Eistland býður Íslendingum aðstöðu fyrir sendiráð í Peking
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og kollega hans í Eistlandi, Urmas Paet, undirrituðu fyrr í dag í Tallinn samning um samnýtingu húsnæðis fyrir sendiráð landanna í Peking. Samkvæmt honum fær Ísland endurgjaldslaust til afnota 225 fm. húsnæði undir sendiráð sitt í Kína, en ríkin deila með sér rekstrarkostnaði hússins. Húsið verður tilbúið á fyrri hluta næsta árs.
Tilkynnt var um þetta á blaðamannafundi í kjölfar fundar ráðherranna í Tallinn, en utanríkisráðherra er staddur þar í opinberri heimsókn í boði eistneskra stjórnvalda.
Eistneski utanríkisráðherrann, Urmas Paet, sagði á blaðamannafundinum að Eistland stæði í ævarandi þakkarskuld við Íslendinga fyrir að hafa brotið ísinn með því að verða fyrst ríkja til að viðurkenna endurnýjað fullveldi Eistlands árið 1991. Því myndu Eistar seint gleyma. Eistar hefðu verið í þeirri aðstöðu að hafa húsnæði umfram þarfir í nýrri sendiráðsbyggingu í Peking, og þótt einboðið að bjóða vinaþjóð sinni Íslandi afnot af húsnæðinu. Það væri liður í því að styrkja enn frekar hlýtt vináttusamband ríkjanna og sýna þakklæti fyrir stuðning Íslands þegar mest á reið.
„Hlýhugurinn sem birtist í þessu boði Eistlands er okkur mikils virði, og húsnæðið kemur okkur í góðar þarfir vegna vaxandi umsvifa Íslendinga í Kína. Það er líka rétt að undirstrika að Eistar hafa alla tíð frá því við viðurkenndum endurnýjað fullveldi þeirra 1991 staðið með okkur í gegnum þykkt og þunnt. Þeir stóðu með okkur í Icesave-deilunni og nú síðast hafa þeir veitt okkur ómetanlegan stuðning í baráttu okkar gegn viðskiptaþvingunum vegna makríldeilunnar,” sagði Össur Skarphéðinsson á blaðamannafundinum fyrr í dag.
Þetta er fimmta íslenska sendiráðið sem deilir húsnæði með öðrum þjóðum en fyrir eru sendiráðin í London, Washington, Kaupmannahöfn og Berlín, öll með norrænum þjóðum.
Á vinnufundinum fór íslenski ráðherrann yfir stöðu aðildarumsóknar, og pólitíska stöðu á Íslandi í aðdraganda þingkosninganna. Hann ræddi sérstaklega makríldeiluna, og ítrekaði rök Íslands gegn hugmyndum um viðskiptaþvinganir vegna hennar, jafnframt því að undirstrika vilja Íslands til að ná samningum um skynsamlega nýtingu makrílstofnsins.
Ráðherrarnir ræddu stöðu mála innan ESB. M.a. var sérstaklega farið yfir góða reynslu Eista af evrunni, og farið yfir sterka stöðu Eistlands innan Evrusvæðisins. Eistland er nýjasti meðlimur þess.
Málefni norðurslóða voru sömuleiðis rædd. Össur undirstrikaði vilja Íslands til að kynna afstöðu sína til nýtingar og umgengni við norðurslóðir fyrir þjóðum í nágrenni þeirra.
Ráðherrarnir urðu sammála um að halda á næsta ári ráðstefnu í Tallinn um norðurslóðir í tengslum við komandi formennsku Eistlands í svæðisbundnu samstarfi þjóða við Eystrasalt og samhliða formennsku Íslands i Norðurlandasamstarfinu.
Málefni NATO voru einnig rædd ítarlega með tilliti til næsta leiðtogafundar NATO.