu fastráðnar konur, sem verið höfðu í þjónustu ríkisins í samfellt sex mánuði fyrir barnsburð, leyfis í sex mánuði á þeim dagvinnulaunum sem starfi þeirra fylgdu og skyldi leyfið tekið í einu lagi. Auk dagvinnulauna skyldi greiða fyrstu þrjá mánuði leyfisins meðaltal þeirrar yfirvinnu-, vakta-, gæsluvakta- og óþægindaálagsstunda, sem konan fékk greiddar síðasta 12 mánaða uppgjörstímabil yfirvinnu, áður en barnsburðarleyfi hófst. Sérstakar reglur giltu um útreikning yfirvinnu- og álagsgreiðslna starfsmanna skóla þar sem venjuleg starfsemi liggur niðri hluta ársins.

Við tilfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga með grunnskólalögum nr. 66/1995, sem tóku gildi 1. ágúst 1996, héldust áðurgreind lögbundin réttindi kennara. Samkvæmt 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, skyldi reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, gilda áfram eftir gildistöku laganna þann 30. desember 1996, uns laun í fæðingarorlofi hefðu verið ákvörðuð eða um þau samið.

Reglugerð nr. 410/1989 hélt enn gildi sínu þegar lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof voru sett í maí árið 2000. Þeirri löggjöf var meðal annars ætlað að auðvelda útivinnandi foreldrum, bæði mæðrum og feðrum, að samræma þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi og fjölskyldulífi. Lögin voru innleiðing á tilskipun nr. 96/34/EB sem er staðfesting Evrópubandalagsins á rammasamningi um foreldraorlof, og varð tilskipunin hluti af EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 42, frá 26. mars 1999. Samkvæmt tilskipuninni skuldbatt Ísland sig til að setja lágmarksákvæði um rétt starfsmanna til foreldraorlofs við fæðingu eða frumættleiðingu. Með lögum nr. 95/2000 var foreldrum veittur einstaklingsbundinn orlofsréttur sem er óframseljanlegur að undanskildum þremur mánuðum sem foreldrar geta skipt með sér, sbr. 8. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. skal þó móðir vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. Heimilt er að taka fæðingarorlof í einu lagi eða skipta því niður á fleiri tímabil og/eða taka það samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Samkvæmt 13. gr. laganna, eins og henni hefur nú verið breytt, á foreldri sem starfað hefur í samfellt sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barns, rétt á mánaðarlegri greiðslu sem nemur 80% af meðaltali heildarlauna síðustu tveggja tekjuára fyrir fæðingu barns, upp að ákveðnu hámarki. Markmið hinnar lögbundnu skiptingar milli foreldra var meðal annars að stuðla að jafnri foreldraábyrgð sem og jafnri stöðu kynja á vinnumarkaði. Í frumvarpi sagði að um tímabundna aðgerð væri að ræða sem einkum væri gerð til að bæta hag karla en reynslan hafi sýnt að í þágildandi kerfi hafi konur aðallega nýtt sér réttinn til fæðingarorlofs þrátt fyrir að foreldrar ættu þann rétt sameiginlegan. Gildistaka laganna var með þeim hætti að sjálfstæðum rétti föður til töku fæðingarorlofs var komið á í áföngum. Þann 1. janúar 2001 varð hann einn mánuður, tveir mánuðir 1. janúar 2002 og þrír mánuðir 1. janúar 2003.

Í frumvarpi sem varð að lögum nr. 95/2000 var gert ráð fyrir því að lögum um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, nr. 70/1996, gæti þurft að breyta með lögum þar sem þau lög gerðu ráð fyrir annars konar greiðslufyrirkomulagi á fæðingarorlofi en gert hafi verið ráð fyrir samkvæmt frumvarpinu. Segir að 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, muni falla brott þegar samkomulag hafi náðst milli aðila, en að öðrum kosti gæti verið þörf á lagabreytingu.

Ljóst sé samkvæmt framansögðu að núgildandi reiknireglur um mánaðarlegar greiðslur til foreldra séu ólíkar þeim sem giltu samkvæmt reglugerð nr. 410/1989, auk þess sem aðrar reglur gildi um tilhögun orlofs. Eftir setningu laga nr. 95/2000 hafi verið ljóst að ríki og sveitarfélög voru ekki í aðstöðu til að semja um lakari fæðingarorlofsréttindi til handa félagsmönnum viðsemjenda sinna en lögfest höfðu verið um árabil svo sem að framan er rakið, en um stjórnarskrárvarin réttindi hafi að hluta til verið að ræða. Auk þess komi fram í athugasemdum með frumvarpi er varð að lögum nr. 95/2000 að markmið þeirra sé að foreldrar öðlist ekki lakari rétt en þeir hefðu samkvæmt þágildandi kerfi og tryggt sé „að foreldrar fái jafnan a.m.k. þá fjárhæð sem þeir eiga rétt á í núgildandi kerfi“ eins og sagði í athugasemdum með frumvarpi til laganna.

Í ljósi þessa sé unnt að fullyrða að í anda laganna um fæðingar- og foreldraorlof sé samkomulag það sem sé grundvöllur að greiðslum Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins til þeirra starfsmanna sem áttu rétt í samræmi við reglugerð nr. 410/1989, ef munur hafi verið á þeim rétti og rétti samkvæmt lögum nr. 95/2000. Samkomulagið er milli Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasambands Íslands annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar og var undirritað 24. október 2000. Samkomulagið tók gildi 1. janúar 2001 og varð hluti af kjarasamningi hlutaðeigandi stéttarfélaga samkvæmt grein 4.3.1 og jafnframt féllu niður viðmið réttinda við reglugerð nr. 410/1989 samkvæmt grein 4.1.1. Í 3. kafla samkomulagsins er fjallað um stofnun Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins og í grein 3.1.2 segir orðrétt:

Vegna þess mismunar sem er á greiðslum sem taka mið af reglugerð nr. 410/1989 annars vegar og skv. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof hins vegar fer hluti af iðgjaldi launagreiðanda í fjölskyldu- og styrktarsjóð til að greiða þann mismun. Fyrri réttindi sem taka mið af reglugerð nr. 410/1989 teljast að fullu bætt með greiðslum launagreiðanda í sjóðinn.

Samkvæmt þessu fékk Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn iðgjald launagreiðanda sem útreiknað var af hinu opinbera miðað við framangreindar forsendur. Sjóðurinn hafi því ekki það hlutverk að bæta almennt rétt þeirra sem eigi rétt á launum í fæðingarorlofi og hafi ekki til þess ráðstöfunarfé. Ljóst sé að sumir félagsmenn fái greiðslur úr sjóðnum og aðrir ekki, allt eftir því hver réttur þeirra var samkvæmt eldri lögum.

Í umsókn kæranda til Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins kom fram að hann hygðist taka einn mánuð í fæðingarorlof strax eftir fæðingu barns hans og einn og hálfan mánuð um ári síðar. Samkvæmt upplýsingum sjóðsins mun barnið hafa fæðst 20. september 2006 og kærandi verið í fæðingarorlofi frá þeim tíma í einn mánuð. Erindi hans til kærunefndar telur sjóðurinn því aðeins geta varðað þann eina mánuð sem hann hafi tekið í fæðingarorlof.

Í erindi sínu vísi kærandi til 1., 14., 16., 22., 23. og 28. gr. jafnréttislaga nr. 96/2000. Fyrsta grein laganna er markmiðsgrein þeirra. Í 14. gr. er fjallað um launajafnrétti en þar segir að konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með launum er átt við almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar þóknun, beina og óbeina, hvort heldur sé með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti, sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum. Með kjörum er auk launa átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár. Undir kjör falla fæðingar- og foreldraorlof. Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn teljist ekki atvinnurekandi í skilningi jafnréttislaga. Sjóðurinn telur að starfsmaður verði að beina erindi skv. 14. og 23. gr. jafnréttislaga til atvinnurekanda síns og að erindi byggt á þeim ákvæðum verði ekki beint að sjóðnum. Á sama hátt verði að mati sjóðsins erindi vegna meints brots á 16. gr. jafnréttislaga ekki beint gegn honum, heldur gegn atvinnurekanda, enda fjalli það ákvæði um skyldur þeirra í sambandi við samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn telur að hann hafi ekki getað bakað sér skaðabótaskyldu skv. 28. gr. jafnréttislaga.

Varðandi hins vegar tilvísun kæranda til hins almenna bannákvæðis í 22. gr. jafnréttislaganna tekur Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn fram að 3. mgr. ákvæðisins eigi beinlínis við um það tilvik sem um ræði í þessu máli. Almenna bannákvæðið í 22. gr. núgildandi jafnréttislaga hafi fyrst komið inn í jafnréttislög með setningu laga nr. 65/1985 en ákvæði þessa efnis var í 3. gr. þeirra laga, og í athugasemdum með þeirri frumvarpsgrein sagði:

3. gr. er ný. Tekið er fram, að hvers kyns mismunun eftir kynferði sé óheimil, en það er meginregla þessa frumvarps. Með mismununer átt við athöfn eða athafnaleysi, hvers konar greinarmun, útilokun eða forréttindi, sem skapar mismunandi stöðu kvenna og karla í raun vegna kynferðis eða atriða tengdum því.

Almennt er talið, að ekki sé það mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna varðandi meðgöngu eða fæðingu. Þó þykir rétt að setja sérstakt ákvæði um það til að forðast allan misskilning í þessum efnum.

Það blasi við að reglur sem miða að því að taka sérstakt tillit til kvenna vegna meðgöngu og fæðingar geti ekki talist mismunun gagnvart körlum vegna hins líffræðilega munar sem sé á körlum og konum. Til samræmis við það hafi Evrópusambandið samþykkt tilskipun nr. 92/85/EBE um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem séu þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti, sem Ísland hafi skuldbundið sig til að lögfesta. Samkvæmt 8. gr. tilskipunarinnar skulu konur eiga rétt á samfelldu fæðingarorlofi í a.m.k. 14 vikur í kringum fæðingu barns og þar af er þeim beinlínis skylt að taka a.m.k. tveggja vikna orlof í tengslum við fæðingu barns. Efni þessarar tilskipunar er lögfest með lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Í 4. mgr. 7. gr. laganna segir að kona teljist nýlega hafa alið barn þegar barnið er 14 vikna eða yngra. Hvorki þessar reglur né regla 7. gr. laga nr. 95/2000 um að konu sé heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag teljast vera mismunun á grundvelli kynferðis í skilningi jafnréttislaga. Þá geti það fyrirkomulag sem starfsemi Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins byggi á ekki heldur talist mismunun; að tryggja að þær konur sem hafi átt betri rétt en hinn jafni réttur sem feðrum og mæðrum sé tryggður í núgildandi lögum, sem byggja á Evrópulöggjöf, glati ekki þeim rétti, a.m.k. þegar þær teljist nýlega hafa alið barn í skilningi núgildandi laga. Ekki hafi heldur verið sýnt fram á að fjárhagslegur munur sé í raun á greiðslum til karla og kvenna í fæðingarorlofi konum í hag, og raunin sé líklega sú að því sé þveröfugt farið miðað við tölur um launamun kynja. Ekki liggi heldur fyrir hverjar greiðslur móðir barns kæranda hafi fengið þennan fyrsta mánuð eða hvort meðaltal heildargreiðslna á mánuði til kvenna sem starfi hjá sama atvinnurekanda, eða annarra samanburðarhópa, hafi verið hærra en það sem kærandi hafi fengið greitt á þessum fyrsta mánuði eftir að barn hans fæddist.

Í þessu sambandi tekur Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn fram að fordæmi það sem Hæstiréttur gaf með dómi sínum sem birtur er í dómasafni réttarins árið 1998 á bls. 500 beri að túlka í samræmi við atvik málsins og kröfugerð þá sem höfð hafi verið frammi í því máli. Atvik hafi verið með þeim hætti að ríkisstarfsmaðurinn Sigurður Torfi Guðmundsson, sem kærunefnd jafnréttismála höfðaði málið vegna, sótti um laun í fæðingarorlofi í einn mánuð, þegar barn hans var orðið rúmlega fjögurra mánaða gamalt. Erindi hans var hafnað með vísan til þess að reglugerð nr. 410/1989 takmarkaði launagreiðslur í fjarvistum vegna barnsburðar við konur. Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að ríkið sem atvinnuveitandi Sigurðar hefði brotið gegn jafnlaunaákvæði og almennu bannákvæði þágildandi jafnréttislaga með því að hafna erindi hans. Héraðsdómur sýknaði ríkið af kröfum kærunefndar vegna Sigurðar en Hæstiréttur dæmdi að synjun ríkisins á greiðslu eins mánaðar í fæðingarorlofi væri ólögmæt. Vísaði Hæstiréttur til þess að Sigurður hefði sótt um fæðingarorlof í einn mánuð þegar barn hans var orðið rúmlega fjögurra mánaða gamalt. Fram kom að eiginkona hans, sem einnig var ríkisstarfsmaður, myndi afsala sér rétti sínum til eins af þeim sex mánuðum er hún átti til launa í fæðingarorlofi. Hæstiréttur tók fram að af lögskýringargögnum yrði ráðið að tilgangur löggjafans með fæðingarorlofi sé annars vegar að konur fái tækifæri til að ná sér eftir barnsburð, en hins vegar að foreldrar fái báðir tækifæri til að annast barn sitt fyrstu mánuði ævi þess. Sagði Hæstiréttur að þegar til allra framangreindra atriða væri litið hafi ekki verið rétt að „beita ákvæðum 17. gr. laga nr. 38/1954 og reglugerðar nr. 410/1989 gagnvart Sigurði Torfa Guðmundssyni með þeim hætti sem gert var“. Líta verði til þess að hér hafi verið um það að ræða hvort Sigurður fengi engin laun í fæðingarorlofi eða laun í einn mánuð (eftir að barn hans var orðið meira en fjögurra mánaða gamalt og móðir þess hafði því ekki nýlega alið það) á meðan kona hans hafði fengið laun í sex mánuði. Engin krafa hafi verið í málinu um að hjónin fengju sömu krónutölu í greiðslur né að þau fengju laun greidd í sama mánaðarfjölda. Fordæmisgildi dómsins takmarkist að sjálfsögðu af þessum atvikum og þeirri kröfugerð og málsástæðum sem uppi hafi verið hafðar í málinu. Enginn dómur hafi fallið á Íslandi eða erlendis sem styðji þá niðurstöðu að óheimilt sé að taka nokkurt tillit til þess í greiðslum í fæðingarorlofi að konur þurfi að ná sér eftir barnsburð en karlar ekki. Framangreindur Hæstaréttardómur fjalli einfaldlega um ólíka málavexti en um sé að ræða í máli kæranda.

Að lokum tekur Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn fram á að launamunur kynja á Íslandi sé enn til staðar og sé margstaðfestur. Hann sé einn sá mesti í Evrópu. Örðugt sé að sjá hvernig það geti samrýmst markmiðum jafnréttislaga að bæta skuli körlum í opinberri þjónustu, sem hafi umtalsvert hærri laun samkvæmt öllum launakönnunum en konur, upp þau prósent launa sinna í fæðingarorlofi sem sumar konur í opinberri þjónustu fái samkvæmt því samkomulagi aðila sem vísað sé til í þessu máli og ítarleg grein hafi verið gerð fyrir. Að auki séu dómafordæmi um launa- og kjaramun skýr hér á landi um það að sá sem krefjist viðurkenningar á að sá munur sé brot á jafnréttislögum, eða bóta vegna þess munar, verði að beina kröfu sinni að atvinnurekanda sínum, hann verði að sýna fram á hver munur sé á kjörum hans og þess sem hann beri sig saman við og fram fari heildstætt mat á samanburði tveggja starfa til þess að unnt sé að ákvarða hvort þau teljist sambærileg og jafnverðmæt og þar með hvort greiða skuli jöfn laun og önnur kjör fyrir þau.

Samkvæmt öllu framangreindu telur Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn að sú aðferð sem aðilar samkomulagsins frá 24. október 2000, sem kom sjóðnum á fót, hafi ákveðið að beita til að taka sérstakt tillit til kvenna vegna meðgöngu og fæðingar geti ekki talist mismunun í skilningi 22. gr. jafnréttislaga og að sjóðurinn hafi ekki brotið nein önnur ákvæði jafnréttislaga með þeirri kjarasamningsbundnu starfsemi sem hann byggi á. Telur sjóðurinn að sér hafi verið heimilt að hafna viðbótargreiðslum við lögbundinn rétt kæranda til launa í fæðingarorlofi þann mánuð sem hann hafi tekið í fæðingarorlof.

 

V.

Niðurstaða

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við synjun á umsókn hans um greiðslu úr Fjölskyldu- og styrktarsjóðnum vegna töku fæðingarorlofs.

Í grein 3.1.1 í samkomulagi BHM, BSRB og KÍ annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar frá 24. október 2000 er mælt fyrir um stofnun sérstaks sjóðs, Fjölskyldu- og styrktarsjóðs, sem hefur það hlutverk meðal annars að taka við umsóknum, ákvarða og annast greiðslur til félagsmanna í fæðingarorlofi. Í grein 3.1.2 í framangreindu samkomulagi er mælt fyrir um að hluti af iðgjaldi launagreiðanda í sjóðinn verði notað til að greiða þann mismun sem er á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði og reglugerð nr. 410/1989, og að með því iðgjaldi teldist bættur að fullu framangreindur mismunur.

Fyrir liggur að kærandi sendi Fjölskyldu- og styrktarsjóðnum umsókn um greiðslu styrks með bréfi, dags. 20. desember 2006. Í bréfi Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins til kæranda, dags. 20. desember 2006, kemur fram að umsókn hans hafi verið hafnað þar sem ekki hafi verið í gildi samningur um fæðingarorlof karla milli stéttarfélags hans og vinnuveitanda fyrir gildistöku laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Jafnframt kemur fram í bréfi sjóðsins til kæranda að stjórn sjóðsins leggi til grundvallar ákvörðunum sínum það sjónarmið að sjóðurinn bæti þá skerðingu sem umsækjendur hefðu orðið fyrir, hefði sjóðnum ekki verið komið á fót með tilvísuðu samkomulagi frá 24. október 2000. Í þessu felist að bótahlutverk sjóðsins sé að bæta tjón sem orðið hafi vegna breyttra reglna varðandi greiðslu fæðingarorlofs.

Kærunefnd jafnréttismála lítur svo að ákvæði kafla 3.1 í framangreindu samkomulagi kveði ekki afdráttarlaust á um það hvort karlar eigi rétt til greiðslu úr sjóðnum. Í málatilbúnaði sínum byggir Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn hins vegar á því að sjóðnum sé að þessu leyti einungis ætlað það hlutverk að bæta þann mismun sem er á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði og reglugerð nr. 410/1989 og hafi framlag atvinnurekenda í sjóðinn verið reiknað út miðað við þann mismun. Því hafi Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn einungis tekið til meðferðar umsóknir kvenna um greiðslur í fæðingarorlofi en ekki karla, sem þó eftir atvikum sinna sambærilegum og jafnverðmætum störfum hjá sama atvinnurekanda.

Í 65. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 er kveðið á um að allir skulu vera jafnir fyrir lögum meðal annars án tillits til kynferðis. Í 2. mgr. 65. gr. segir að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Í 22. gr. laga nr. 96/2000 segir að hvers kyns mismunun eftir kynferði, hvort heldur bein eða óbein, teljist óheimil. Samkvæmt 1. gr. laganna er markmið þeirra að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Í 23. gr. laga nr. 96/2000 er mælt fyrir um bann við mismunun í kjörum og kveðið á um að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis. Þá er í 14. gr. laganna kveðið á um launajafnrétti, þ.e. að konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Af lögskýringargögnum má ráða að 14. gr. nái einnig til þeirra kjara sem starfsmenn njóta í fæðingarorlofi.

Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn var stofnaður með sérstöku samkomulagi aðila á vinnumarkaði svo sem rakið er hér að framan og hefur meðal annars það hlutverk að annast greiðslur til félagsmanna viðkomandi stéttarfélaga í fæðingarorlofi. Vinnuveitandi greiðir sérstakt iðgjald í sjóðinn. Líta verður svo á með tilliti til reglna sjóðsins að um sé að ræða hluta af kjarasamningsfyrirkomulagi og að greiðslur úr sjóðnum teljist hluti starfskjara þeirra félagsmanna sem eiga rétt á greiðslu úr sjóðnum. Verður því að telja að greiðslurnar ígildi starfskjara og þar með talið til launatekna viðkomandi félagsmanna, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 14. gr. laga nr. 96/2000. Líta má jafnframt svo á að það fyrirkomulag sem Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn byggist á feli í sér samningsbundið framsal á greiðslum sem teljast til launa og starfskjara þeirra sem greiðslna geta notið.

Svo sem að framan greinir kveður 65. gr. stjórnarskrárinnar á um bann við hvers konar mismunun vegna kynferðis, sbr. og 22. gr. laga nr. 96/2000. Með tilliti til tilvísaðs ákvæðis stjórnarskrárinnar og ákvæða laga nr. 96/2000 telst Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn hafa ríkar skyldur til að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla, sbr. 1. gr. laganna.

Skilja ber kæru kæranda í máli þessu svo að hann beri stöðu sína saman við stöðu kvenna er sinna jafnverðmætum og sambærilegum störfum hjá sama atvinnurekanda.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er afstaða Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins sú að einungis konur eigi rétt á greiðslum úr sjóðnum í tengslum við töku fæðingarorlofs. Kærunefnd jafnréttismála telur að synjun sem byggir á þeim sjónarmiðum eingöngu, fari gegn framangreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og laga nr. 96/2000, enda verður ekki séð að synjun á meðferð umsóknar kæranda hafi verið réttlætt með hlutlægum sjónarmiðum, svo sem þeim að konur fái sérstakt tækifæri til að ná sér eftir barnsburð eða öðrum atriðum sem lúta að barnsburði sérstaklega. Í þessu sambandi má einnig hafa til hliðsjónar 3. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000, dóm Hæstaréttar í máli nr. 208/1997 og álit kærunefndar jafnréttismála í málum nr. 10/2003 og 10/2006. Með vísan til þessa telst Fjölskyldu- og styrktarsjóðnum óheimilt að mismuna umsækjendum um styrki í fæðingarorlofi á grundvelli kynferðis, en líta verður svo á að ákvæði 14. og 23. gr. laga nr. 96/2000 eigi hér við per analogiam. Af því leiðir að ákvörðun stjórnar Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins um synjun á umsókn kæranda hafi farið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til Fjölskyldu- og styrktarsjóðs BHM, BSRB og KÍ að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar og að séð verði til þess að kæranda sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis síns við meðferð umsóknar hans í samræmi við framangreint álit kærunefndarinnar.

 

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta