Hoppa yfir valmynd
20. október 2022 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 54/2022- Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 54/2022

 

Ákvörðunartaka. Merkingar utan á atvinnuhúsnæði.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 9. júní 2022, beindi A ehf., hér eftir nefnt álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og C, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 10. ágúst 2022, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 24. ágúst 2022, og athugasemdir gagnaðila, dags. 5. september 2022, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 20. október 2022.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða atvinnuhúsnæðið D, sem skiptist í þrjá matshluta. Matshluti 01 er bakhús, matshluti 02 er tengibygging og matshluti 03 er framhús. Álitsbeiðandi er eigandi eignarhluta á 3. hæð í matshluta 03 en gagnaðili er húsfélagið fyrir matshluta 02 og 03. Ágreiningur snýst um hvort ákvörðun húsfundar um að eigendur eignarhluta á 2. hæð hafi einir umráðarétt yfir veggplássi fyrir auglýsingar á milli glugga á annarri hæð og þriðju hæð sé bindandi og einnig hvort fyrir liggi lögmæt ákvörðun húsfundar fyrir uppsetningu skilta á vegum Í og J á norðurvegg.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

  1. Að viðurkennt verði að allir eigendur í fjöleignarhúsinu að D hafi jafnan rétt til að setja upp merkingar og auglýsingaskilti á norðurvegg hússins.
  2. Að viðurkennt verði að afnotahafa eignarhlutar 03-0201 hafi verið óheimilt að setja upp merkingar og auglýsingaskilti á norðurvegg hússins án samþykkis húsfundar.
  3. Að viðurkennt verði að afnotahöfum eignarhlutar 03-0201 verði gert skylt að fjarlægja merkingar og auglýsingaskilti af norðurvegg hússins.

Í álitsbeiðni segir að um árabil hafi verið uppi ágreiningur meðal eigenda um rétt einstakra eigenda til að setja upp merkingar og auglýsingaskilti. Þannig hafi álitsbeiðandi og E ehf. höfðað mál á hendur F, G ehf. og H ehf. fyrir héraðsdómi í maí 2007 þar sem þess hafi  meðal annars verið krafist að G ehf. og H ehf. yrði með dómi gert skylt að fjarlægja skilti merkt þessum félögum af framhlið hússins. Stefndu hafi verið sýknaðir af kröfunni þar sem skiltin hafi þegar verið komin á framhlið þegar álitsbeiðandi hafi byrjað starfsemi sína í húsinu árið 1997. Skiltin hafi þannig ekki sætt athugasemdum af hálfu álitsbeiðanda fyrr en með málshöfðuninni. Hafi því ekki verið talið að stefndu í málinu hefðu með uppsetningu skiltanna farið á svig við þær almennu takmarkanir sem sérhverjum eiganda og afnotahafa beri skylda til að taka tillit til við nýtingu sameignar. Þá hafi niðurstaðan jafnframt verið byggð á þeirri staðreynd að ekki væri til að dreifa neinum ákvörðunum eða reglum húsfélagsins sem hafi takmarkað þessi afnot eignarinnar. Á aðalfundi 5. apríl 2022 hafi merkingar og auglýsingaskilti á framvegg yfir eignarhluta I ehf. verið til umræðu og ritari fundarins talið að dómurinn heimilaði félaginu að nota viðkomandi svæði að fullu.

Með tölvupósti 11. apríl 2022 hafi eigendur í matshluta 03 verið upplýstir um fyrirhugað útlit merkinga leigjenda eignarhluta 03-0201. Nú sé þar starfrækt verslun Í og J. Með tölvupósti álitsbeiðanda 13. apríl 2022 hafi verið gerðar athugasemdir við útlit, þá einkum stærð, á fyrirhuguðum merkingum. Vísað hafi verið til þess að engar ákvarðanir hefðu verið teknar á húsfundi um auglýsingaskilti og merkingar á framvegg hússins. Eigendur hafi jafnan rétt til að auglýsa þar og því eðlilegt og sanngjarnt að þeir sem séu með rekstur á 2. hæð verði heimilt að nýta helming svæðisins frá sínum glugga og eigendum 3. hæðar helming frá sínum glugga eða með öðrum orðum að miðað verði við plötuskil. Heppilegast yrði að settar yrðu reglur um uppsetningu skilta og annars konar merkinga. Til stæði að álitsbeiðandi seldi eða leigði út hluta af rými félagsins á 3. hæð fyrir starfsemi fyrirtækja sem eðlilega vilji geta auglýst sína starfsemi á framvegg. Stærð fyrirhugaðra skilta kæmu þannig í veg fyrir þennan jafna rétt eigenda og afnotahafa til að auglýsa sína starfsemi.

Á húsfundi 3. júní 2022 hafi staðið til að taka ákvörðun um hvar mætti setja auglýsingaskilti á norðurhlið hússins. Í fundargerð sé rakið að málið hafi snúist um hvort 2. hæð og 3. hæð skipti plássinu á veggnum á milli efri og neðri hæðar á plötuskilum eða hvort plássið sé eingöngu til nota fyrir 2. hæð, þ.e. verslunarhæðina. Ritari hafi talið að það væri alfarið mál aðalfundar eða húsfundar að ákvarða fyrirkomulag auglýsinga utan á húsinu og að auðveldast væri að leysa úr málinu með því að bera upp til atkvæða hvernig þessu yrði háttað. Hafi fundarmenn verið beðnir um að greiða atkvæði um eina af þremur tillögum stjórnar.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hafi verið sú að fulltrúar 72,95% eignarhluta hafi samþykkt að húseignir á 2. hæð, þ.e. verslunarhæð, hafi umráðarétt yfir veggplássi fyrir auglýsingar á milli glugga á 2. og 3. hæð. Enginn hafi greitt atkvæði með tillögu um að umráð yfir veggplássi á milli glugga á 2. og 3. hæð yrði skipt lárétt um plötuskil. Þá hafi fulltrúar 24,92% eignarhluta samþykkt að veggplássinu yrði skipt lóðrétt miðja vegu yfir hverju súlubili eða eftir samkomulagi. Ekki liggi skýrlega fyrir hvort hlutfall atkvæða hafi miðast við stærð eignarhluta hvers og eins í matshluta 02 og 03 eða hlutfallstölu samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu sem taki til allra matshluta.

Framangreind ákvörðun húsfundar sé ekki bindandi með vísan til 3. mgr. 34. gr. og 1. og 4. mgr. 35. gr. og 1. mgr. 36. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Samþykki allra þurfi til að ákveða frávik frá jöfnum rétti til að auglýsa á veggnum. Skylda hvíli á eigendum að virða rétt og hagsmuni annarra eigenda við hagnýtingu eignarinnar. Ekki sé hægt að líta svo á að með umræddri ákvörðun húsfundarins sé komin á sérstök húsfélagssamþykkt í skilningi 75. gr., sbr. 2. gr. laga um fjöleignarhúsalaga, enda ekki þinglýst og um sé að ræða atriði sem allir eigendur verði að samþykkja.

Svo virðist sem miðað hafi verið við stærð eignarhluta, þ.e.a.s. eftir fermetrum í matshlutanum 02 og 03, en ekki hlutfallstölu samkvæmt fyrirliggjandi eignaskiptayfirlýsingu sem taki til matshluta 01, 02 og 03. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um fjöleignarhús skuli eignarhluti í sameign reiknaður út eftir hlutfallstölu. Við atkvæðagreiðslu á húsfundum sem og endranær við sameiginlega ákvarðanatöku fari vægi atkvæða eftir hlutfallstölum, ýmist eingöngu eða einnig.

Þá verði að telja óumdeilt að engin ákvörðun hafi verið tekin um það á húsfundi að afnotahafa tiltekins eignarhluta væri heimilt að setja upp skilti og merkingar á norðurvegg hússins, svo sem ákvæði fjöleignarhúsalaga kveði skýrlega á um. Miðað við fyrri álit nefndarinnar þurfi samþykki 2/3 hluta eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta á löglega boðuðum húsfundi til að setja upp merkingar og auglýsingaskilti utanhúss. Af þeim sökum sé gerð krafa um að afnotahöfum eignarhluta 03-0201 verði gert að fjarlægja uppsettar merkingar og auglýsingaskilti á norðurvegg.

Í greinargerð gagnaðila segir að hafna verði kröfu álitsbeiðanda um að staðfest verði að allir eigendur í fjöleignarhúsinu að D hafi jafnan rétt til að setja upp merkingar á norðurvegg hússins, enda hafi þannig háttað til í matshluta 03, að minnsta kosti síðustu tuttugu árin, að umráðaaðilar verslunar- og þjónusturýma á 2. hæð hafi haft óhefta heimild til að merkja starfsemi sína á norðurhlið (framhlið) fyrir ofan anddyri þeirra sem þar séu á sömu hæð og bílastæði. Þetta hafi verið staðfest með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 3892/2007. Hinn jafni réttur sameigenda til sameignar, sem kveðið sé á um í fjöleignarhúsalögum, sé því takmarkaður af þessum sökum á norðurhlið vegna áunninna réttinda þessara aðila. Réttindin byggi einnig á afnotahefð, enda hafi merkingar verslunar- og þjónustuaðila verið á norðurvegg yfir þeirra rýmum að minnsta kosti í tuttugu ár, þ.e. fullan hefðartíma samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Slík afnot verði að jafna við það að fullt samkomulag sé með húseigendum um að sá háttur skuli á hafður eftirleiðis sem hingað til. Í forsendum dómsins komi jafnframt fram að um atvinnuhúsnæði sé að ræða og eðlilegt verði að teljast, eins og algengt sé, að sett séu skilti og merkingar um þá starfsemi sem fram fari í viðkomandi húsnæði. Loks sé á það bent, eins og einnig komi fram í forsendum dómsins, að þegar álitsbeiðandi hafi byrjað starfsemi í húsinu hafi skiltin verið komin upp á framhlið þess.

Þá liggi þegar fyrir samþykkt húsfundar fyrir merkingum en samþykki 2/3 hluta eigenda hafi dugað, enda um atvinnuhúsnæði að ræða, sbr. álit kærunefndar í máli nr. 3/2011. Verði ekki á það fallist sé vísað til þess að fram komi í áðurnefndum dómi að á húsfundi 31. ágúst 2007 hafi verið samþykkt að þau skilti og aðrar merkingar sem þá hafi verið á húsinu mættu vera þar, þar til húsfundur tæki ákvörðun um annað.

Þá telji gagnaðili álitsbeiðnina bersýnilega tilefnislausa og geri kröfu um að álitsbeiðanda verði gert að greiða honum hæfilegan málskostnað vegna ritunar greinargerðarinnar, eftir mati kærunefndar, með vísun til heimildar í 6. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Í athugasemdum álitsbeiðanda segir að gagnaðili virðist byggja kröfu sína um höfnun á fyrsta kröfuliðnum á því að umráðaaðilar verslunar- og þjónusturýma á 2. hæð hafi haft óhefta heimild til að merkja starfsemi sína á norðurveggnum og það hafi verið staðfest með dómi héraðsdóms. Þessi túlkun gagnaðila standist ekki skoðun. Í dómsmálinu hafi þess meðal annars verið krafist af tveimur eigendum að öðrum tveimur eigendum  yrðu með dómi gert skylt að fjarlægja skilti á þeirra vegum af framhlið hússins. Í forsendum dómsins sé tekið fram að „eðlilegt verður að teljast, eins og algengt er, að sett séu upp skilti og merkingar um þá starfsemi, sem fram fer í viðkomandi húsnæði.“ Sérstaklega hafi verið litið til þess af hálfu dómsins að skilti á vegum G hafi verið komin upp á framhlið hússins árið 1997 þegar annar stefnenda, þ.e. álitsbeiðandi, hafi byrjað starfsemi sína í húsinu. Skiltin hafi ekki sætt athugasemdum af hans hálfu fyrr en með málshöfðuninni. Þá hafi ekki legið fyrir að stefnendur í málinu hefðu sett fram sérstakar óskir um að setja sjálfir upp skilti á framhliðinni fyrir starfsemi sína. Með vísan til þessa hafi því ekki verið talið að stefndu í málinu hefðu með uppsetningu skiltanna farið á svig við þær almennu takmarkanir sem sérhverjum eiganda og afnotahafa beri skylda til að taka tillit til við hagnýtingu sameignar. Einnig hafi verið litið til þess í forsendum dómsins að ekki væri til að dreifa neinum ákvörðunum eða reglum húsfélagsins sem takmörkuðu þessi afnot eignarinnar.

Af framanröktu sé ljóst að með engu móti sé hægt að túlka niðurstöðu dómsins á þá leið að í henni felist einhvers konar takmörkun og þá til frambúðar á jöfnum rétti eigenda til hagnýtingar á sameign í fjöleignarhúsi. Hvergi í forsendum dómsins sé vikið að því að afmarkaður hópur umráðaaðila í fjöleignarhúsinu skuli til frambúðar hafa óhefta heimild fram yfir aðra hvað varði uppsetningu á skiltum og merkingum. Staðreyndin sé sú að hér sé um að ræða niðurstöðu í dómsmáli sem taki til afmarkaðs sakarefnis og sé úrlausnin bindandi eingöngu fyrir aðila þessa máls. Því sé skilningi gagnaðila á niðurstöðu dómsins alfarið hafnað og meintu fordæmisgildi hans varðandi þann ágreining sem mál þetta fyrir kærunefndinni taki til.

Af níu auglýsingaskiltum nái sjö þeirra yfir allan vegginn upp að gluggapóstum 3. hæðar. Sé því vart hægt að fullyrða að umráðaaðilar rýma á 2. hæð hafi haft og hafi til frambúðar slíka einhliða nýtingarheimild á sameign svo sem gagnaðili virðist byggja á.

Í síðari málslið 1. mgr. 36. gr. laga nr. 26/1994 séu reistar skorður við stofnun eignarrétttar á grundvelli hefðar og beri því þegar að hafna málsástæðu gagnaðila þar um.

Ákvörðun húsfundar frá 31. ágúst 2007, sem engin afstaða hafi verið tekin til í forsendum héraðsdómsins, breyti hér engu, enda ákvæði fjöleignarhúsalaga skýr um það að samþykki allra þurfi til að ákveða frávik frá jöfnum rétti. Sú ákvörðun húsfundar 3. júní 2022 að eingöngu umráðaaðilar rýmis á 2. hæð hafi umráðarétt yfir veggplássinu fyrir auglýsingar falli þannig óumdeilt undir 4. mgr. 35. gr. fjöleignarhúsalaga, sbr. 9. tölul. A liðar 41. gr. sömu laga, og þurfi til slíkra ákvarðana samþykki allra eigenda.

Álitsbeiðandi hafi komið á framfæri athugasemdum við fyrirhugaðar merkingar hjá Í og J, meðal annars með tölvupósti 13. apríl 2022. Þar hafi meðal annars verið bent á að til stæði af hálfu álitsbeiðanda að selja eða eftir atvikum leigja út hluta af rými félagsins á 3. hæð og eðlilegt og sanngjarnt væri að umráðaaðilar þar fengju að auglýsa sína starfsemi á útvegg með sama hætti og umráðaaðilar á 2. hæð. Ekki sé því hægt að líta svo á að bindandi reglur séu til staðar varðandi notkun og staðsetningu skilta og því verði að fallast á kröfu álitsbeiðanda um að þessi skilti skuli fjarlægð. Þá sé óumdeilt að ekki hafi verið leitað eftir samþykki húsfélagsins fyrir téðum skiltum. Á meðan svo sé hafi umráðaaðilar enga heimild til að nýta sameignina undir skilti og beri að fjarlægja þau án tafar.

Í athugasemdum gagnaðila eru fyrri sjónarmið ítrekuð.

III. Forsendur

Í 2. mgr. 2. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að hýsi fjöleignarhús atvinnustarfsemi, að öllu leyti eða hluta, sé eigendum heimilt að víkja frá fyrirmælum laga þessara með sérstökum samþykktum eða samningum, sbr. 75. gr., sem þinglýsa skuli. Gildi ákvæði laganna þá um öll þau atriði sem ekki sé ótvírætt samið um á annan veg. Jafnframt gildi ákvæði laganna til fyllingar slíkum samningsákvæðum. Liggi engir samningar fyrir um aðra skipan eða náist ekki nauðsynleg samstaða með eigendum um frávik gilda ákvæði laganna óskorað um slíkt húsnæði.

Í 1. mgr. 34. gr. laga um fjöleignarhús segir að séreignareigandi hafi ásamt og í félagi með öðrum eigendum rétt til hagnýtingar þess hluta fjöleignarhússins sem sé sameiginlegur, svo og sameiginlegrar lóðar og búnaðar. Í 2. mgr. sömu greinar segir að réttur þessi nái til sameignarinnar í heild og takmarkist eingöngu af hagsmunum og jafnríkum rétti annarra eigenda, en slíkar takmarkanir sé að finna í lögum þessum og samþykktum og reglum húsfélags samkvæmt þeim. Þá segi í 3. mgr. að réttur til að hagnýta sameign fari ekki eftir hlutfallstölum og hafi allir eigendur jafnan hagnýtingarrétt, þótt hlutfallstölur séu misháar.

Í 1. mgr. 35. gr. segir að sérhverjum eiganda og afnotahafa beri skylda til að taka sanngjarnt og eðlilegt tillit til annarra eigenda og afnotahafa við hagnýtingu sameignar og fara í hvívetna eftir löglegum reglum og ákvörðunum húsfélagsins varðandi afnot hennar. Í 4. mgr. sömu greinar kemur fram að einstökum eigendum verði ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur, nema allir eigendur ljái því samþykki.

Samkvæmt fundargerð húsfundar sem haldinn var 3. júní 2022 var mætt fyrir 86% eignarhluta  hússins. Með atkvæðum 72,95% eignarhluta var samþykkt tillaga stjórnar um að húseignir á 2. hæð hefðu umráðarétt yfir veggplássi fyrir auglýsingar á milli glugga á 2. og 3. hæð.

Gagnaðili byggir á því að síðastliðin tuttugu ár að minnsta kosti hafi umráðaaðilar verslunar- og þjónusturýma á 2. hæð haft óhefta heimild til að merkja starfsemi sína á norðurhlið hússins og að réttur þessi byggi á afnotahefð.

Í 77. gr. laga um fjöleignarhús segir að liggi fyrir þinglýstur samningur, samþykktir eða eignaskiptayfirlýsing, gerð fyrir gildistöku laganna sem hafa að geyma ákvæði er fara í bága við ófrávíkjanleg ákvæði þeirra, skulu slík samningsákvæði þoka fyrir ákvæðum laganna. Þetta gildir þó ekki um samninga um fjöleignarhús sem hafa eingöngu að geyma atvinnustarfsemi, sbr. 2. mgr. 2. gr.

Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu, innfærðri til þinglýsingar 12. janúar 2001, er matshluti þrjú þriggja hæða framhús þar sem á 1. hæð eru iðnaðar- og verslunarrými, á 2. hæð eru verslanir og þjónusturými og á efstu hæð eru skrifstofur. Ekki er fjallað um merkingar utan á húsinu í eignaskiptayfirlýsingunni og ekki verður ráðið að önnur þinglýst gögn liggi fyrir um utanhússmerkingar. Þá segir í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um fjöleignarhús að eigandi geti ekki öðlast sérstakan rétt til sameignar á grundvelli hefðar, hvorki eignarétt né aukinn afnotarétt. Verður því ekki fallist á að framangreind sjónarmið gagnaðila hafi þýðingu við úrlausn málsins.

Álitsbeiðandi nefnir að til standi af hans hálfu að selja eða leigja út eignarhluta sinn á 3. hæð og eðlilegt og sanngjarnt sé að umráðaaðilar þar geti auglýst starfsemi sína á útvegg með sama hætti og eigendur eignarhluta á 2. hæð. Fyrir liggja myndir sem sýna að svæðið á milli glugga á 2. og 3. hæð í matshluta 03 er eina veggplássið sem eignarhlutar beggja hæða hafa til að auglýsa starfsemi sína en ofan við glugga 3. hæðar er þak hússins. Verður því að telja framangreinda ákvörðun húsfundar um að eignarhlutar á 2. hæð hafi einir umráðarétt til setja upp auglýsingar á því svæði veita einstökum eigendum aukinn og sérstakan rétt til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur sem eigendur allir þurfa að samþykkja, sbr. 4. mgr. 35. gr. laga um fjöleignarhús, en samkvæmt 3. mgr. 34. gr. sömu laga hafa allir eigendur jafnan hagnýtingarrétt á sameign, þótt hlutfallstölur séu misháar. Ljóst er að samþykki allra lá ekki til grundvallar ákvörðuninni á húsfundinum 3. júní 2022 og telur nefndin því að um ólögmæta ákvörðun sé að ræða. Verður því fallist á kröfu álitsbeiðanda í lið I og viðurkennt að eigendur hafi jafnan rétt til að setja upp merkingar og auglýsingaskilti á norðurhlið hússins, enda hafi ekki verið komið í veg fyrir það með lögmætum hætti.

Álitsbeiðandi gerir kröfu um viðurkenningu á því að afnotahafa eignarhlutar 03-0201 hafi verið óheimilt að setja upp merkingar og auglýsingaskilti á norðurvegg hússins án samþykkis húsfundar og beri því að fjarlægja þær. Í ljósi 1. mgr. 35. gr. bar afnotahöfum eignarhlutarins að taka sanngjarnt og eðlilegt tillit til annarra eigenda og afnotahafa við uppsetningu merkinga og auglýsingaskilta. Af gömlum myndum, sem eru á meðal gagna málsins, má ráða að áður hafi skilti eigenda eða afnotahafa 2. hæðar almennt þakið hálfan flötinn á milli 2. og 3. hæðar. Þau skilti sem um ræðir í málinu eru stór og þekja allan flötinn á milli hæðanna og takmarka þannig verulega möguleika eigenda og afnotahafa á 3. hæð til að auglýsa eða merkja starfsemi sína. Vegna þessa veita merkingarnar og skiltin einum sameiganda aukinn og sérstakan rétt umfram aðra eigendur og þurfti því samþykki allra eigenda á húsfundi fyrir þessari tilfærslu, sbr. 4. mgr. 35. gr., sbr. og 9. tölul. A liðar 41. gr. laga um fjöleignarhús. Er það því álit kærunefndar að tilfærslan hafi verið ólögmæt og að skiltin beri að fjarlægja.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E3892/2007 hefur ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins, að mati kærunefndar, þar sem ekki virðist í dóminum hafa verið sérstaklega fjallað um beitingu 4. mgr. 35. gr. laganna. Þá liggur ekki fyrir hvernig merkingum var háttað á byggingunni á þeim tíma er dómurinn gekk.

Vegna málskostnaðarkröfu gagnaðila þá hefur kærunefndin engar heimildir til að ákvarða málskostnað í málum sem varða ágreining á grundvelli laga um fjöleignarhús. Er henni því hafnað.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að fallast beri á kröfur álitsbeiðanda.

 

Reykjavík, 20. október 2022

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Víðir Smári Petersen                                     Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta