Hoppa yfir valmynd
23. september 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aukin lýðræðisleg þátttaka ungmenna: Samvinna við Samfés

Dúna Baldursdóttir formaður stjórnar Samfés, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Victor Berg Guðmundsson framkvæmdastjóri Samfés.  - myndHáskóli Íslands / Kristinn Ingvarsson
Markmið nýs samnings tveggja ráðuneyta við Samfés er aukið samstarf um verkefni sem tengjast lýðræðislegri þátttöku ungmenna í ákvarðanatöku á landsvísu. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra skrifuðu undir samninginn í dag ásamt Dúnu Baldursdóttur formanni stjórnar Samfés og Victori Berg Guðmundssyni framkvæmdastjóra.

Samfés eru frjáls félagasamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi og hefur verið starfrækt frá árinu 1985. Auk viðburða sem Samfés stendur fyrir er meginmarkmið samtakanna að styðja við aukna félags- og lýðræðisþátttöku ungs fólks á Íslandi. Samfés styður við öflugt ungmennaráð sem samanstendur af 27 lýðræðislega kjörnum fulltrúum frá öllum kjördæmum landsins og starfar á landsvísu. Ungmennaráð Samfés byggir m.a. á æskulýðslögum nr. 70/2007 þar sem hlutverk ungmennaráða er að vera til ráðgjafar um málefni ungs fólks.

Samfés vinnur nú þegar með mennta- og menningarmálaráðuneytinu að margvíslegum verkefnum sem hefur fjölgað með samþykkt laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og stefnu um Barnvænt Ísland (framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna).

Meðal verkefna sem fjallað er um í samningnum eru rýni og aðstoð við eftirfylgd stærri ákvarðana og lagafrumvarpa út frá stöðu og réttindum barna og ungmenna þ.m.t. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og framkvæmd aðgerða Barnvæns Íslands og vitundarvakning um geðheilbrigðismál barna og ungmenna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta