Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2011

Fimmtudaginn 28. apríl 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 5/2011:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi A, dagsettu 8. febrúar 2011, var kærð til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar um fyrirframgreiðslu á húsaleigu og vegna húsbúnaðarstyrks. Kærandi sótti um styrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu að fjárhæð 260.000 kr. með umsókn, dags. 21. desember 2010. Hann sótti einnig um styrk til húsbúnaðarkaupa að fjárhæð 100.000 kr. með umsókn, dags. 21. desember 2010. Kæranda var synjað um styrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu með bréfi Vesturgarðs, þjónustumiðstöð Vesturbæjar, dags. 23. desember 2010, og honum var einnig synjað um húsbúnaðarstyrk með bréfi Vesturgarðs, dags. 23. desember 2010. Kærandi skaut þessum ákvörðun til velferðarráðs sem staðfesti niðurstöðurnar á fundi sínum þann 19. janúar 2011.

 

I. Málavextir.

Kærandi er fráskilinn þriggja barna faðir, en börnin eru 20, 17 og 14 ára. Fyrrverandi eiginkona hans lést úr krabbameini í apríl 2010 en hún bjó á B ásamt börnum þeirra. Yngsti sonurinn býr nú hjá föður sínum á Íslandi. Kærandi var áður í neyslu en fór í áfengismeðferð og hefur verið að byggja sig upp. Hann er með fasta vinnu hjá Reykjavíkurborg. Kærandi er einnig í endurhæfingu eftir hjartaáfall sem hann fékk fyrir tveimur árum.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi kveðst hafa búið ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni og börnum á B en þar lagði hann stund á C. Þau skildu árið 1994 og hann flutti til Íslands árið 2007. Hann starfar nú við umönnun eldri borgara. Sonur kæranda, sem býr hjá honum, er með asperger-heilkenni og mun þurfa á mikilli umönnun að halda. Drengurinn stundar nám við D og æfir knattspyrnu. Kærandi kveðst leggja sig allan fram og verði að neita sér um alla þá aukavinnu sem honum bjóðist vegna drengsins. Kærandi segir það vera einlæga ósk sína að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð þar sem þörf hans sé afar brýn.

  

III. Málsástæður velferðarráðs.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar vísar til reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem tóku gildi 1. janúar 2004.

Af hálfu Velferðarsviðsins kemur fram að samkvæmt 24. gr. tilvitnaðra reglna sé heimilt að veita þeim sem hafa haft tekjur við eða undir grunnfjárhæð í mánuðinum sem sótt sé um og í mánuðinum á undan lán eða styrk til fyrirframgreiðslu húsaleigu. Þinglýstur leigusamningur skuli liggja fyrir eða önnur staðfesting um að samningur eigi við rök að styðjast. Miða skuli við að leigufjárhæð sé í samræmi við leigu á almennum markaði. Það sé ljóst í máli kæranda að mati velferðarráðs að skilyrði 24. gr. um tekjuviðmið séu ekki uppfyllt en samkvæmt upplýsingum frá þjónustumiðstöð sé kærandi með tekjur frá atvinnuveitanda að fjárhæð 224.260 kr. auk lífeyrissjóðsgreiðslna að fjárhæð 8.930 kr. eða samtals 233.190 kr. Grunnfjárhæð sú sem miðað sé við í 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð sé 125.540 kr. og sé því ljóst að tekjur kæranda séu hærri en umrædd grunnfjárhæð. Velferðarráð hafi því talið að skilyrði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð væri ekki uppfyllt og hafi synjað kæranda um styrk til fyrirframgreiðslu eða tryggingar húsnæðis að fjárhæð 260.000 kr.

Hvað varði umsókn kæranda um húsbúnaðarstyrk beri að líta til 20. gr. reglna um fjárhagsaðstoð en þar komi fram að heimilt sé að veita fjárhagsaðstoð til kaupa á húsbúnaði í þar tilgreindum tilvikum og að uppfylltum þeim skilyrðum sem þar eru sett í stafliðum a, b, c og d. Það sé ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði sem sett eru í 20 gr. reglnanna hvað varði greiðslu styrks til kaupa á húsbúnaði. Kærandi uppfylli ekki a-, b- og d-liði reglnanna um að hann hafi lægri tekjur en sem nemi grunnfjárhæð sem sé 125.540 kr. skv. 11. gr. reglnanna en tekjur kæranda séu eins og áður hafi komið fram 224.260 kr. auk þess sem hann fái 8.930 úr lífeyrissjóði. Þá hafi kærandi ekki verið búsettur á stofnun undanfarin tvö ár eins og kveðið sé á um í a-lið og aldursviðmið b-liðar séu ekki uppfyllt. Þá eigi c-liður ekki við um tilvik kæranda. Af framangreindum ástæðum hafi velferðarráð ekki talið skilyrði 20. gr. uppfyllt og staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um húsbúnaðarstyrki.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði beri að veita kæranda styrk að fjárhæð 260.000 kr. til fyrirframgreiðslu húsaleigu. Enn fremur er ágreiningur um það hvort velferðarráði beri að veita kæranda fjárhagsaðstoð til húsbúnaðarkaupa að fjárhæð 100.000 kr.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. mgr. 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem tóku gildi 1. janúar 2004, sem fjallar um styrk eða lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu og til tryggingar húsaleigu, kemur fram að heimilt sé að veita þeim sem hafa haft tekjur við eða undir grunnfjárhæð í mánuðinum sem sótt er um og í mánuðinum á undan lán eða styrk til fyrirframgreiðsluhúsaleigu. Þinglýstur húsaleigusamningum skal liggja fyrir eða önnur staðfesting um að samningur eigi við rök að styðjast. Miða skal við að leigufjárhæð sé í samræmi við leigu á almennum markaði. Eins og fram hefur komið eru tekjur kæranda samtals 233.190 kr. og uppfyllir hann því ekki tekjuviðmið 1. mgr. 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, en grunnfjárhæð sú sem þar er miðað við nemur 125.540 kr. Kærandi á því ekki rétt á styrk til fyrirframgreiðslu húsaleigu.

Í 20. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem tóku gildi 1. janúar 2004, er fjallað um fjárhagsaðstoð til kaupa á húsbúnaði. Fram kemur að hún sé heimil í eftirfarandi tilvikum:

a)      til einstaklings, sem hefur lægri tekjur en sem nema grunnfjárhæð, er eignalaus og er að stofna heimili eftir a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun,

b)      til ungs fólks á aldrinum 18–24 ára, sem er eignalaust, með tekjur við eða undir grunnfjárhæð, hefur átt í miklum félagslegum erfiðleikum og er að stofna heimili í fyrsta sinn,

c)      þegar rýma þarf íbúð af heilbrigðisástæðum.

Tekjur kæranda eru, eins og fram hefur komið, töluvert umfram grunnfjárhæð og hann er ekki að stofna heimili eftir tveggja ára dvöl á stofnun. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði a-liðar 20. greinarinnar. Þá uppfyllir hann hvorki b- né c-lið greinarinnar varðandi ungan aldur eða að rýma þurfi íbúð af heilbrigðisástæðum. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar varðandi beiðni kæranda um styrk vegna húsbúnaðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

  

Úrskurðarorð

 Ákvarðanir velferðarráðs Reykjavíkur frá 19. janúar 2011 varðandi styrk að upphæð 260.000 kr. til fyrirframgreiðslu húsaleigu og styrk að fjárhæð 100.000 kr. vegna húsbúnaðarkaupa, í máli A, eru staðfestar.

 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta